Það sem ég hef lært er að vera þakklát fyrir lífið og horfast í augu við veruleika dauðans.
Þakklát fyrir að miða að guðsríkinu enda er það innra með okkur öllum eins og Tómasarguðspjall orðar svo fallega:
„Ef leiðtogar segja við ykkur, 'Sjáið, Guðs ríki er í himninum', þá munu fuglar himinsins verða á undan ykkar þangað. Ef þeir segja við ykkur 'Það er í hafinu', þá munu fiskarnir verða á undan ykkur. Hins vegar er Guðs ríki innra með ykkur og ytra með ykkur. Þegar þið þekkið ykkur sjálf, munuð þið þekkt verða, og þið munið skilja að þið eruð börn hins lifanda anda.“
Síðan þegar þarf handfjatla ég litla gullkúlu sem Guðbjörg amma færði mér á tvítugsafmælinu. Kúla er eins og eilífðin, hefur ekkert upphaf eða endi, heldur er flæði sífelldra breytinga, átaka og elsku. Það sem er óvanalegt við kúluna mína er að hún er dælduð, eins og lífið í sínum ófullkomleika. En um leið merkir dældin gleði, fegurð og von, því litli bróðir minn sem núna vaggar í kærleiksfaðmi alheimselskunnar steig á hana þegar hann var að læra að ganga og setti sitt mark á heiminn áður en hann hvarf sjónum. Því er ég þakklát fyrir að fá að verða miðaldra, fá að vera orðin amma Guðbjörg, meðvituð um þráðinn milli skírnarfonts og moldunarkassa.
„Kúla er eins og eilífðin, hefur ekkert upphaf eða endi, heldur er flæði sífelldra breytinga, átaka og elsku“
Þakklát fyrir upprisukraftinn sem gaf grunn að standa á sem foreldri fimm barna. En uppeldi þeirra hefur verið mikilvægasta, þakklátasta og mest gefandi verkefni lífs míns. Uppeldi með skýrum gildum kærleika, aga og ábyrgðar, hvatningu en ekki vorkunnsemi. Síðast en ekki síst: Myndrænu húsverkadagatali!
Gildin okkar eru: Kærleikur, samskipti, samvinna, samvera, ábyrgð. Við stöndum saman, við sýnum elsku, við borðum saman kvöldmat og sunnudagssteik, við þökkum Guði fyrir matinn með bæn, við breytum því sem ekki virkar, við fáum öll að vera við sjálf og erum ekki hrædd við að takast á og sættast.
Þegar haldið var upp á afmælið mitt núna í vor grét ég úr mér augun yfir fallegu ræðunni sem ormarnir héldu til að gleðja mig og lokaorðin voru: „Þú gefur okkur góða ástæðu til að nota kvenkyns fornöfn fyrir Guð með því að vera fyrirmynd fyrir kærleikann. Því ef Guð er kærleikurinn, þá er hún mamma.“ Mér finnst lífið hafa heppnast við að hafa fengið að heyra þetta, þótt oflof sé. Þakklát fyrir að fá að eiga í svo góðum og heilbrigðum tengslum við þetta vel lukkaða fullorðna fólk, sem nú er allt flutt að heiman, og frábæru makana þeirra.
Þakklát fyrir starfið mitt og fyrir kirkjuna mína sem er, eins og lífið, gölluð en gefandi. Fyrir frjálslynda syngjandi söfnuðinn minn og góða samstarfsfólkið, ekki síst öll þau sem gefa vinnuna sína.
Þakklát fyrir þá fullvissu að virðing fyrir manneskjum, virðing fyrir sjálfræði og sjálfsákvörðunarrétti þeirra, trú á getu þeirra til að leysa úr eigin málum, trú á réttlætiskennd þeirra og það að sjá upprisumöguleikana í hverju horni sé tryggur grunnur þess sem ég vinn við.
Forsendurnar sem ég gef mér eru ættaðar úr sáttamiðluninni og úr lausnamiðaðri aðferð sem segja mér að það að spyrja réttu spurninganna varðar öllu. Að spyrja um lausnina er mun mikilvægara en spyrja af hverju. Að orð sem tjá bjartsýni, von, möguleika og sköpun skipta meira máli en þau sem tjá hindranir, veikleika og beiskju.
Breytingar eru dýnamískar en ekki línulegar. Að þegar kemur að breytingum á lífi fólks getur lítil þúfa velt stóru hlassi. Ágreiningur er eðlilegur og ómissandi partur lífsins, viðbrögð okkar ráða því hvort hann verður niðurbrjótandi eða uppbyggjandi og hvort tækifærin til jákvæðra breytinga eru nýtt. Hreinskiptin samtöl eru best þó þau séu oft ekki þægileg. Þau sem eiga í ágreiningi bera sjálf ábyrgð á ágreiningnum og úrlausn hans. Allar manneskjur eru sérfræðingar í eigin lífi og vita því sjálf hvað þeim er fyrir bestu. Engin ein manneskja býr yfir öllum sannleikanum. Svo er gott að muna að sumar hugmyndir eru bara góðar í smá stund.
Þakklát fyrir upprisukraftinn sem lætur mig axla ábyrgð á eigin tilfinningum, sorg sem gleði, krefst þess af mér að gefast ekki upp og muna að upplifanir af áföllum og ofbeldi skilgreina mig ekki heldur elskan sem ég er sköpuð af og úr. Mitt er að lifa fallega og reynsla mín stjórnar aðeins því sem ég leyfi henni.
Þakklát fyrir að þekkja spurningu eilífa lífsins hér og nú: „Segjum að í nótt á meðan að þú sefur gerist kraftaverk, þannig að þegar þú vaknar er það sem er að sliga þig núna horfið. Hvað er það sem gefur þér vísbendingu um að vandinn sé ekki lengur til staðar?“ Spurning sem gefur svarið um „hverju á að trúa, hvernig á að breyta og hvers má vona“. Svar sem aldrei snýst um efnisleg gæði heldur ávallt, öryggi og næringu líkama og sálar, um nánd og elsku.
Þakklát fyrir fallega manninn minn í blíðu og stríðu. Mun því um næstu helgi fara í fallegasta kjólinn minn, setja á mig varalit, skála og fagna brúðkaupsafmæli. Enda er ég að verða allsvakalega væmin með aldrinum.
Síðast en ekki síst hef ég lært að hvíldardaginn skal halda heilagan:
„Í nútíma samhengi kvíðadrifins lífsgæðakapphlaups er það að halda hvíldardaginn heilagan bæði andóf og valkostur. Andóf því það sýnir með áþreifanlegum hætti að tilgangur lífs okkar helgast ekki af framleiðni og neyslu.“
Það er ENGIN guð,guddi eða gudda.
☻g það er heldur ekki okkar sem trúum ekki á þessa þvælu að afsanna svokallaðri tilvist guðs.
Heldur er það hlutverk þeirra sem halda þessari þvælu fram og staðhæfa að guð sé „raunverulega“, til, að sanna að þeirra staðhæfing sé sönn og rétt.