Skipulagsfulltrúinn í Reykjavíkurborg tekur jákvætt í hugmyndir fasteignafélagsins Eikar um mikla uppbyggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis á lóðum númer 7 og 9 í Skeifunni. Húsið á lóð númer 7 hýsti áður verslun Elko og í húsinu á lóð númer 9 er dekkjaverkstæðið Nesdekk með starfsemi í dag.
Málið var tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 27. júlí, en í umsögn embættisins kemur fram að frumdrög að uppbyggingu á lóðunum tveimur gerir ráð fyrir um 200 íbúðum og um 3.000 fermetra atvinnuhúsnæði, auk bílakjallara fyrir um 200 bíla. Tillagan er sögð fela í sér byggingu fjögurra til átta hæða samtengdra fjölbýlishúsa og inngarðs ofan á verslunar- og þjónusturými á jarðhæð.
Tillagan gengur út frá því að iðnaðarhús að Skeifunni 5, sem meðal annars hýsa í dag verslun ÁTVR og eru einnig í eigu Eikar, verði endurnýtt og að torg og bílastæði verði gert á milli þeirra og fyrirhugaðrar fjölbýlishúsasamstæðu, með gönguleið sem tengi Skeifuna við verslunarmiðstöðina í Glæsibæ og leið Borgarlínu um Suðurlandsbraut.
„Jákvætt er tekið í fyrirliggjandi frumdrög að uppbyggingu reitsins. Vinna þarf greiningu á kolefnisspori uppbyggingar samhliða hönnun, sem og greiningar á dagsbirtu íbúða, skuggavarpi af byggingum, hljóðvist, skjólmyndun og dvalarsvæðum á lóð sem njóti sólar,“ segir í umsögn skipulagsfulltrúa.
Umbreyting Skeifunnar í takti við rammaskipulag
Rammaskipulag fyrir Skeifuna var samþykkt í borgarráði undir lok árs 2017. Í því var gert ráð fyrir mikilli endurnýjun svæðisins og uppbyggingu mörghundruð íbúða.
Nú þegar eru risin stærðarinnar fjölbýlishús við Grensásveg 1, sem má segja að séu forsmekkurinn af því sem koma skal, ef horft er til þeirra heimilda sem rammaskipulagið opnar á.
Eik fasteignafélag hefur átt lóðina við Skeifuna 7 um nokkurn tíma, en keypti lóðina að Skeifunni 9 árið 2020 af Heldi, eiganda Bílaleigu Akureyrar, en höfuðstöðvar bílaleigunnar voru í húsinu. Fasteignamat eignarinnar nam 489 milljónum króna á þeim tíma, samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins um kaup Eikar á reitnum.
Auk þessara tveggja lóða í Skeifunni á Eik fasteignir að Skeifunni 5, Skeifunni 8, Skeifunni 11 og Skeifunni 19.
Athugasemdir