Ríflega helmingur þeirra sem leituðu til Stígamóta í fyrra eftir að hafa orðið fyrir nauðgun greindi frá því að þau hefðu frosið eða fundist líkami sinn lamast. Tæpur þriðjungur gerði ekkert. „Stundum er besta leiðin til að lifa af að gera ekki neitt eða frjósa,“ segir í ársskýrslu Stígamóta fyrir árið 2022 sem kom út í dag.
Grafið hér að neðan sýnir viðbrögð brotaþola, annars vegar þeirra sem urðu fyrir nauðgun og hins vegar þeirra sem beittir voru kynferðisofbeldi þegar þeir voru börn. Þar sést að ríflega helmingur þeirra sem var nauðgað greindu frá að þeir hefðu frosið eða fundist líkami sinn lamast. Einnig kom fram að 27,3% þeirra sem var nauðgað gerðu ekkert og 24,6% létu sem ekkert væri. Þá kemur fram að hæsta hlutfall einstaklinga sem beittir höfðu verið kynferðisofbeldi sem barn gerðu ekkert, næsthæsta hlutfall hafði frosið eða fundist líkami sinn lamast og þriðja hæsta hlutfallið sagðist hafa látið sem ekkert væri.
„Þessar niðurstöður sýna að algeng viðbrögð við kynferðisofbeldi eru að frjósa eða finnast líkami sinn lamast, gera ekki neitt, eða berjast á móti með líkamlegu afli eða orðum. Allt eru þetta eðlileg viðbrögð við þeim óeðlilegu aðstæðum sem kynferðisofbeldi er,“ segir í skýrslunni.
Þá er bent á að viðbrögð einstaklinga, líkt og dýra, geti verið þrenns konar þegar einstaklingur upplifir áfall eða mikinn ótta. „Einstaklingar geta frosið, reynt að flýja eða barist á móti. Allt eru þetta viðbrögð sem geta hjálpað okkur að lifa af erfiðar aðstæður. Á Stígamótum lítum við svo á að það að frjósa eða gera ekki neitt séu eðlileg viðbrögð við kynferðisofbeldi, líkt og það að flýja eða berjast á móti. Stundum er besta leiðin til að lifa af að gera ekki neitt eða frjósa,“ segir þar.
Færri ný mál
Árið 2022 leituðu 910 einstaklingar til Stígamóta, af þeim voru 397 einstaklingar sem leituðu aðstoðar vegna eigin mála í fyrsta skipti. Þá leituðu 124 aðstandendur í fyrsta sinn til Stígamóta á árinu og þar af voru 48 með upplýsingar um mál sem ekki voru þekkt hjá Stígamótum.
Á síðasta ári voru 397 ný mál þar sem brotaþolar komu sjálfir með mál sín til Stígamóta. Þetta er um 14,6 % fækkun slíkra mála frá árinu 2021. En árið 2021 voru ný mál brotaþola 465 talsins og höfðu þá aldrei fleiri einstaklingar leitað til Stígamóta í fyrsta skipti vegna sinna mála frá stofnun samtakanna.
Árið 2022 var svarmöguleikanum „kynsegin“ bætt við svarmöguleikana „kona, karl og skilgreini kyn á annan hátt“ hjá Stígamótum. Taflan hér að ofan sýnir að fjórir einstaklingar skilgreindu sig kynsegin. Eins og árin á undan leituðu umtalsvert fleiri konur en karlar til Stígamóta árið 2022. Þá segir að athyglisvert sé að hlutfall karla var 7,1% og hefur hlutfall karla ekki verið lægra síðan árið 2000 en þá var hlutfall karla um 4%. „Þessi munur á hlutföllum milli ára gæti mögulega verið tilkomin vegna lítillar umræðu í samfélaginu um karkyns brotaþola,“ segir í skýrslunni.
Af þeim konum sem leituðu til Stígamóta á árinu nefndi meirihluti nauðgun sem ástæðu fyrir komu, og eru það sambærilegar niðurstöður og koma fram í ársskýrslum 2014 til 2021.
„Athygli vekur að næsthæsta hlutfall kvenna nefndi að þeim hefði verið nauðgað/gerð tilraun til nauðgunar þar sem meðvitundarleysi þeirra vegna áfengis og/eða lyfja var nýtt. Þetta eru sambærilegar niðurstöður og fram koma í ársskýrslum frá árunum 2018 til 2021. Eins er athyglisvert að einungis einn karl nefndi að honum hefði verið nauðgað eða gerð tilraun til þess þar sem meðvitundarleysi hans vegna áfengis og/eða lyfja var nýtt. Þessar niðurstöður eru svipaðar niðurstöðum ársskýrslu ársins 2021 en þar kom fram að engum karli hafði verið nauðgað eða gerð tilraun til þess þar sem meðvitundarleysi hans vegna áfengis og/eða lyfja var nýtt,“ segir í skýrslunni. Hana má í heild sinni lesa hér.
Athugasemdir