Þann 27. júní var frá því sagt í fréttum að lögregluþjónn hefði skotið til bana sautján ára pilt í Nanterre, einu af úthverfum Parísar. Pilturinn sat undir stýri, hefði hann reynt að flýja burt þegar lögreglan gaf honum merki um að stoppa, og síðan, eftir að hann hafði orðið að nema staðar vegna umferðar, hefði hann reynt að aka aftur af stað, beint á lögregluþjóninn sem var þá í bráðri hættu. Hann lýsti því strax yfir að hann hefði skotið piltinn í sjálfsvörn, og kom það í fréttum. Það fylgdi með að ungi pilturinn, Nahel að nafni, hefði áður komið við sögu hjá lögreglunni og verið á sakaskrá.
Enginn ástæða virtist vera til að ákæra lögregluþjóninn um eitt né neitt, og þannig hefði málinu getað lyktað, eins og mörgum málum af svipuðu tagi sem komið hafa upp að undanförnu, - það hefði einfaldlega verið fellt niður. Fyrir nokkrum árum voru þau lög útvíkkuð sem heimila lögreglunni að beita skotvopnum, og má hún nú draga upp sína hólka ef henni er sýnd „óhlýðni”, til dæmis ef einhver ökumaður reynir að flýja og líkur eru taldar á því að hann „aki á fólk”. Árið 2022 létu þrettán ungir menn lífið á þennan hátt, og málinun var ævinlega vísað frá. Hálfum mánuði áður en Nahel lét lífið var nítján ára Gíneumaður skotinn til bana við sams konar kringumstæður, án þess að það vekti þá mikla athygli.
En nú fór á annan veg. Einhver vegfarandi náði að taka myndskeið af atvikinu á gemsa og það sagði aðra sögu. Lögregluþjónarnir, sem voru tveir, stóðu vinstra megin við bifreiðina, annar sagði: „kúlu í kollinn” og svo aftur „þú skalt fá kúlu í kollinn”, síðan skaut hinn lögregluþjónninn piltinn í síðuna. Kúlan fór í hjartað og lést ökumaðurinn samstundis. Hvorugur lögregluþjónninn var í neinni hættu og banaskotið ástæðulaust með öllu, þetta var einfaldlega morð. Myndskeiðið fór strax á rás um netið og mikill fjöldi manns sá það. Það fylgdi reyndar með að Nahel hefði aldrei komið við sögu hjá lögreglunni og hvergi verið á sakaskrá, hann var sonur einstæðrar móður og engar sérstakar sögur af honum. Það eins sem hægt var að saka hann um var að hann sat próflaus undir stýri. Bíllinn var ekki einu sinni stolinn, Nahel hafði fengið hann lánaðan til að aka kunningja sínum í próf.
Fyrir nokkru reyndu yfirvöldin að berja í gegn lög sem bönnuðu að teknar væru ljósmyndir eða myndskeið af lögregluþjónum við störf, þau voru rekin til baka eftir hörð mótmæli, einkum frá fréttamönnum, og nú kom í ljós að það var eins gott. Framferði lögreglunnar var augljóst hverjum sem var og yfirvöld gátu ekki annað en brugðist við. Lögregluþjónninn sem skaut var hnepptur í gæsluvarðhald, og bæði Macron forseti og Elisabeth Borne forsætisráðherra fordæmdu þetta morð harðlega, forsætisráðherrann fór auk þess og vottaði móður piltsins samúð. Þau voru augljóslega hrædd um að atburðirnir 2005 kynnu að endurtaka sig. Þá leituðu tveir unglingar á flótta undan lögreglunni skjóls í háspennustöð og létu þar lífið, og það hleypti af stað miklum óeirðum í úthverfum Parísar sem stóðu yfir í hálfan mánuð og ollu gífurlegu tjóni.
