Undanfarinn áratug hefi eg undirritaður fengist við ritun skáldverks sem kemur væntanlega út nú undir lok september. Það fjallar um ungan Þjóðverja, Carl Reichstein sem hingað er sendur síðsumars 1937. Nafn hans bendir til að hann hafi verið Gyðingur en öll þessi -stein ættarnöfn eru gömul ættarnöfn fólks af gyðinglegum uppruna.
Á einhverjum tímapunkti hefur þessi ungi maður sem fæddur var 1909 í borginni Gelsenkirchen í Ruhrhéraðinu tekið þá umdeildu ákvörðun um að ganga til liðs við SS-sveitir Nasista. Líklega hefur hann bundið þá ákvörðun einhverjum ókunnum forsendum en líklega var þetta ekki rétt ákvörðun, kannski tekin í skyndi, kannski undir þrýstingi frá félögum. Með ferð sinni til Íslands eru gerðar miklar væntingar til hans að afla mikilvægra upplýsinga á Íslandi í þágu nasista en hann mun vera einn fyrsti SS-maðurinn sem starfaði á þeirra vegum á Íslandi. En hann var sendur hingað undir því yfirskini að kenna áhugasömum ungum Íslendingum svifflugíþróttina. Þann tíma sem hann starfaði hér náði hann mjög góðum árangri á því sviði sem dagblöðin frá þessum tíma staðfesta. En hvernig var þjóðlífið í Reykjavík á þessum tíma?
Reykjavík var á þessum tíma rétt eins og flestir vaxandi bæir í Evrópu umvafin kolareyk og óþrifum. Stundum sást ekki til Esjunnar fyrir þéttum kolareyk sem umvafði vaxandi borgina nema í mjög góðu veðri. Á þessum árum var verið að taka í notkun nýja rafstöð við Ljósafoss sem varð tilefni reykvískra húsmæðra að fá rafmagnseldavél í stað gaseldavéla sem mörgum stóð stuggur af. Þá voru áætlanir um stórfelldar framkvæmdir að leggja hitavatnsleiðslur úr Mosfellssveit til að hita upp húsin í Reykjavík. Sundhöllin var nýlega tekin í notkun og þangað sóttu Reykvíkingar böð og sundkennslu sem áður hafði farið fram í Laugardal.
Mannlífið var nokkuð öðruvísi en nú, Reykjavík var sem ofvaxið íslenskt sveitaþorp þar sem aðkomufólkið úr sveitum landsins höfðu með sér frá bernskustöðvunum hugmyndir til betra lífs. Það hafði með sér þrá að finna sér betri framtíð á mölinni en var til sveita. Þar hafði um aldir verið endalaust strit, gríðarleg vinna að baki allri verðmætasköpun. Arður af vinnu fólksins þá var einungis brot af því sem síðar varð með sívaxandi notkun véla og aukinnar þekkingar í þágu framfara.
Dregin er upp mynd af mannlífinu í Reykjavík, við fylgjumst með stéttabaráttunni og fylgjumst með verkafólkinu 1. maí 1938. Þjóðernissinnar voru fyrirferðarmiklir á þessum árum og létu stöðugt meira til sín taka í íslensku samfélagi með fyrirmyndina miklu í Þýskalandi í huga. En þeir voru alltaf fremur fámennir en eftir því háværir og uppivöðslusamir.
Já þetta voru að mögu leyti sérkennilegir tímar.
Hvað gerðist á Íslandi sumarið 1938? Þetta ár átti eftir að vera mjög viðburðaríkt, margt gerðist, sumt gott en annað því miður. Fráfall svifflugkennarans frá Þýskalandi 8. júlí 1938 vakti ýmsar vangaveltur einkum blaðamanns Þjóðviljans sem vék skrifum sínum oft að þeim æsingamönnum sem þá voru búsettir í Reykjavík og tengdust þýskum nasistunum. Sagt er frá þýsku vinnufylkingunni, Deutsche Arbeitsfront sem teygði umdeilda hramma sína alla leið til Íslands. Þessi blaðamaður hét Hendrik Ottósson einhver okkar besti rannsóknarblaðamaður á fyrri tímum.
Nasisminn var skelfilegt fyrirbæri. Þetta tímabil þýskrar sögu er afar viðkvæmt og er það skiljanlegt. Rannsóknir mínar undanfarins áratugar skilja eftir ýmsar spurningar en einnig nokkrar áhugaverðar niðurstöður. Ein var sú að ein þýsk ríkisstofnun sem nasistum tókst seint að ná yfirstjórn á, Das auswärtige Amt, en svo nefnist utanríkisráðuneytið þýska meira að segja enn í dag. Innan þýsku utanríkisþjónustunnar störfuðu víða um heim velmenntaðir þýskir diplómatar sem margir hverjir vonuðust til að þýski nasisminn væri einungis tímabundið ástand og þýski herinn eða aðrir aðilar gripu til viðeigandi ráðstafana og boluðu þessum skelfilegu valdamönnum frá. Þessir þýsku diplómatar voru vel meðvitaðir um hversu mikilvæg mannréttindi eru sem og lýðræði í samfélaginu. Þeir aðlöguðust vel þeim aðstæðum í þeim löndum þar sem þeir störfuðu. Þeir vildu vera bæði sér og þjóð sinni til sóma þar sem þeir störfuðu á erlendri grund.
