Sýning: hvað var, hvað er, hvað verður?
Sýningin hvað var, hvað er, hvað verður? er í heild vel úthugsuð og þannig úr garði gerð að verkin – sem ekki eru öll talin upp – styðja hvert annað. Niður tímans í ARS LONGA
Sýning: Hvað var, hvað er, hvað verður?
Tímabil: 8. júlí – 13. Ágúst
Opnunartími: 12-17 alla daga nema mánudaga
Hvað var, hvað er, hvað verður? Yfirskrift sumarsýningar hins ársgamla samtímalistasafns Ars longa á Djúpavogi má skilja sem vísun í sögulegt samhengi og samtal ólíkra kynslóða listamanna sem eiga verk á sýningunni. Þeirra á meðal er Kristján Guðmundsson og eitt þekktasta verk hans, Þríhyrningur í ferningi (1971–72). Verkið er gert úr mold sem myndar ferhyrndan flöt á gólfi en þríhyrninginn þarf áhorfandinn að skapa í huganum. Titillinn er margræður og býður upp á ólíkar leiðir til túlkunar. Ein þeirra er skírskotun til formfræði og grunnþátta myndlistar eins og þeir hafa verið kenndir á öllum skólastigum frá því um miðja 20. öldina. Verk Kristjáns Guðmundssonar eru hnitmiðuð í framsetningu og einkennast af hárfínni hugsun og þurrum húmor sem hann beinir að myndlistinni og menningunni í víðum skilningi.
Nýjar vörður
Annað verk eftir Kristján, Vörðubrot, frá sama tímabili, varð fréttaefni þegar það var fjarlægt af heilbrigðisyfirvöldum af útisýningu á Skólavörðuholtinu í Reykjavík sumarið 1970. Verkið er gert úr formbökuðu heilhveitibrauði sem er staflað upp líkt og steinum í vörðu og mynda þannig óreglulegan hrauk. Verkið var endurgert í fyrsta skipti fyrir sýninguna í Ars longa en efniviðinn má sjá sem tákn um hringrás lífsins, uppskeru þess sem er sáð og ræktað í moldinni, hnoðað, mótað, bakað og neytt áður en það hverfur aftur til moldar. Sjálf varðan er leiðarvísir í villum og má sjá sem myndhverfingu fyrir listina sjálfa og skírskotun í umbreytingar.
Form verksins Vörðubrot, eins og brauðunum er staflað upp í Ars longa, á sér formrænt skyldmenni í verkinu Án titils (1989-2023) eftir Rögnu Róbersdóttur sem er gert úr ferningslaga hrauni sem er raðað upp í formfastan þríhyrning. Efniskennd og leikur að formi tengir verkin saman en þau sækja einnig grundvöll sinn í tvær skyldar stefnur myndlistar sjöunda og áttunda áratugarins sem eru konseptlist og land list.
Á barmi einhvers
Við hliðina á Þríhyrningi í ferningi er að finna verk eftir Harald Jónsson, rauðan ferhyrning á vegg sem ber titilinn Gátt (2020/2022). Titillinn vísar í op eða opnun inn í annan heim sem rauði liturinn tengir við ástríður fremur en andlega upplyftingu. Þannig má tengja verkið margræðum Þríhyrningi í ferningi eftir Kristján og verki Sigurðar Guðmundssonar, Galti, a nice girl and a boy (1969) sem er að finna í sama hluta sýningarrýmisins. Verk Sigurðar er gert úr heysátu og kassalaga neonskilti en skiltið er með áletruninni „nice girl and a boy“ sem við hlið heysátunnar skapar hugrenningatengsl við forboðnar og ástríðufullar athafnir í sátunni. Verk Sigurðar er ekki heldur laust við húmor og spennu milli menningarheima, þar sem hugmynd um rómantíska sveitasælu mætir neónskilti borgarinnar og áhrifum bandarískrar bíómenningar.
