Margir mælikvarðar sýna að heilsufar á Íslandi er almennt gott ef á heildina er litið. Við búum við öflugt velferðarkerfi með aðgangi að menntun, heilbrigðisþjónustu og félagslegri þjónustu og Íslendingar eru ásamt öðrum Norðurlöndum í fararbroddi þegar kemur að jöfnum rétti kynja, þó jafn réttur sé vissulega ekki það sama og jöfnuður.
Því hefði mátt ætla að staðan á Íslandi varðandi ójöfnuð í heilsu væri betri en að meðaltali í Evrópu. Sú reyndist hins vegar ekki vera raunin í úttekt Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Ójöfnuður í heilsu er til staðar á Íslandi, hann er kerfisbundinn og síst minni en í öðrum Evrópulöndum. Norðurlöndin hafa einnig skoðað vísbendingar um ójöfnuð í heilsu innan sinna landa og séð að staðan á Norðurlöndum er ekki betri en annars staðar í Evrópu.
Markmið um jöfnuð
Þjóðir heims hafa sett sér markmið um jöfnuð. Jöfnuður, þar sem hvorki hópar né einstaklingar verða skildir útundan, er þannig lykilstef í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt voru af aðildarríkjum árið 2015. Einnig er lögð áhersla á jöfnuð í stefnum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem og í íslenskri heilbrigðislöggjöf og heilbrigðisstefnu. Þrátt fyrir áherslur og sett markmið hefur gengið hægt að draga úr heilsufarslegum ójöfnuði í Evrópu og hafa tilteknir hópar fólks jafnvel dregist enn meira aftur úr þegar heilsa og vellíðan eru annars vegar. Afleiðing þessa er togstreita og klofningur sem ógnar þeim grunngildum um jafnræði, samstöðu og stöðugleika sem þjóðir Evrópu hafa orðið sammála um.
Ævilengd og menntun
Ójöfnuð í heilsu má skoða út frá ýmsum mælikvörðum. Meðalævilengd er sígildur mælikvarði og er meðalævi Íslendinga með því lengsta sem gerist í heiminum og hefur þróunin almennt verið hagstæð undanfarna áratugi. Á myndinni hér að neðan er ævilengd (þ.e. fjöldi ólifaðra ára frá þrítugu) karla og kvenna hins vegar borin saman eftir menntunarstigi og sýndur munur í árum milli hæsta og lægsta menntunarstigs.
Þegar ævilengd er greind með þessum hætti kemur í ljós skýr munur milli hópa á öllum Norðurlöndum í þá veru að einstaklingar með lengsta skólagöngu að baki mega að jafnaði eiga von á að lifa lengur en þeir sem skemmsta skólagöngu hafa.
Nýrri tölur fyrir Ísland sýna að árið 2021 gátu þrítugar konur með háskólamenntun vænst þess að lifa 3,6 árum lengur en kynsystur þeirra með skemmstu skólagönguna. Munurinn var enn meiri hjá körlum, eða 4,9 ár [21]. Tölur frá Hagstofu Íslands gefa enn fremur til kynna að undanfarinn áratug (2011–2021) hafi ævilengd frá 30 ára aldri aukist mest meðal háskólamenntaðra, eða um 1,8 ár. Jókst hún minna meðal framhaldsskólamenntaðra á sama tímabili (1,3 ár) en minnkaði meðal grunnskólamenntaðra um 0,3 ár.
Það þarf því meira en landsmeðaltöl til þess að bera kennsl á og fylgjast með ójöfnuði í heilsu. Frekari greining, sem tekur m.a. til búsetu, menntunar og tekna, er nauðsynleg. Embætti landlæknis hefur gefið út svæðisbundna lýðheilsuvísa einu sinni á ári frá árinu 2016 og hafa þeir ítrekað sýnt marktækan mun á heilsu, líðan og lifnaðarháttum milli búsetusvæða.
Andleg heilsa og traust til annars fólks
Í ljósi þess að félagsleg og efnahagsleg staða hefur víðtæk áhrif á heilsufarslegan jöfnuð ákvað embætti landlæknis að greina gögn rannsóknarinnar Heilsa og líðan á Íslandi með tilliti til ójöfnuðar. Rannsóknin er úrtakskönnun sem lögð hefur verið fyrir landsmenn með reglubundnum hætti, árin 2007, 2012, 2017 og nú síðast haustið 2022. Þá var gerð breyting á framkvæmdinni til þess að ná betur til íbúa landsins sem eru af erlendum uppruna með því að hafa könnunina á fleiri tungumálum en íslensku og með því að bæta við sérstöku úrtaki fólks með erlent ríkisfang. Hér að neðan er eingöngu byggt á svörum íslenskra ríkisborgara árið 2022 svo niðurstöður séu samanburðarhæfar við fyrri ár.
