Þegar ég heyrði orðið mella fyrst frá jafnöldrum mínum í skólanum var ég tíu ára gömul. Krökkunum fannst hlægilegt að ég vissi ekki hvað orðið þýddi. Vegna samhengis vissi ég að þetta var bannorð, eitthvað sem fólk segir til að niðra eða særa aðra, mér datt ekki í hug að spyrja fullorðna manneskju um merkinguna.
Ég lærði margt næstu tuttugu árin og er enn að læra. Skoðanir mínar eru sem betur fer ekki harðnaður leir heldur mjúkur sem stöðugt má móta að nýju. Eitt af markmiðum mínum er að setja skoðanaleirinn minn aldrei í brennsluofn.
Hvort sem þú ert sérfræðingur, foreldri, amma eða bankastjóri, hvet ég þig til að freista þess að lesa áfram með opnum huga áður en þú myndar þér skoðun. Í raun þarftu ekki að hafa neina skoðun á því sem ég hef lært og kemur hér fram, það er þegar öllu er á botninn hvolft byggt á reynslu, ekki þinni. Náir þú ekki að klára lesturinn núna vegna þess að ég geri mér grein fyrir því að þú gætir verið að lesa þetta á rauðu ljósi á leiðinni í vinnuna, vona ég að þú haldir áfram seinna.
„Eitt af markmiðum mínum er að setja skoðana-leirinn minn aldrei í brennsluofn“
Ég vildi að ég hefði getað spurt einhvern fullorðinn hispurslaust: „Getur þú sagt mér hvað orðið mella þýðir?“ og að viðkomandi hefði svarað mér ófeiminn á viðeigandi hátt fyrir aldur minn og þroska án þess að dæma eða reiðast. Í staðinn fékk ég svarið við spurningu minni frá öðru tíu ára barni: „Veistu það ekki? Það þýðir að vera hóra,“ sem bætti auðvitað engu við nema öðru orði sem ég skildi ekki.
Við þurfum ekki að skammast okkar fyrir að vita ekki eitthvað, við getum spurt eða leitað upplýsinga sjálf. Tökum börn til fyrirmyndar. Þau eru í eðli sínu góð, fróðleiksfús og ástrík. Þau eru ekki fordómafull nema við túlkum orðið sem for-dómar, að dæma fyrir fram. Það er ekkert óeðlilegt við að mynda sér skoðun byggt á fyrri reynslu. Þó að við höfum upplifað alls konar gerir það okkur ekki að guði almáttugum, ef slíkt fyrirbæri er þá til. Sérstaklega þegar kemur að öðru fólki. Við getum ekki einu sinni vitað allt um okkur sjálf. Ég veit ekki hvort það er gott eða slæmt. Myndi það koma í veg fyrir misskilning ef við værum alvitur?
Skilningur er flókið hugtak og misskilningur er það líka, það sem við förum á mis við að skilja. Almennt er mjög margt sem við förum á mis við. Þar sem við erum hvorki alvitur né óvitar, heldur föllum þarna einhvers staðar á milli, getum við alla vega lagt okkur fram um að reyna að skilja hvert annað. Lífið verður svo miklu ánægjulegra enda er fátt meira taugatrekkjandi en að vera misskilinn á máta sem vekur með öðrum reiði eða sorg.
Nóg um heimspekilegar pælingar. Gæti verið að á bak við alþjóðasamtökin WHO og önnur samtök sem okkur er talin trú um að þjóni þeim tilgangi að hjálpa okkur, sé í raun útpæld hugsmíð einhvers einstaklings sem hefur náð að heilaþvo fólk svo snilldarlega að mæður í Vesturbænum gleypa við leðjunni umhugsunarlaust? Segjum að þetta sé allt saman, allt frá saklausum veggspjöldum Samtakanna ‘78 um hinseginleika yfir í plaköt um Viku 6 á vegum Jafnréttisskólans, Covid-19, algórithma, tilurð internetsins og kynfræðslubók frá Menntamálastofnun, sem er ekki komin úr prentun, hluti af stóru samsæri til þess að fækka mannkyninu. Mér þykir það fjarstæðukennt, það hefði þurft að síast í gegnum ansi mörg sigti viti borinna einstaklinga.
