Vettvangsrannsókn lögreglu og Rannsóknarnefndar samgönguslysa í tengslum við flugslys á sunnudag þar sem þrír létust, telst lokið. Flugvélin var því í gærkvöldi flutt af slysstað með aðstoð þyrlu Landhelgisgæslu og síðan landleiðina í húsakynni RNSA á höfuðborgarsvæðinu.
Úrvinnsla gagna og öflun heldur áfram, og mun sú vinna taka nokkurn tíma. Ekki er vitað um orsakir slyssins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi.
Þar segir ennfremur að þau sem létust hafi verið við reglulegar hreindýratalningar Náttúrustofu Austurlands þegar slysið varð. Þrjú voru um borð og létust þau öll.
Þau sem létust voru:
Fríða Jóhannesdóttir, fædd 1982, spendýrafræðingur
Kristján Orri Magnússon, fæddur 1982, flugmaður
Skarphéðinn G. Þórisson, fæddur 1954, líffræðingur
Vettvangsrannsókn hófst í kjölfar þess að vélin fannst eftir tveggja stunda leit úr lofti og á láði. Rannsókn stóð yfir það kvöld og fram til morguns. Hún hélt svo áfram í gær seinnipartinn.
Lögregla vekur athygli á minningarstund sem haldin verður í Egilsstaðakirkju í dag klukkan 18. Hún minnir og á samráðshóp almannavarna um áfallahjálp sem í boði er fyrir þá fjölmörgu sem eiga um sárt að binda eftir slysið.
Kveikt verður á kertum í minningu þeirra sem létust. Prestar kirkjunnar ásamt fulltrúum úr viðbragðshópi Rauða krossi Íslands á Austurlandi verða á staðnum til sálræns stuðnings.
Athugasemdir