Greining á gögnum ofangreindrar rannsóknar gaf almennt til kynna að þeir sem eru með styttri skólagöngu að baki eða eigi erfiðara með að ná endum saman búi almennt við verri heilsu og óhagstæðari lifnaðarhætti heldur en þeir sem hafa verið lengur í skóla eða búa við betri efnahag. Sem dæmi má nefna mat fólks á eigin andlegri heilsu. Almennt fjölgar þeim hlutfallslega í nær öllum hópum karla og kvenna milli áranna 2007 og 2022 sem meta andlega heilsu sína slæma eða lélega.
Um 61% karla í hópi þeirra sem eiga erfitt með að ná endum saman mátu andlega heilsu sína sæmilega eða lélega árið 2022 og voru þeir meira en þrisvar sinnum líklegri til þess að meta andlega heilsu sína sæmilega eða lélega en karlar sem áttu auðvelt með að ná endum saman. Ríflega 50% kvenna sem áttu erfitt með að ná endum saman mátu andlega heilsu sína sæmilega eða lélega árið 2022 og voru þær 2,5 sinnum líklegri en konur sem áttu auðvelt með að ná endum saman til þess að meta andlega heilsu sína sæmilega eða lélega.
Ef skoðaður er mælikvarði um traust til annars fólks kemur í ljós að bæði er fylgni milli trausts til annars fólks og menntunarstöðu og milli trausts til annars fólks og afkomu. Þannig bera hlutfallslega fleiri með grunnmenntun lítið traust til annars fólks heldur en þeir sem eru með meiri menntun. Hið sama má segja um þá sem eiga erfitt með að ná endum saman.
Árið 2022 sagðist tæplega helmingur karla í hópi þeirra sem eiga erfitt með að ná endum saman bera lítið traust til annars fólks og voru þeir 1,8 sinnum líklegri en karlar sem áttu auðvelt með að ná endum saman til þess að bera lítið traust til annars fólks. Sama ár báru tæplega 36% kvenna sem áttu erfitt með að ná endum saman lítið traust til annars fólks og voru þær 1,8 sinnum líklegri til þess að bera lítið traust til annars fólks heldur en konur sem áttu auðvelt með að ná endum saman.
Ef svör einstaklinga af erlendum uppruna eru greind kemur í ljós að talsvert stærri hluti þeirra báru lítið traust til annars fólks og minni munur var á tekjuhópum en þegar eingöngu voru skoðuð svör íslenskra ríkisborgara.
Aðstæður í daglegu lífi
Nauðsynlegt er að skilja hvaða samfélagslegu þættir og ákvarðanir leiða til ójöfnuðar í heilsu. Að mati Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar hafa fimm svið daglegs lífs áhrif á heilsufarslegan jöfnuð, fjárhagur og félagsleg vernd, húsnæði og búsetuskilyrði, félags- og mannauður, gæði og aðgengi að heilbrigðisþjónustu og atvinna, vinnutími og vinnuaðstæður. Vægi hvers þáttar í ójöfnuði í heilsu er misjafnt eftir því um hvaða mælikvarða er að ræða. Almennt má þó segja að þeir þættir sem hafa hvað mest áhrif á ójöfnuð virðast vera skortur á fjárhagslegu öryggi og ónóg félagsleg vernd auk skorts á öruggu húsnæði og ófullnægjandi nærumhverfi. Í stuttu máli má því segja að fátækt og óöruggt eða ekkert heimili hafi hvað mest að segja.
Heilsa og vellíðan mótast af margs konar einstaklingsbundnum, félagslegum, efnahagslegum og menningarlegum þáttum auk umhverfisþátta. Heilsufar ræðst af aðstæðum sem fólk fæðist inn í og býr við í gegnum lífið, ásamt því að mótast af ofangreindum drifkröftum sem hafa áhrif á þessar aðstæður. Ákvarðanir og aðgerðir sem hafa áhrif á daglegt líf fólks, allt frá almannatryggingum, heilbrigðisþjónustu, húsnæðis-, fræðslu-, atvinnu- og umhverfismálum að samgöngu-, skipulags-, fjarskipta- og byggðamálum geta þannig haft jákvæð eða neikvæð áhrif á heilsu og vellíðan og heilsufarslegan jöfnuð.
Mikilvægt er að horfa á ójöfnuð í heilsu sem afleiðingu af ójöfnuði almennt. Félags- og efnahagslegar aðstæður, sem hafa skaðleg áhrif á heilsu okkar, ættu að vera í brennidepli, ekki eingöngu heilsuhegðun einstaklinga. Þarna finnum við hinar raunverulegu ástæður fyrir ójöfnuði í heilsu. Þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst málið um lífskjör okkar, fæði, húsnæði, atvinnu og menntun. Aðstæður okkar í daglegu lífi hafa allt með heilsu, vellíðan og jöfnuð að gera. Meðan það er félags- og efnahagslegur ójöfnuður þá er ójöfnuður í heilsu og ef ekkert er að gert þá hleðst ójöfnuðurinn upp í gegnum æviskeiðin og mismunur milli hópa eykst.