Í ljós kom nú að þessi ótti var síður en svo ástæðulaus. Samstundis fóru af stað yfirgengilegar óeirðir og nú voru þær ekki takmarkaðar við úthverfi Parísar heldur gusu þær upp um allt land, í stórborgunum Lyon og Marseille og fjölmörgum smærri borgum og bæjum. Þeim fylgdu gegndarlaust ofbeldi og skemmdarverk, unglingar og jafnvel börn réðust á allt sem tilheyrði ríkisvaldinu eða var á einhvern hátt tákn um það, ráðhús, lögreglustöðvar, skóla, strætisvagnaskýli, nánast hvað sem var, og þeir fóru inn í verslanir og rændu og rupluðu. 42000 lögregluþjónar voru að sögn kvaddir á vettvang. Á kvöldin geysuðu fólkorustur á götum úti, og var þá skotið flugeldum á lögregluna. Hámarkið var kannske þegar óeirðaseggir reyndu að brenna bæjarstjóra einn inni á heimili sínu að næturlagi. Sjálfur var hann ekki heima og kona hans og börn sluppu með skrekkinn, en hann var mikill. Fjöldamargir særðust, bæði uppreisnarmenn og lögregluþjónar, en fyrir guðs mildi er ekki vitað um að neinn hafa látið lífi utan einn sem var úti á götu að ljósmynda atburðina. Hann varð fyrir því skeyti lögreglumanna sem nefnt er „flash ball”, það kom beint í brjóstkassann.
Á fimm dögum var tjónið orðið mun meira en á hálfum mánuði 2005, og hafa blöð reynt að tíunda það. Kveikt var í 1123 byggingum, að þeirra sögn, bæði opinberum byggingum og húsum einstaklinga, eða þær skemmdar. Ráðist var á 269 lögreglustöðvar af öllu tagi, allt frá herbúðum lögregluhermanna og niður í venjulegar löggustöðvar í smáhverfum. Um það bil 6000 bifreiðar loguðu, 243 skólabyggingar urðu fyrir skemmdum, þar af voru tíu gereyðilagðar, 370 bankar og útibú þeirra urðu einnig fyrir skemmdum og 80 pósthúsum þurfti að loka vegna eyðileggingar. Ráðist var á 200 matvælaverslanir. 39 strætisvagnar og einn sporvagn urðu eldum að bráð og var það tjón metið á 20 miljónir evra eða meir. Tryggingum var tilkynnt um 280 miljóna tjón einstaklinga en langt er frá að þar séu öll kurl komin til grafar. Fyrir fyrirtæki nemur tjónið meira en einn milljarð evra, að sögn samtaka atvinnurekenda. Yfirvöld velta nú vöngum yfir leiðum til að bæta tjónið. Macron forseti hefur beint þeim tilmælum til tryggingafélaga að þau reyni að bregðast við sem skjótast og rætt hefur verið um að setja sérstök neyðarlög.
Sennilega hefur ekkert þessu líkt gerst í neinu ríki í Vestur-Evrópu síðan frá stríðslokum, og velta menn vöngum yfir ástæðum þessara yfirgengilegu atburða. Hægri menn, einkum þó þeir sem standa yst til hægri, eru ekki í neinum vafa um sökudólginn: það eru innflytjendur, og ráðast þeir harðlega á stjórnarvöld fyrir að hafa ekki reynt að stemma stigu við flóttamannastraumi síðustu ára. Þeir kalla óeirðaseggina „villimenn” og „skríl” sem þurfi að berja niður með harðneskju og ganga til stuðnings við lögregluna, jafnvel þann sem varð Nahel að bana, því var reyndar mótmælt strax að hann skyldi vera settur inn. Einn sagði að það ætti ekki að fangelsa hann heldur verðlauna fyrir að hafa drepið þennan „17 ára glæpamann”, ef einhver væri sekur væri það fjölskylda hans, fyrir að hafa alið hann illa upp. Efnt var til samskota á netinu fyrir fjölskyldu lögreglumannsins fangelsaða og stærðu forsprakkar þeirra sig af því að komið væri inn meira fé fyrir hana en inn var komið í samskotum fyrir móður Nahels. Það fylgdi með að innan skamms myndu vinstri menn og allt það hyski fjölmenna á bráðamóttökur. Eina ráðið sem hægri menn kunna er að siga lögreglunni á allt sem lífsanda dregur.
Vinstri menn benda á að í þeim hverfum þar sem til óeirða hefur komið ríki ófremdarástand og hafi lengi ríkt, þess vegna hafi þessi sprenging orðið. En það er flókið mál og erfitt að rekja, því vilja margir hægri menn vísa slíkum skýringum á bug, þeir víkja ekki frá sinni meinloku um „innflytjendurna”.
