Í það minnsta á fjórum bensínstöðvum Orkunnar á höfuðborgarsvæðinu voru framin skemmdarverk í nótt þar sem að regnbogafánar til stuðnings hinsegin fólki voru skornir niður. Formaður Samtakanna ´78 segist telja að um gjörðir fámenns hóps sé að ræða sem gremjist að hafa tapað dagskrárvaldinu í samfélaginu. Á öllum Orkustöðvunum hefur regnbogafánum verið flaggað að nýju.
Heimildin greindi frá því í morgun að regnbogafánar hefðu verið skornir niður á bensínstöð Orkunnar í Öskjuhlíð. „Ég var að keyra framhjá stöðinni þeirra við Smáralind og ég sá ekki betur en búið væri að skera niður regnbogafána þar líka,“ sagði Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga, þegar Heimildin ræddi við hann fyrir skemmstu. Þetta staðfesti Brynja Guðjónsdóttir, markaðsstýra Orkunnar, og sagði að regnbogafánar hefðu verið skornir niður á fjórum stöðvum í nótt.
„Við látum þetta ekkert á okkur fá og styðjum Samtökin í þeirra baráttu,“
„Okkur þykir mjög leitt að sjá þetta, en í samráði við öryggisstjóra fyrirtækisins erum við búin að setja upp nýja fána. Við látum þetta ekkert á okkur fá og styðjum Samtökin í þeirra baráttu,“ sagði Brynja.
Að sögn Gunnlaugs hefur Orkan stutt fjárhagslega við hátíðina undanfarin ár og styður við baráttu hinsegin fólks. Orkan flaggar regnbogafánum í ágústmánuði í tilefni Hinsegin daga og til stuðnings fjölbreytileikanum.
Baráttan sé ekki búin
„Þetta er ótrúlega leiðinlegt og hvimleitt að sjá en staðfestir að við þurfum að halda baráttunni áfram, eins og yfirskrift Hinsegin daga segir, baráttan er sannarlega ekki búin,“ segir Gunnlaugur. Hann segir jafnframt að hinsegin fólk sé þess fullvisst að það sé lítill hópur, þó hávær sé, sem standi fyrir andróðri gegn hinseginleikanum.
„Við teljum okkur vita að þessi hópur, þó hávær sé, sé lítill. Auðvitað eru þetta örvæntingarfull viðbrögð háværs en lítils hóps sem finnst þau einhvern veginn hafa misst tökin á umræðunni. Við vitum að þögli meirihlutinn er okkar megin í baráttunni. Við fögnum því líka að við sjáum ítrekað að þegar skemmdarverk sem þessi eru framin, þegar niðrandi skilaboð hafa verið krotuð á regnbogagötur eða regnbogafánar skornir niður, þá bregst fólkið sem hefur staðið fyrir því að mála göturnar eða flagga fánunum strax við. Það tekur þetta nærri sér og vaknar enn frekar til meðvitundar um hvert ástandið er.“
„Ég vil leggja áherslu á að á Hinsegin daga eru öll velkomin.“
Gunnlaugur segir þó að hinsegin fólk sýni engan bilbug á sér, undirbúningur fyrir hinsegin daga sé á lokametrunum. „Við tökum forskot á sæluna á mánudaginn og svo byrjum við af fullum krafti á þriðjudaginn. Ég vil leggja áherslu á að á Hinsegin daga eru öll velkomin.“
Virðist gremjast að hafa tapað dagskrárvaldinu
Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna ´78, segir að samtökin hafi vissulega fundið fyrir bakslagi í réttindabaráttu hinsegin fólks en sem betur fer séu það ekki margir sem taki undir andróðurinn. „Þetta er fámennur hópur en hann er hávær, alltaf sömu tíu til fimmtán manneskjurnar, með einhverjum blæbrigðum. Það hafa verið hinsegin hátíðir út um allt land sem hafa verið vel sóttar af heimfólki, bæði hinsegin fólki og svo fólki sem vill sýna stuðning sinn. Það sýnir að samfélagið er gríðarlega opið og hinsegin fólk er almennt vel samþykkt og allur okkar málflutningur. Þess vegna sé ég þessa gjörninga sem svo að annað hvort séu þeir gerðir í hugsunarleysi, einhvers konar bræði, eða þá að þetta sé eitthvað örþrifaráð til þess að vekja athygli á að það sé einhver örsmár hópur sem ekki getur samsamað sig með okkar tilveru. Þessum litla hópi virðist gremjast mjög að hafa tapað dagskrárvaldinu, og gerir með þessu drastístkar tilraunir til að vekja athygli á sér. Ég veit ekki hvernig við náum til þess hóps en hann er að sjálfsögðu velkominn, sjái hann villu síns vegar.“
Athugasemdir