Heimurinn og ég, eða Samtal við hnött I, III og IIII (2022 og 2023), er titill á þrískiptu, þriggja skjáa myndbandsverki eftir Ástu Fanneyju Sigurðardóttur sem á þessari sýningu birtist sem andlegur afkomandi bræðranna Kristjáns og Sigurðar. Hnötturinn er annars vegar uppblásin plastblaðra með áprentuðu landakorti og glær kúla sem kort af heiminum speglast í. Samtal myndbandanna, sem sýna fætur á grænni grasflöt sparka „knetti“ og þennan sama „knött“ svífa til himins, er einstaklega vel heppnað í einfaldleika sínum og látleysi, þar sem tilvistarlegar spurningar eru settar fram í gáskafullum leik. Í þessu verki kemur fyrir enn eitt grunnformið, hringurinn sem einnig birtist í myndbandi eftir Emmu Heiðarsdóttur af skótá með gati og hljóð- og veggverkinu Besta útgáfan af þér – tyggigúmmí asmr (2016) eftir Arnfinn Amazeen, sem lætur lítið yfir sér. Þetta er ljósblár hringur á vegg og heyrnartól þar sem heyra má smjattað á tyggigúmmíi.
Ein spurning hefur horfið úr umræðu um myndlist á Íslandi, og það er spurningin: hvað einkennir íslenska myndlist?
Hvað er?
Ein spurning hefur horfið úr umræðu um myndlist á Íslandi, og það er spurningin: hvað einkennir íslenska myndlist? Um aldamótin síðustu var enn uppi krafa um að þessari spurningu væri hægt að svara, en hún virðist – sem betur fer – vera að mestu horfin úr umræðunni. Engu að síður kom hún upp í hugann þegar gengið var um sýninguna hvað var, hvað er, hvað verður?, því þótt verkin séu eftir ólíka listamenn má finna tengingar á milli þeirra, og kannski ekki síst ákveðinn undirtón eða takt, sem kannski mætti kalla nið tímans. Nið sem streymir milli kynslóða og birtist sem uppsog og endurvinnsla hinna yngri á gjörðunum hinna eldri, bæði meðvitað og ómeðvitað. Þetta eru áhrif áhrifavalda sem hrærast á sama blettinum, í sömu borginni eða borgunum, hvort sem þær heita Reykjavík eða Amsterdam. Þessar kynslóðir sækja sömu barina og opnanir og þekkjast persónulega eða af orðspori. Á milli þeirra er andrúmsloft, hugmyndaleg tengsl og tilflutningur á næmi, sem jafnframt á sér uppsprettu í straumum alþjóðlegrar samtímalistar síðustu áratuga. Þannig snúast viðfangsefnin ekki um landfræðilegan stað heldur stað myndlistarinnar í menningunni. Á þessum stað virðist alltaf vera hægt að finna ný svör við sömu spurningunum um tengsl tvívíðra flata og þrívíddar, forms og lita, skúlptúrs og arkitektúrs, forma og tungumáls, efnis og anda, hugsunar og tilfinninga. Og það virðist alltaf vera hægt að setja fram óvænta niðurstöðu, eitthvað ferskt, eins og spurninganna hafi aldrei verið spurt áður.
Sýningin hvað var, hvað er, hvað verður? er í heild vel úthugsuð og þannig úr garði gerð að verkin – sem ekki eru öll talin upp – styðja hvert annað. Ljósmyndasafn Unnars Arnar J. Auðarsonar Almanak lands: Safnrit um hlutföll (2018), gólfverk Rögnu og myndband Sigurðar Guðjónssonar, Jafnvægi (2013), fjalla til að mynda öll um landslag en ekki eingöngu og á gerólíkan hátt. Annað sem virkar ekki eins vel var uppsetning á verki Níelsar Hafstein, Ryk og rakasugur dauðvona tungumáls (2023), við hliðina á verki Hildigunnar Birgisdóttur, awuia (2022). Verkið Níelsar naut sín ekki, það skyggði á verk Hildigunnar – eða hún á hann – og var auk þess óþarflega predikandi í beinum útskýringum þar sem aðrir listamenn létu sér nægja að gefa í skyn og ýja að merkingu. Þetta var þó smávægilegt og kannski smekksatriði en styrkur sýningarinnar er tvímælalaust samtal kynslóðanna þar sem í ljós koma margslungnir þræðir milli verka sem sum eru söguleg og önnur ný. Slíkt er sjaldgæft að sjá gert með þessum hætti á sýningum hérlendra safna sem verða oftar en ekki að treysta á sundurleita safneign til að setja fram listsögulegt sjónarhorn. Þótt ekki sé nema vegna þessa er sérstakur fengur að sumarsýningu þessa nýja safns á Djúpavogi.
Athugasemdir