Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Sameinar rafbílahleðslumarkaðinn í einu appi

„Mað­ur þarf mik­ið hug­rekki til að taka stórt skref og stíga inn í start up-heim­inn,“ seg­ir einn stofn­enda fyr­ir­tæk­is­ins e1, Hafrún H. Þor­valds­dótt­ir. App­ið e1 býð­ur eig­end­um raf­hleðslu­stöðva að leigja hleðslu­stöðv­ar sín­ar út til raf­bíla­eig­enda. Næst­um 10.000 manns hafa hlað­ið app­inu nið­ur.

„Við erum fyrirtæki sem auðveldar fólki aðgengi að hleðslustöðvum,“ segir viðskiptafræðingurinn Hafrún H. Þorvaldsdóttir. Hún er einn af þremur stofnendum fyrirtækisins e1 en það sameinar rafhleðslumarkaðinn í einu appi sem notað er af tæplega 10.000 manns.

Appið virkar þannig að eigendur rafhleðslustöðva geta skráð þær inn í appið þannig að rafbílaeigendur fái aðgang að þeim gegn gjaldi. „Við erum eins og Airbnb fyrir hleðslustöðvar. Það geta allir komið með hleðslustöðvarnar sínar inn og það geta allir hlaðið niður appinu okkar,“ segir Hafrún og útskýrir hvernig stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar nýta sér þjónustuna. „Ef þú átt hleðslustöð og vilt setja hana inn í kerfið, þá bara gjörðu svo vel.“

Hafrún hefur áratuga langa reynslu af orkugeiranum og starfaði meðal annars sem sölustjóri hjá ON, Orku náttúrunnar, þar sem hún sá um að koma upp rafhleðslustöðvum um allt land.

Meðeigendur Hafrúnar í e1 eru þeir Axel R. Eyþórsson tæknistjóri og Konráð Ö. Skúlason, sem sér um viðskiptaþróun fyrirtækisins. Reynsla og þekking hópsins á íslenska orkumarkaðnum hefur reynst dýrmæt við stofnun e1 enda segir Hafrún þau öll hafa skoðun á því hvað sé best fyrir rafbílaeigendur. 

Hafrún H. ÞorvaldsdóttirEInn stofnenda e1 sem sameinar íslenska hleðslumarkaðinn fyrir þá sem eiga hleðslustöðvar og rafbílaeigendur sem þurfa á þeim að halda.

Hvernig varð e1 til?

Hugmyndin að fyrirtækinu varð til árið 2015 þegar Axel og Konráð stunduðu MPM nám við Háskólann í Reykjavík og unnu að sameiginlegu verkefni. „Þar kviknaði hugmynd að opnu kerfi sem allir hefðu aðgang að, hringrásarhagkerfi eða deilihagkerfi fyrir hleðslustöðvar og rafbílaeigendur. Það er hugmyndin sem við fórum af stað með í janúar 2022 og gerðum að veruleika með e1. E1 fyrir öll og öll fyrir e1nn,“ segir Hafrún og brosir breitt.  

Slagorð fyrirtækisinse1 er aðgengilegt öllum.

Fyrstu mánuðir fyrirtækisins fóru í að móta skýra heildarhugmynd af starfseminni og að auka skilning á markaðnum. „Þó ég hafi verið á þessum markaði, þá var ég hinum megin við borðið að setja upp hleðslur sjálf og reka þær. En ég þurfti að setja mig inn í hvað fólkið í landinu og fyrirtækin vilja. Hvernig við gætum sameinað þetta í þjónustu sem gæti þjónað öllum,“ segir Hafrún þegar hún lýsir þessum fyrstu mánuðum.  

Þegar heildarhugmyndin var orðin klár fóru stórir hlutir að gerast. „Ég get ekki sagt annað en að þetta hafi verið ævintýralegt ár til þessa. Núna í haust, september 2023, erum við komin með 70% af öllum stóru hleðsluþjónustuaðilunum á markaði og fjölda stórfyrirtækja sem eru dreifð víða um land og nýta þjónustuna okkar á öllum sínum starfsstöðvum. Og líka fyrir starfsfólkið sitt heima sem fer kannski heim á fyrirtækjabílum og hleður heima.“ 

TeymiðÍ teyminu sem kemur að daglegum rekstri eru Hafrún H. Þorvaldsdóttir, Axel R. Eyþórsson, Konráð Ö. Skúlason og Sebastian H. Momberger

e1 sér um að rukka fyrirtæki fyrir þá þjónustu þannig að starfsfólk beri ekki kostnað af hleðslunni. „Þetta er alveg magnað, að geta auðveldað orkuskiptin svona alla leið heim í hús í gegnum fyrirtækin.“ 

„Núna í haust, september 2023, erum við komin með 70% af öllum stóru hleðslusþjónustuaðilunum á markaði“
Hafrún H. Þorvaldsdóttir

Út fyrir þægindarammann

Fyrir Hafrúnu, sem hafði unnið í stabílum geira í langan tíma, var áskorun að fara út fyrir þægindarammann og í frumkvöðlastarfsemina. „Maður þarf mikið hugrekki til að taka stórt skref og stíga inn í start up-heiminn.“

