Enn heldur litla plötubúðin á Klapparstíg, Reykjavík Record Shop, áfram að gefa út spennandi titla, sem má staðsetja á hinu víðfeðma jazz-rófi, ef það þarf endilega að staðsetja þá einhvers staðar.
Samba-jazz – djassað bossa nova – sigraði hinn vestræna heim á árunum upp úr 1960 þegar menn eins og Stan Getz og Charlie Byrd fóru í smiðjur heimamanna, snillinga á borð við gítarleikarann João Gilberto og hinn fjölhæfa Antônio Carlos Jobim, og kynntu sambaseiðinn fyrir hinum vestræna heimi. Langstærsti hittarinn úr þessu samkrulli er hið guðdómlega The Girl From Ipanema, sem alnetið vill meina að sé mest „kóveraða“ lag allra tíma á eftir Yesterday.
Ife Tolentino & Óskar Guðjónsson – IFE
Ekki í vegabréfinu
Brasilíski gítarleikarinn og söngvarinn Ife Tolentino kynntist Óskari Guðjónssyni í London fljótlega eftir aldamótin og hafa þeir spilað saman af og til síðan, bæði hér og erlendis. Þessi plata er sú fyrsta sem Ife gerir með eigin tónlist, en Óskar mun hafa hvatt hann ítrekað til þess. Hér eru átta lög, helmingurinn ósunginn, hinn helmingurinn sunginn af Ife, sem hefur mjög svo vinalega rödd, allt á portúgölsku auðvitað, en enskar þýðingar á innra umslagi. Meðlimir úr A-landsliði íslenskra jazzista fylkja sér á bakvið Ife og Óskar – Eyþór Gunnarsson, Matthías Hemstock og Skúli Sverrisson – og rúlla upp hinni suðrænu sveiflu, enda er þetta allt í mjöðmunum og puttunum, ekki í vegabréfinu.
Draumórakennd angurværð
Lög Ifes eru mjög fín og að mestu innan hefðarinnar. Þó er stundum reikað út af hinni beinu samba-braut og á næsta draumórakenndar brautir, eins og í hinu angurværa „O Mar“, besta lagi plötunnar, sem minnir smá á Bláu augun þín, enda var Gunnar Þórðarson farinn að hlusta á lög Burt Bacharach þegar hann samdi það, og Burt kveikti auðvitað snemma á samba-perunni. Restin er ekki mikið síðri, áferðarfalleg og lungnamjúk músík, tilvalin í matarboðin og jafnvel til að gefa ömmu þinni í tækifærisgjöf (ef hún á plötuspilara). Heildarpakkinn er mjög flottur: skemmtileg mynd Spessa af titilstjörnunum, listilega fín upptaka Ívars Ragnarssonar og litskrúðug umslagshönnun Arnars Geirs Ómarssonar. Topp klassa stöff.
Magnús Trygvason Eliassen & Tómas Jónsson – Bilað er best
Útgefandi: Reykjavík Record Shop
Engin pressa
Titillinn Bilað er best vísar til bilaðra hljóðfæra, sem félagarnir Magnús Trygvason Elíassen (trommari) og Tómas Jónsson (píanóleikari) nota að einhverju ráði á sinni ævintýralegu samvinnuplötu. Báðir hafa fengist við alls konar tónlist árum saman, en þessari plötu mætti helst lýsa sem tilraunakenndu flippi, oftast mjög skemmtilegu og alvörulausu. Það er algjört frelsi og engin pressa. Auðvitað er skemmtanagildið mest fyrir flytjendurna sjálfa, sumar endurtekningasamar langlokur á plötunni geta tekið á taugarnar, en sem betur fer er meirihlutinn flott flipp og oftast er gaman.
Elskum þetta drasl
Alvöruleysið skín í gegn í lagatitlunum. Hér eru t.d. „Rjómi í mallann minn Tommi“, „Geimferð í blautbúning“ og bæði „Amma og afi“ og „Afi og amma“. „Jólakort frá Dusseldorf“ er vitanlega undir hnausþykkum Kraftwerk-áhrifum, sumt hljómar eins og lagið „Ég er frjáls“ með Facon hafi lent í hakkavél, en annars er bæði boðið upp á alvöruþrungna angurværð (þá sleppir auðvitað flippinu), drón, surg, stuð og gott grúf. Í fréttatilkynningu segja þeir: „Hvað segirðu, er suð í orgelinu? Er synthesizerinn ekki innbyrðis í tjúni? Er stundum rafmagnsflökt á trommuheilanum? Okkur er bara alveg nákvæmlega sama um það. Við elskum þetta drasl.“ Hlustendur sem hafa marga fjöruna sopið eða hlustendur, sem eru tilbúnir að taka stökkið út í fjöru, munu elska þetta drasl líka.
Magnús Trygvason Eliassen & Tómas Jónsson – Bilað er best
Útgefandi: Reykjavík Record Shop
***1/2 (3 og hálf af 5)
Athugasemdir