Atvinnuleysi mældist 2,9 prósent í júní síðastliðnum. Það er minnkun um 0,1 prósentustig frá fyrri mánuði en atvinnuleysi hefur lækkað um 0,6 prósentustig borið saman við sama mánuð í fyrra þegar það var 3,5 prósent. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu frá Vinnumálastofnun (VMST).
Atvinnuleysi hefur lækkað jafnt og þétt síðustu misseri og þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2018 sem atvinnuleysi mælist undir þremur prósentum. Í desember það ár mældist atvinnuleysi 2,5 prósent.
„Að meðaltali voru 5.833 atvinnulausir í júní, 3.185 karlar og 2.648 konur. Að meðaltali fækkaði atvinnulausum um 208 frá maí,“ segir í skýrslu VMST. Atvinnuleysi mælist mest á Suðurnesjum, 3,8 prósent og minnkar um 0,3 prósentustig milli mánaða. Minnst var atvinnuleysi á Norðurlandi vestra, 0,6 prósent. Það er eina svæði landsins þar sem meira atvinnuleysis mælist meðal karla en kvenna. Á Austurlandi var atvinnuleysi 1,1 prósent og á Vestfjörðum var 1,7 prósent atvinnuleysi í júní.
Hlutfall erlendra atvinnuleitenda heldur áfram að hækka
Í flestum atvinnugreinum fækkaði atvinnulausum lítillega milli mánaða. „Mest var fækkun atvinnulausra í ferðaþjónustu, þ.e. farþegaflutningum, gistiþjónustu og ýmissi ferðaþjónustu. Einnig fækkaði atvinnulausum nokkuð í verslun og vöruflutningum. Í sjávarútvegi fjölgaði atvinnulausum hins vegar lítilsháttar frá maí.“
Erlendum atvinnuleitendum fækkaði á milli mánaða um 49 og eru nú 2.980. Þrátt fyrir fækkunina hefur hlutfall erlendra atvinnuleitenda af heildarfjölda atvinnuleitenda hækkað síðustu misseri og stendur nú í 49 prósentum.
VMST gerir ráð fyrir litlum breytingum á atvinnuleysi í júlí, það gæti orðið á bilinu 2,7 til 2,9 prósent.
Hröð minnkun atvinnuleysis eftir faraldur
Atvinnuleysi hefur minnkað hratt frá því á tímum kórónuveirufaraldursins. Fyrir tveimur og hálfu ári síðan, í janúar árið 2021 náði almennt atvinnuleysi hámarki þegar það var 11,6 prósent. Á þeim tíma var til staðar úrræði sem gaf fólki kost á að sækja sér atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls, svokölluð hlutabótaleið. Í janúar árið 2021 mældist 1,2 prósent atvinnuleysi vegna þessa úrræðis og heildaratvinnuleysi á þeim stóð því í 12,8 prósentum. Í apríl og maí árið 2020 var heildaratvinnuleysi að vísu hærra en í janúar ári síðar vegna þessa úrræðis en það fór hæst í samtals 17,8 prósent í apríl 2020, snemma í faraldrinum.
Líkt og áður segir mældist almennt atvinnuleysi hæst í janúar 2021, 11,6 prósent, en við lok þess árs var almennt atvinnuleysi komið niður í 4,9 prósent. Atvinnulausum hélt svo áfram að fækka árið 2022 og við lok ársins stóð atvinnuleysi í 3,2 prósentum. Að meðaltali voru 3,9 prósent af mannafla á vinnumarkaði atvinnulaus í fyrra samanborið við 7,7 prósent árið áður.
Athugasemdir