Meðal þessara þýsku diplómata var þýski aðalkonsúllinn í Reykjavík á árunum 1934-1939, náttúrufræðingurinn Günter Timmermann sem var leystur af Werner Gerlach vorið 1939. Næsti yfirmaður hans var Cecil von Renthe-Fink þýski sendiherrann í Kaupmannahöfn sem bjó þannig um hnútana vorið 1940 að Danir yrðu fyrir sem minnstu óþægindum vegna hernáms þýska hersins. Þessi sendiherra starfaði í Danmörku fram undir jól 1942 og voru Danir ánægðir með störf hans. Meðan hans naut við fóru Danir mjög vel út úr hernáminu, meira að segja kóngurinn þeirra fékk að fara óáreittur um götur Kaupmannahafnar á hesti sínum. En í ársbyrjun 1943 kom til Danmerkur mjög skelleggur nasisti Werner Best að nafni. Varð eitt fyrsta verk hans í Danmörku að skipa Gestapo að handtaka allt lögreglulið Kaupmannahafnar sem varð tilefni mikilla umskipta. Danska andspyrnuhreyfingin fékk Breta að gera loftárás á Shell húsið í Kaupmannahöfn þar sem aðalstöðvar Gestapo í Danmörku voru.
Mjög áleitin spurning er hvort Nasistar vildu afla upplýsinga um þýska aðalræðismanninn til að öðlast tilefni að kalla hann sem fyrst heim og senda sinn mann í staðinn? Það gerðist snemma vorið 1939 þá Werner Gerlach var sendur hingað. Hann varð fljótlega mjög aðsópsmikill á Íslandi, jók umsvif ræðismannsins mjög verulega og varð oft tilefni til grunsemda að ekki væri allt með felldu.
Skáldverkið um Carl Reichstein er byggt á ítarlegri rannsókn heimilda sem þó eru ekki að fullu rannsakaðar. Í þýska þjóðskjalasafninu, Deutsche Bundes Arkiv er gríðarlegt magn af skjölum frá þessu tímabili sem seint verða að fullu rannsökuð. Þess má geta að nasistar héldu uppi ofurnákvæmu bókhaldi um athafnir sínar og gjörðir. Var það allt varðveitt í skjalasafni þeirra sem var í þeim borgarhluta Berlínar sem síðar lenti á hernámssvæði Rússa. Þeir afhendu eftir stríðið austurþýsku yfirvöldunum í Berlín DDR þetta skjalasafn sem var stofninn að skjalasafni Stasi. Á þeim bæ voru upplýsingar úr þessu skjalasafni nasista gjörnýttar, kannað hverjir væru enn lifandi meðal SS-manna og þeir knúðir til samstarfs við Stasi. Er þarna komin meginskýringin á því hvernig stóð á því hversu njósnanet Stasi í Vestur-Þýskalandi, BRD, var þéttriðið. Varla var sú ákvörðun sem tekin var af hærri sem lægra settum yfirvöldum innan Vestur-Þýskalands sem semi ekki barst Stasi á ótrúlega fljótlegan hátt. Var þetta lengi ekki vitað en grunsemdir voru alltaf fyrir hendi en varð ekki staðfest en eftir fall kommúnismans í Austur-Evrópu.
Þegar DDR leið undir lok þá reyndu starfsmenn Stasi vikum saman að eyða viðkvæmum skjölum í pappírstæturum. Tugir þúsunda ruslapoka skildu Stasi menn eftir í geymskum skjalasafnsins, troðfullum af pappírsstrimplunum eyðilagðra skjala. Á síðustu árum hafa strimplarnir verið skannaðir og tölvutæknin notuð til að raða öllu upp á nýtt. Þetta er seinlegt verk en í framtíðinni má vænta þess að unnt verði að bregða upp betra ljósi um þetta skelfilega tímabil þýskrar sögu.
Þess má geta að mjög strangar reglur gilda hjá Bundes Arkiv um aðgang að skjölum og upplýsingum frá þessum umdeildu tímum enda er fyllsta ástæða til þess að óttast að viðkvæmar upplýsingar kunni að lenda í höndum óprúttinna aðila sem vilja gera sér þessar viðkvæmu upplýsingar að féþúfu eða til framdráttar.
Meðan á ritun Carls sögu Rechstein stóð, veiktist höfundur alvarlega af krabbameini sem hefur haft mikil áhrif. Hann einbeitti sér að dreifa huganum frá þessum alvarlega sjúkdómi með því að einbeita sér sem mest að þessu verki. Það tókst og eftir að baráttunni gegn vágestinum lauk þá var oft erfitt að taka upp þráðinn að nýju. Verkefnið minnti höfundinn á þessa miklu erfiðleika í lífi hans sem nú eru blessunarlega að baki.
En nú er þessu verki lokið með hvatningu vina og vandamanna. Er verkið nú lagt í dóm lesenda og gagnrýnenda. Vonast höfundurinn til þess að tekist hafi þokkalega til.
Höfundur er eldri borgari í Mosfellsbæ, tómstundablaðamaður og leiðsögumaður.
Athugasemdir (1)