Ríkisútvarpið ohf. sendi nýlega inn umsókn til embættis skipulagsfulltrúans í Reykjavíkurborg, um að fá að fjarlægja tröppur sem liggja frá bakhlið útvarpshússins í Efstaleiti og niður að gatnamótum Háaleitisbrautar og Bústaðavegs. Umsókninni var hafnað og benti skipulagsfulltrúinn einnig á að frágangur á þessu horni lóðarinnar væri ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag.
Uppgefnar ástæður fyrir því að Ríkisútvarpið vildi fá að breyta skipulag og fjarlægja tröppurnar voru sá mikli hæðarmunur sem er á milli lóðarinnar í Efstaleitinu og gatnamótanna og það að Ríkisútvarpinu, sem lóðarhafa, „reynist erfitt að halda tröppunum öruggum fyrir gangandi vegfarendur sér í lagi á veturna vegna snjós og klaka“.
Mikilvæg göngutenging
Umsókn RÚV var tekin fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 27. júlí. Tekið var neikvætt í erindið, sem áður segir, en skipulagsfulltrúinn segir að tröppurnar séu mikilvæg tenging fyrir íbúa svæðisins og þá sem vinna á svæðinu.
„Það að fjarlæga tröppurnar myndi skerða aðgengi gangandi vegfarenda um svæðið og því ekki hægt að fallast á það,“ segir í umsögn skipulagsfulltrúa.
Einnig er þar bent á að á svæðinu sé í gildi deiliskipulag, sem samþykkt var 9. desember 2016. „Á því deiliskipulagi er gert ráð fyrir að tré séu á suðausturhorni lóðarinnar við Efstaleiti 1. Núverandi frágangur svæðisins er því ófullnægjandi samkvæmt deiliskipulagi,“ segir í umsögn skipulagsfulltrúa.
Teiknaða loftmyndin hér til hliðar úr skipulaginu frá 2016 sýnir hvernig gert var ráð fyrir því að trjám yrði plantað á milli útvarpshússins og Háaleitisbrautar.
Skipulagið gerir auk þess ráð fyrir því að göngutengingar í gegnum svæðið liggi meðfram útvarpshúsinu og um þann stiga, sem Ríkisútvarpið vill nú losna við, en fær ekki.
Athugasemdir