En hverjir eru þessir „innflytjendur”? Vandamál úthverfanna teygja sig langt aftur í tímann, til þeirra ára þegar ekki var reynt að stemma stigu við innflutningi fólks heldur fá menn úr þeim löndum sem þá höfðu til skamms verið nýlendur Frakka eða voru það enn til að starfa við verksmiðjur þar sem hörgull var á vinnufólki. Þetta var til að reisa við atvinnulíf í landinu. Þessum mönnum var hrúgað upp í sálarlausum turnum eða kössum í úthverfum, sem reist voru í flýti í beinum röðum og auðum svæðum á milli. Hefur oft verið sagt að ábyrgð arkitekta á ástandinu sé þung – ég heyrði einu sinni útvarpsumræður um efnið „hvernig í ósköpunum datt nokkrum manni í hug að byggja þetta?” – en þeir verja sig með því að þeir hafi verið neyddir til að byggja úthverfin á þennan hátt, það hefði verið svo ódýrt að nota sömu teikningarnar aftur og aftur. Aðrir segja þó að þessi úthverfi hafi verið byggð eftir þeim kenningum um byggingalist og borgarskipulag sem þá voru mest í tísku, en slíkar kenningar hafa þá náttúru að úreldast fljótt um leið og missmíðin fara að blasa við. Í þessum einhæfu hverfum var svo afskaplega lítið um þjónustu, t.d. pósthús eða þá verslanir, kvikmyndahús og kaffihús, samgöngur lélegar og skólar langt í burtu. Þannig mynduðust eyðimerkur þar sem ekkert var um að vera, ekkert að gera nema koma heim úr vinnunni á kvöldin, horfa á sjónvarp og sofna.
Svo gerðist það að iðnaður dróst saman, verksmiðjur lokuðu og atvinnuleysi jókst, hvernig sem það þróaðist á öðrum svæðum í Frakklandi var það alltaf mun meira í úthverfunum. Um leið jókst fátækt og eymd jafnt og þétt. Nú var risin upp önnur eða þriðja kynslóð „innflytjenda”, sem höfðu lítil tengsl við uppruna sinn, nema kannske trúarbrögðin, en höfðu ekki getað aðlagað sig að neinu gagni að frönsku þjóðfélagi. Ungt fólk hafði oft ekkert annað skjól en hýrast úti á götunum, því virtust allar leiðir lokaðar, það sá enga framtíð fyrir sér. Ástandið versnaði í sífellu, um leið fór að myndast „hliðstætt efnahagslíf”, eins og sagt er, sem byggðist á eiturlyfjasölu, gengjamyndun og alls kyns glæpastarfsemi þessu tengdri. „Dílerarnir” eiga til að berjast um markaðinn beint fyrir framan skólabyggingar.
Eina svar yfirvalda var að senda lögregluna á vettvang, en það gerði ekki annað en ausa olíu á eldinn. Lögregluþjónarnir litu niður á íbúa úthverfanna, einkum og sér í lagi unga fólkið sem þeir höfðu fyrir framan sig, og auk þess voru þeir uppfullir af kynþáttahatri. Rannsóknir sem gerðar hafa verið benda til þess að um helmingur lögreglumanna aðhyllist skoðanir sem eru yst til hægri, halli sér að Marine le Pen eða jafnvel Eric Zemmour, og það kemur skýrt fram í þeim yfirlýsingum sem stéttarfélög þeirra láta frá sér fara. Þessir lögregluþjónar höfðu ein réttindi, eins og þeir hafa reyndar alls staðar í landinu, en þeir beittu þeim sérstaklega í þessum úthverfum, þau voru að ganga að mönnum og krefja þá um skilríki þeirra. Venjulegur hvítur maður sem gemgur um götur Parísar verður aldrei fyrir því, nema við einhverjar alveg sérstakar aðstæður, að lögreglumaður stöðvi hann og heimti að fá að skoða pappírana, en fyrir menn í úthverfum sem eru dökkir á húð og hár er þetta daglegt brauð, og því fylgja gjarnan móðganir af ýmsu tagi („ef þú ert ekki ánægður þá eru til flugvélar til að fara með þig burt”). Sagt var frá því í blöðum að stofnun sem sá um aðstoð við menn sem voru látnir lausir úr fangelsum og hafði skrifstofu til að taka á móti þeim varð að flytja, allir sem leituðu til hennar lentu í því að lögreglumaður stöðvaði þá á leiðinni og krafði þá um pappíra. Þetta er einn versti rembihnúturinn í samskiptum manna í úthverfum við yfirvöldin.