En hvað ef þetta er allt saman gert til þess að undirbúa börn fyrir kynferðismök með fullorðnum? Pant ekki búa í þannig heimi. Þar sem ég er gerð samsek um að eyðileggja líf barna og níðast á þeim, af hverju ætti ég að vilja það? Ég kýs frekar að trúa að þrátt fyrir allar dökku hliðar mannlegrar tilvistar sé flestu fólki umhugað um börn. Að stjórnvöld í landinu, skólasamfélagið og uppalendur séu í grunninn samansafn einstaklinga sem vill börnum og öðru fólki vel.
Mín niðurstaða er þessi: Við sköpuðum í sameiningu tilveruna sem við lifum í. Samfélagið var mótað af okkur öllum. Við fundum upp tækni sem gerir fullorðnum og börnum kleift að vera með heiminn í vasanum. Þessi tækni hefur fleygt okkur áfram og auðveldað líf okkar til muna en henni fylgja líka stórar áskoranir og ókostir. Börn geta áreynslulaust flett upp hvernig maður breytir millilítrum í kílógrömm en þau geta líka, án þess að ætla sér það, sogast inn í ljótleikann sem býr á internetinu án þroska eða getu til þess að skilja, vinna úr eða gagnrýna þessar upplýsingar.
Ljótleikinn hefur alltaf verið til en núna blasir hann stöðugt við okkur og mótar okkur. Klám getur haft margvísleg óæskileg áhrif á ómótaðan heila barns. Hugmyndir ungra stúlkna á því hvernig hægt er að líta út, af því að horfa á myndir af kvenlíkömum sem átt hefur verið við, hefur breyst. Tölvuleikir og ör-myndskeið eyðileggja eðlilega framleiðslu dópamíns í heilanum, skerðir úthald og einbeitingu. Viljum við halda þessari þróun áfram? Hvað getum við gert til þess að sporna við þessu? Með því að banna allt og útiloka alla kostina við nútímatækni í leiðinni? Ég held ekki.
Þrátt fyrir að fræðslulögin kveði á um að börn í leikskólum, yngsta stigi og upp úr, skuli fá fræðslu um kynlíf á öllum skólastigum, þar með talið leikskólum, er mjög misjafnt hvernig staðið er að kynfræðslu eða hvort hún sé yfir höfuð nokkur á yngsta skólastiginu. Samræmingu skortir og námsefni hefur komið úr öllum áttum hingað til. Kennarar, uppalendur og nemendur hafa kallað eftir markvissri stefnu og fræðsluefni. Útgáfa nýju bókarinnar frá Menntamálastofnun og Vika 6 er veikburða svar við því, það er ekki nóg, við þurfum meira. Hópur sérfræðinga er í stanslausri vinnu við að bæta úr þessum þáttum en þær taka tíma.
Kennaranámið var lengt í fimm ár. Í dag er ekki skylda að læra um ofbeldi gagnvart börnum, geðheilbrigði, raskanir, fötlunarfræði, hinseginleika, hegðunarvanda, mál innflytjenda, fíknivanda, fjármálalæsi, samskipti, tjáningu eða stafræna borgaravitund. Sum af þessum fögum eru ekki til, önnur val eða lítill partur af öðrum fögum. Uppalendur fá ekki leiðbeiningar um neitt af þessu þegar barnið fæðist, á meðan þeir sem kaupa hund þurfa að sitja námskeið um hundauppeldi.
Ýmis fræðsla er í boði. Nýtum hana! Mætum á foreldrafundi og tölum beint við skólastjórnendur ef við viljum breytingar, í stað þess að fara í hvísluleik og uppnefna hvert annað. Kennum börnunum okkar sömu leikreglur svo þau þurfi ekki að upplifa að vanþekking sé skammarleg. Það hefði sparað litlu tíu ára mér heilmikil vandræði að geta leitað til fullorðinna sem ég treysti með erfiðar spurningar mínar.
Athugasemdir (1)