Fyrrum bankastjóri Íslandsbanka, Birna Einarsdóttir, fær 56,6 milljónir í kjölfar uppsagnar sinnar vegna lögbrota við sölu bankans. Íslandsbanki greindi frá því í síðustu viku að Birna fengi að meðaltali 4,7 milljónir á mánuði í laun. Árið 2022 voru meðal mánaðarlaun fólks í fullu starfi 871 þúsund krónur samkvæmt Hagstofu Íslands. Það eru tæplega 10,5 milljónir á ári. Birna fékk 59,8 milljónir á síðasta ári fyrir störf sín.
Heimildin spurði fólk í Miðborginni og í Vesturbæ Reykjavíkur við hvað það starfaði og hve lengi það yrði að safna 60 milljónum króna. Jónína Ingibjörg Garðarsdóttir hefur nýhafið störf sem sjálfstæður leigubílsstjóri.

Hvað værir þú lengi að safna þér 60 milljónum?
Veistu það, ég er svo nýbyrjuð að ég hef bara ekki hugmynd um það.
Nokkur ár kannski?
Já alveg örugglega, nokkur ár.
Ertu búin að fylgjast mikið með Íslandsbankamálinu í fréttum?
Ég horfi ekki á fréttir.
Af hverju?
Bara þunglyndi.
Kominn með 60 milljónir
Sigurður Þorsteinsson fyrrum knattspyrnuþjálfari segist vilja jöfnuð á Íslandi. Hins vegar geti allir náð markmiðum sínum með því að hjálpa öðrum.

Hvað gerir þú Sigurður?
Ég er þjálfari.
Hvað ertu að þjálfa?
Ég er að þjálfa fyrirtæki en var knattspyrnuþjálfari.
Hvað heldurðu að þú yrðir lengi að safna 60 milljónum?
Ég byrjaði í síðustu viku og ég er kominn með 60 milljónir í dag.
Milljónir?
Já.
Þannig að þetta er upphæð sem þú getur auðveldlega safnað í þínu lífi?
Zig Ziglar skrifaði bók í Bandaríkjunum sem heitir Sjáumst á toppnum. Ég vil náttúrulega hafa ákveðinn jöfnuð í þjóðfélaginu... en þú getur sannarlega náð öllum markmiðum í lífinu ef þú hjálpar nægilega mikið af öðru fólki. Því miður eru sumir fjölmiðlar að grafa undan öllu sem heitir frumkvæði og svo framvegis. Ég vann í Austur-Þýskalandi og sá þá hvernig kommúnisminn virkar. Og ég var kommúnisti, ég var Mao-isti, og svo las ég Frelsið eftir John Stuart Mill og þá fór ég að hafa efasemdir. Síðan sé ég einhverja sem eru sósíalistar í dag og þá spyr ég hvað gerðu þeir áður en þeir voru sósíalistar? Voru þeir með blöð? Þá spyr ég hvernig komu þið fram við starfsmennina? Ef þeir koma ekki vel fram við starfsmennina þá verða menn ekki forrystumenn sósíalista á Íslandi. Forseti Frakklands gerir svoleiðis hluti, ég held við þurfum ekki... Ísland verður ekki betra af því.
Ekki raunhæft
Listmálarinn Þrándur Þórarinsson spáir því að hálf ævin hans færi í að safna 60 milljónum.

Hvað heldurðu að þú værir lengi að safna 60 milljónum?
Ætli það fari ekki svona hálf ævin í það, eitthvað svoleiðis. Ég veit það ekki. Það er ekki eitthvað sem væri raunhæft fyrir mig eða fólk sem ég þekki.
Fylgistu mikið með fréttum?
Já svona, jájá eitthvað.
Ertu búinn að fylgjast mikið með Íslandsbankamálinu?
Nei, það hefur farið framhjá mér. Er eitthvað splunkunýtt núna?
Ekki lagst yfir þetta
Kristjana Einarsdóttir hefur ekki fylgst mikið með Íslandsbankamálinu.

Við hvað starfar þú?
Ég er sölufulltrúi hjá Kalla K.
Hvað heldurðu að þú værir lengi að safna 60 milljónum?
Örugglega alla ævi.
Fylgistu mikið með fréttum?
Já, allavegana eitthvað.
Hefuru fylgst með Íslandsbankamálinu og hefurðu einhverja skoðun á því?
Nei, ég hef ekki lagst yfir það. Nei.
Athugasemdir