Fyrir bragðið er ungt fólk í úthverfum farið að líta á lögregluþjóna sem fjandmenn sína og það er á báða bóga, samskiptin eru nánast alltaf í illu. Þannig hefur skapast ástand sem er í alla staði skelfilegt, en það á ekkert skylt við það flóð manna úr öðrum hálfum, flóttamanna af ýmsu tagi, sem mjög er nú á dagskrá og hægri menn setja á oddinn. Hér er að mestu leyti um franskt vandamál sem verður fyrst og fremst að skrifast á reikning stjórnvalda gegnum árin. En það láta hægri menn sig engu varða, afstaða þeirra byggjast á kynþáttafordómum, þótt þessir „Arabar” og „svertingjar” hafi búið í landinu í fleiri en eina kynslóð og hafi franskt ríkisfang eru þeir ófærir um að vera Frakkar, þeir uppnefna þá „pappírsfrakka”. Eina leiðin í þeirra augum er sú að reka allt þetta fólk burt úr landinu þangað sem þeir eru upprunnir.
Ekki vantar að menn hafi bent á þetta ófremdarástand og leitað að leiðum til að ráða bót á því. Einu sinni voru settar á fót lögreglusveitir sem áttu að vera í nánum tengslum við íbúa úthverfanna, kynnast þeim kannske persónulega, og reyna að leysa vandamálin kylfulaust. Þetta mun hafa gefið nokkuð góða raun, þeir komu fram eins og strangir en velviljaðir afar. En Sarkozy lagði þessar sveitir niður í sinni forsetatíð með orðunum „lögreglan á ekki að spila fótbolta, hún á að halda uppi lögum og reglu”, með öðrum orðum hún á að lúskra á mönnum. Þá var ekkert eftir í úthverfunum nema menn með skildi og hjálma, byssur og barefli. Einu sinni þegar ástandið í úthverfunum virtist vera að keyra um þverbak var fyrrverandi ráðherra, Borloo að nafni, fenginn til að gera skýrslu og setja fram tillögur til umbóta. Þetta starf vann hann af samviskusemi og lagði svo skýrsluna fyrir Macron, en forsetinn ýtti henni orðalaust til hliðar. Þetta vakti athygli, ekki var laust við að Borloo yrði beiskur út af þessari lítilsvirðingu.
En nú er vandamálið komið aftur, illvígara en nokkru sinni fyrr. Og þá er eftir að sjá hvernig yfirvöldin ætla nú að bregðast við. Annars má búast við að allt fari aftur af stað, kannske næst þegar aðgerðir lögreglumanns nást á myndskeið.
--------------------------
Af hverju óttast sumir og hafa andúð á flóttamönnum og innflytjendum? Tilgáta (það er ekki víst að það sé flugufótur fyrir henni):
Fólk óttast sig sjálft......
Sumt fólk hefur það betra en annað fólk. Það fólk vill kannski frekar kaupa sér einhvern óþarfa en hjálpa fólki sem býr á ruslahaugum útí heimi. Ríka fólkið óttast að fátæka fólkið komi og taki auðinn og hagi sér eins og það gerði. Með öðrum orðum það óttast sig sjálft. Í þessu felst ótti um misskiptingu en einnig rasísk hugsun um að aðkomufólk megi ekki efnast í sama mæli og heimamenn eða meira en það sjálft. Svo er þekkt að þeir sem aðhyllast hægri stefnu - sem felur yfirleitt í sér misskiptingu, eru yfirleitt andsnúnari innflytjendum. Kannski er það vegna þess að þeir óttast sjálfir mest að verða undir. Auk þess tel ég þjóðrembu og önnur trúarbrögð geta stuðlað að andúð á innflytjendum og skortur á kærleika?