Egill Helgason, sem hefur haft dagskrárvald í pólitískri umræðu hér á landi í yfir tvo áratugi, segist ekki vera jafnspenntur fyrir pólitík og hann var áður. „Ég hef ekki mikinn áhuga á pólitík. Ég kem ekkert úr pólitík. Ég byrjaði ekki að hafa áhuga á pólitík fyrr en ég var þrítugur. Ég var meira í bókmenntum og listum. Um þrítugt fór ég að lesa ævisögur stjórnmálamanna og fékk þá áhugann, og fór meira út í fréttamennsku sem tengdist pólitík. Það má segja að ég sé farinn aftur í mitt gamla sjálf sem hafði meiri áhuga á bókmenntum og listum en stjórnmálum.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í forsíðuviðtali Heimildarinnar við Egil.
Hann segir að þess beri að gæta að pólitík í heiminum sé auðvitað eilíf vonbrigði fyrir fólk á hans stað á hinu pólitíska litrófi. „Ég er frjálslyndur miðjumaður. Sósíalistarnir uppnefna okkur libba, með vísun í liberal, og telja okkur afskaplega vont fólk. Heimurinn hefur auðvitað þróast í átt sem okkur finnst alveg skelfilegur. Við erum með Pútín, Orban, Trump og allar þessar popúlísku hreyfingar. Það er út í hött að maður skuli þurfa að standa í því að verjast einhverjum fáránlegum samsæriskenningum um bólusetningar, barnaníð og QAnon. Það er ansi þungt að umræðan sé farin að snúast um einhverja svona vitleysu. Þessum hófsömu öflum hefur algjörlega mistekist að halda í sína kjósendur. Heimurinn hefur ekki versnað mikið, held ég. Það er bara umræðan sem hefur súrnað svo svakalega,“ segir Egill, þungt hugsi.
Þetta er hluti þess sem hefur gert hann þreyttan á pólitíkinni, en líka allar endurtekningarnar sem hann upplifir óhjákvæmilega eftir öll þessi ár í fjölmiðlum. „Það kemur nýtt fólk en umræðan er sú sama. Við Íslendingar erum ekkert rosalega duglegir í að breyta hlutum. Við búum til kerfi eins og kvótakerfið og landbúnaðarkerfið og erum svo að þrasa um þau árum saman. Það verður líka svolítið lýjandi.“
Hann með ákveðnar kenningar um ástæður þess að hann upplifir þessa þreytu. „Er hugsanlegt að fólkið sem var í stjórnmálunum hafi verið litríkara þegar ég var að byrja? Eða var ég bara yngri og móttækilegri? Mér finnst fólkið í framlínunni þá hafa verið dálítið stærra í sniðum. Þarna vorum við með Davíð og Ingibjörgu Sólrúnu. Þetta er aðeins flatneskjulegra núna. Sem er allt í lagi. Það er gott að venjulegt fólk sé í pólitík. Við þurfum ekki alltaf einhver ofurmenni eða stórkostlega leiðtoga. En það er mikil þreyta í stjórnmálunum hér og lítið að gerast inni í flokkunum. Kannski er ég bara orðinn eldri, því ekki jafn hrifnæmur og þykist sjá meira í gegnum hlutina en áður.“
Athugasemdir