Hafrún segir leitina að fjármagni hafa verið það sem var mest krefjandi við ferlið þó að það sé auðvitað eitthvað sem fylgi því að stofna nýtt fyrirtæki. „Að geta komið öllu í framkvæmd með fjármagni, það er erfiða skrefið. Nú er það vonandi að takast.“

Aðspurð hvort eitthvað hafi komið henni á óvart við ferlið brosir Hafrún og svarar því hversu skemmtilegt það sé búið að vera. Um þessar mundir er fyrirtækið staðsett í Grósku og sækir Hafrún stuðning í fólkið í kringum sig sem er líka að vinna að ýmiss konar nýsköpunarverkefnum. „Þetta er bara virkilega skemmtilegur staður að vera á, hérna í Grósku innan um allt þetta hugrakka og djarfa fólk sem fer þessa leið að fara út fyrir þægindahringinn.“ 

Hún finnur fyrir sigurtilfinningu þegar hún hugsar til þess að fyrirtækið sé orðið að veruleika og að viðbrögðin séu jákvæð. „Það er frábært að vera partur af stórkostlegu teymi sem hefur meiri háttar reynslu á þessu sviði sem við erum í. Og finna að þegar við setjum hausinn í bleyti saman hvernig stórir hlutir gerast. Við náum að brjóta hvern múrinn á fætur öðrum og fá fólk í samstarf með okkur.“ 

„Við viljum bara betra aðgengi að hraðhleðslum og vera partur af þessu deilihagkerfi sem e1 er. Nútíðin og framtíðin er komin til að vera svona í opnum hagkerfum. Það er fullt af stórum aðilum sem eru að keppa um að vera með bestu þjónustuna og við erum bara að styðja við þá að gera það. Það er neytandinn sem nýtur góðs af því, sem erum þú og ég.“ 

Af hverju á einhver sem les þetta viðtal að fara og hlaða niður appinu?

„Af því að við erum að ná að sameina markaðinn, hleðsluþjónustumarkaðinn, á einum stað í e1 appinu. Það einfaldar honum lífið. Það er eina gildið okkar, einfaldleiki. Við viljum hjálpa einstaklingnum að einfalda líf sitt og fá aðgang að sem flestum hleðslustöðvum.“

AppiðHátt í 10.000 notendur hafa sótt sér appið e1.

Jákvæðni, hugrekki og staðfesta

Fyrsta skref fyrirtækisins er að sameina íslenska markaðinn en Hafrún segir engum hafa tekist það áður, hvorki hérlendis né erlendis. „Það væri stórkostlegt skref í rétta átt. Ég held að það myndi þýða eitthvað ofboðslega jákvætt fyrir íslenskt hagkerfi að önnur lönd gætu í sinni orkuskiptavegferð horft til Íslands.“ Þannig skapast einnig tækifæri fyrir Íslendinga til að flytja út þekkingu og auka samstarf við erlenda aðila. 

Fyrir einstaklinga væri ekki hægt að lifa á því að leigja út rafhleðslustöðvarnar sínar nema þær væru nokkuð margar. „Það er ákveðinn stofnkostnaður að eiga stæði eða stórt bílastæði og síðan að leggja rafmagn í stæðið, kaupa stöðina og setja hana í stöðina. Rafmagn er frekar ódýrt á Íslandi en það er náttúrlega ekki ódýrt að eilífu. Það er hægt að vera með góða álagningu á þessum stöðvum og samsetta verðskrá.“

Þeir sem leigja út hleðslustöðvarnar sínar geta valið milli þess að rukka aðeins kílóvattstundardaggjald eða bæta við mínútugjaldi eftir að bíllinn er búinn að standa í stæðinu í einhvern ákveðinn tíma. 

Aðspurð um uppskriftina að árangri fyrirtækja í frumkvöðlaheiminum segir Hafrún: „Það er jákvæðni, staðfesta, hugrekki og að gefast aldrei upp. Það þarf mikla orku líka. Það þarf að vera tilbúinn að gefa allt í þetta, blóð, svita og tár. Og hafa trú á heildarhugmyndinni sinni, sjálfum sér og teyminu sínu. Ekki gefast upp á fjárfestunum. Það kemur á endanum, maður þarf bara að hafa trú á þessu öllu saman og þá fær fólk líka trú á þessu með þér. Þetta er bara svo skemmtilegt, ég held að það séu gígantísk tækifæri í íslensku hagkerfi til að styðja betur við frumkvöðla og gera stóra hluti,“ segir Hafrún. 

„Ekki gefast upp á fjárfestunum. Það kemur á endanum, maður þarf bara að hafa trú á þessu öllu saman og þá fær fólk líka trú á þessu með þér.“
Hafrún H. Þorvaldsdóttir

Hvað er það besta við að hafa stofnað e1?

„Það kemur svo margt upp í hugann að það kemur ekkert út úr mér, ég er eiginlega orðlaus." Hafrún hlær og bætir við: „Það er ekki oft sem það gerist.“

Hún segir það besta vera að geta sett gott fordæmi fyrir börnin sín. „Það besta er líklega að fá að vera fyrirmynd fyrir börnin mín. Sýna að maður getur stappað út, staðið upp með sína menntun og allan sinn bakgrunn. Og geta staðið með sjálfum sér og farið og gert eitthvað nýtt og æðislegt, og breytt heiminum. Breytt lífi fólks og bætt líf annarra með eigin frumkvæði.“

Kjósa
3
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Töfrasprotar

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár