Sem barn var ég mjög hrædd um að „verða“ einn daginn lesbía. Mér þótti stelpur sætar og skemmtilegri en strákar. Ég vildi ekki einn daginn vakna sem lesbía af því að ég laðaðist ekki bara að strákum heldur líka stelpum. Ég vissi ekki hvernig einhver „yrði“ lesbía en vildi samt passa mig á því að „lenda ekki í því“. Passa mig á hugsunum mínum. Ég vildi bara passa inn, ekki verða fyrir mótlæti og ekki vera öðruvísi. Ég hafði séð hvernig fór fyrir þeim sem voru öðruvísi, hvernig þau voru útilokuð.
Ég vildi óska að einhver hefði útskýrt fyrir þessu barni að kynhneigð „verður ekki til“ við lestur, sjónvarpshorf eða í gegnum hugsanir. Svo það sé skýrt, hún verður ekki til við fræðslu. Það getur enginn „orðið“ lesbía, hommi, tvíkynhneigður eða trans. Við erum það þegar við fæðumst.
Ef fræðsla, eða sýnileiki, gæti haft áhrif á kynhneigð eða kynvitund, væru allir sís-kynja og streit. Það er eina innrætingin sem á sér stað í samfélaginu, sú hugmynd að það sem er „venjulegt“ sé að vera gagnkynhneigt, sís-kynja fólk í níu til fimm vinnu, með barn, bíl og hús í Hlíðunum.
Þegar ég var barn var mér kennt að það að vera hinsegin væri öðruvísi og skrýtið. Enginn útskýrði fyrir mér að það sem ég var að upplifa væri eðlilegt, að það væri til eitthvað sem væri tvíkynhneigð, að ég væri ekki ein og ég þyrfti ekki að skammast mín. Ég vildi að ég hefði fengið að heyra það og fengið rými til að vera ég sjálf.
Er til ömurlegri tilhugsun en að lítil börn séu hrædd við að vera þau sjálf? Hrædd við hugsanir sínar, hrædd við mótlætið, hrædd við að vera öðruvísi, að passa ekki inn í samfélagið? Er það eitthvað sem einhver raunverulega vill? Væri ekki bara betra að styðja hinsegin fræðslu í skólum?
Athugasemdir