„Það er spenna á vinnumarkaði og það er spenna í hagkerfinu sem hefur þó sýnt sig að er að draga úr,“ segir Steinunn Bragadóttir, hagfræðingur á hagfræði- og greiningarsviði Alþýðusambands Íslands, spurð að því hvort að lítið atvinnuleysi hafi áhrif á margumtalaða spennu í hagkerfinu. Að hennar sögn hefur engu að síður dregið úr þenslu í hagkerfinu, það sýni þróunin á húsnæðismarkaði og tölur um kortaveltu heimilanna.
Atvinnuleysi í júlí mældist 2,8 prósent samkvæmt nýjustu mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar og lækkaði lítillega á milli mánaða eða um 0,1 prósentustig. Í janúar á þessu ári sem og í febrúar mældist atvinnuleysi hér á landi 3,7 prósent en hefur lækkað í hverjum mánuði síðan þá. Atvinnuleysi hefur ekki mælst jafn lítið síðan árið 2018 en í desember það ár mældist atvinnuleysi 2,5 prósent.
Minna atvinnuleysi á fyrri uppgangstíma
Þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi ekki mælst jafn lítið í ríflega fjögur og hálft ár segir Steinunn að það þurfi ekki að þýða að það sé óvenju lágt. Það segir hún vegna þess hve mikill uppgangur hefur verið í ferðaþjónustunni og bendir á að á árunum 2017 og 2018 hafi atvinnuleysið á þessum tíma árs verið enn minna. „Þetta getur auðvitað ekki talist hátt atvinnuleysi en kannski miðað við tímann þá er þetta hærra en við höfum verið að venjast og miðað við hvað heyrum af tölum úr ferðaþjónustunni,“ segir Steinunn.
En þýðir það þá að hægt sé að gera ráð fyrir að atvinnuleysi muni halda áfram að minnka? „Það er auðvitað erfitt að segja til um hversu lengi getur dregið úr atvinnuleysinu,“ segir Steinunn. „Það er gott að hafa það í huga að það eru rétt um tvö ár síðan atvinnuleysi var yfir tíu prósent. Það tekur auðvitað tíma fyrir hagkerfið að jafna sig á áföllum eins og voru. Við höfum líka að sama skapi verið frekar fljót að jafna okkur þannig séð á þessu mikla atvinnuleysi. Atvinnuleysi jókst mjög hratt hér þegar faraldurinn skall á og meira en í löndunum í kringum okkur og það dró hratt úr því og það hefur með greinar tengdar ferðaþjónustu að gera, hvað þær eru fljótar að taka við sér. Atvinnulífið eins og í löndunum í kringum okkur er fjölbreyttara og sveiflurnar ekki alveg jafn ýktar og þær eru hér.“
Í skýrslu Vinnumálastofnunar segir að stofnunin geri ekki ráð fyrir mikilli breytingu í ágúst, atvinnuleysi gæti mælst 2,7 til 2,9 prósent.
Stór hluti verið lengi án atvinnu
Spurð að því hvort það sé þá ferðaþjónustunni að þakka hve lítið atvinnuleysi mælist nú segir Steinunn að mesta aukningin í störfum hafi verið í þeim geira, þar sé mesta þörfin sem og í byggingageiranum. Þar af leiðandi sé það þeim geirum að einhverju leyti að þakka hve lítið atvinnuleysi mælist nú um stundir, „en það er kannski líka að einhverju leyti það sem veldur spennu á vinnumarkaði.“
Hún nefnir að einnig sé mikilvægt að skoða samsetningu þess hóps sem er í atvinnuleit. Tæplega helmingur atvinnulausra hafi verið það í meira en hálft ár og rúmur fimmtungur atvinnulausra hefur verið í atvinnuleit í meira en ár.
„Þetta er eitthvað sem er mikilvægt að hafa augun á því við vitum alveg að reynslan hefur sýnt að því lengri tími sem líður frá því að viðkomandi er virkur á vinnumarkaði þá þarf hann á meiri þjónustu að halda til að finna starf og það eru meiri líkur á varanlegri örorku og annað. Það er eitthvað sem er mikilvægt fyrir okkur að fylgjast með,“ segir Steinunn.
Athugasemdir