Samfélagslegum áhrifaþáttum heilsu og ójöfnuðar í heilsu er hægt að breyta í gegnum stefnur og inngrip stjórnvalda. Það er ekki gerlegt að draga úr ójöfnuði í heilsu nema til komi þátttaka alls samfélagsins. Aðgerðir innan heilbrigðisþjónustu einar og sér duga jafnframt ekki til að ná fram afgerandi breytingum á jöfnuði í heilsu. Öll svið hins opinbera verða að koma þar að og bera sameiginlega ábyrgð á því að skapa þegnunum heilsusamlegt umhverfi.
Rannsóknir sýna að mestum breytingum má ná fram með stjórnvaldsaðgerðum sem eru utan heilbrigðiskerfisins. Aðgerðir sem tryggja menntun og fjárhagslegt öryggi allra skipta meginmáli í því að skapa fólki nauðsynlegar bjargir til þess að takast á við áskoranir daglegs lífs.
Menntun jafnar tækifærin
Almennt aðgengi að góðri menntun jafnar tækifæri með margvíslegum hætti sem hefur áhrif á heilsu og lífsgæði. Menntunin getur aukið heilsulæsi, komið í veg fyrir félagslega einangrun og styrkt andlega heilsu. Þá treystir góð menntun stöðu og öryggi einstaklinga á síbreytilegum vinnumarkaði og minnkar líkur á atvinnuleysi. Menntun frá unga aldri veitir hverju barni tækifæri til að taka þátt í skipulögðum lærdómi sem þroskar grundvallarfærni, bæði félagslega og vitsmunalega, óháð ráðstöfunartekjum heimilis. Framlög til menntunar frá unga aldri vitna um skuldbindingu stjórnvalda til að fjárfesta í heilsu, jafna upphafið fyrir hvert barn og vinna gegn því að ójöfnuður flytjist milli kynslóða. Rannsóknir sýna að ef ekki er tekist á við ójöfnuð í heilsu barna eykst hann eftir því sem líður á ævina. Aðgerðir til þess að jafna stöðu barna og forráðamanna þeirra ættu því ávallt að vera forgangsmál.
Örugg grunnframfærsla og að eiga heimili
Fátækt tengist ótímabærum sjúkdómum og dauðsföllum. Stefnur og aðgerðir stjórnvalda sem tryggja örugga grunnframfærslu og draga þannig úr skaðlegum áhrifum fátæktar á heilsu og félagslega stöðu minnka ójöfnuð í heilsu. Þeir sem hafa minnstar bjargir þurfa jafnframt sérstök úrræði. Stuðningur við foreldra ungra barna er sérstaklega mikilvægur því fátækt í bernsku getur haft skaðleg áhrif á heilsu allt lífið. Útgjöld til félagslegrar verndar sem auka fjárhagslegt öryggi viðkvæmra hópa vegna örorku, fötlunar, atvinnuleysis o.fl. auka heilsufarslegan jöfnuð.
Að eiga heimili eða húsaskjól er grundvallarþörf manna. Bágborin búsetuskilyrði eru nátengd vanheilsu enda eru þeir sem eru heimilislausir, búa í lélegu eða óöruggu húsnæði eða húsnæði sem þeir hafa ekki efni á, líklegri til þess að vera við lélega heilsu. Ef húsnæði er of dýrt í hlutfalli við tekjur verður minna eftir af ráðstöfunartekjum til þess að sinna öðrum frumþörfum sem eru mikilvægar heilsunni, svo sem kaupum á næringarríkum mat. Hár húsnæðiskostnaður getur einnig haft neikvæð áhrif á andlega heilsu, einkum meðal þeirra sem hafa lægstar ráðstöfunartekjur. Stefnur og aðgerðir stjórnvalda sem til að mynda tryggja öllum öruggt og viðráðanlegt húsnæði, leigjendum vernd og aðgengi að öruggu og heilsueflandi nærumhverfi auka jöfnuð í heilsu og vellíðan.
Styðja þá sem þurfa stuðning
Þegar upp er staðið þá lítur myndin svona út. Við verðum að bera kennsl á þá hópa sem þurfa stuðning og styðja þá í samræmi við þeirra þarfir. Það þurfa ekki allir á sama stuðningi að halda. Við sem samfélag þurfum að velja jöfnuð og hafa góðvild til samborgaranna að leiðarljósi.
Með því að beina sjónum að félagslegum og efnahaglegum ójöfnuði og vinna skipulega að því að auka jöfnuð í lífsskilyrðum fólks náum við markmiðum um meiri jöfnuð í heilsu og vellíðan og ekki síður meiri sátt.
Athugasemdir