Lorie Smith, sannkristinn grafískur hönnuður og vefhönnuður, lét reyna á það fyrir dómstólum að það bryti gegn tjáningarfrelsi hennar að þurfa að hanna vefsíðu og boðskort fyrir samkynhneigð verðandi brúðhjón.
Málið fór alla leið í Hæstirétt Bandaríkjanna sem í síðustu viku sneri niðurstöðu héraðsdóms í Colorado við og komst að þeirri niðurstöðu að Colorado-ríki er óheimilt að neyða Lorie til að hanna heimasíðu og brúðkaupsboðskort fyrir hinsegin par.
Dómurinn var með þeim síðustu sem hæstiréttur kvað upp á þessu starfsári og flokkast því með öðrum umdeildum málum þar sem niðurstöðu hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu. Rúpúblikanar eru með meirihluta í hæstarétti og því kom ekki á óvart að sex dómarar dæmdu vefhönnuðinum í vil á grundvelli tjáningarfrelsis.
En málið snýst um annað og meira en rétt fyrirtækjaeigenda til að mismuna viðskiptavinum eftir kynhneigð. Áreiðanleiki dómskjals sem gegnir lykilhlutverki í málinu er óljós og útlit er fyrir að upplýsingarnar sem koma fram í skjalinu eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum og séu hreinlega falsaðar.
Lorie rekur sína eigin hönnunarstofu, 303 Creative, í Littleton í Colorado. Hún kemur úr fjölskyldu frumkvöðla, að eigin sögn, og langaði alltaf að reka eigið fyrirtæki. „Ég hef alltaf verið skapandi,“ segir hún í samtali við New York Times. „Þegar ég byrjaði að skapa tók ég meðvitaða ákvörðun um að það sem ég hanna og skapa verði að heiðra og lofsyngja Guð.“
Fetar í fótspor bakarans
Málinu svipar til máls bakarans Jack Phillips. Rétt eins og Lorie er Jack frá Colorado og sannkristinn, og Lorie þekkir hann meira að segja. Jack á bakaríið Masterpiece Cakeshop og neitaði að baka brúðkaupstertu fyrir lesbískt par en dómstóll í Colorado komst að þeirri niðurstöðu að honum var ekki heimilt að mismuna parinu. Málið fór fyrir hæstarétt sem sneri dómnum við. Dómurinn var hins vegar ekki talinn fordæmisgefandi þar sem ekki var kveðið á um í hvaða tilfellum er heimilt að mismuna dólki á grundvelli trúfrelsis og ójóst var hvort kökubakstur flokkist sem tjáningafrelsi. Mál Lorie fór hins vegar sömu leið og mál bakarans.

Í dómskjalinu kemur fram að fyrir sjö árum hafi samkynhneigður maður að nafni Stewart óskað eftir þjónustu hennar í tengslum við brúðkaup sem hann og verðandi eiginmaður hans væru að skipuleggja. „Við erum að fara að gifta okkur snemma á næsta ári og viljum gjarnan að þú hannir boðskort, merkingar o.s.frv. Við gætum einnig haft áhuga á heimasíðu,“ segir í skilaboðum sem Stewart á að hafa sent í gegnum heimasíðu Lorie.
Stewart kannast hins vegar ekkert við að hafa sent þessi skilaboð. „Ég er giftur, ég á barn,“ segir hann í samtali við The New Republic. Blaðamaður fjölmiðilsins hafði upp á Stewart viku áður en hæstiréttur kvað upp dóm sinn. Símanúmer, netfang og heimasíðu Stewarts var að finna í dómskjalinu.
Blaðamaðurinn hringdi í Stewart, sem svaraði. „Ég skil ekki alveg hvaðan þetta kemur. En einhver er að nota falskar upplýsingar í dómskjali fyrir hæstarétt.“
Hinn raunverulegi Stewart mjög ósammála Lorie
Ekkert var minnst á Stewart í málinu til að byrja með og svo virðist vera sem Lorie og lögfræðingar hennar fundið upp samkynhneigt par í leit að brúðkaupsheimasíðu til að nota sem gögn til að rökstyðja andstöðu sína við samkynja hjónabönd. Dómstóll í Colorado taldi frásögn Lorie af Stewart ónákvæma og ekki nægjanlegt sönnunargagn „til að meta líkurnar á því að samkynja par myndi sækjast eftir þjónustu stefnanda“.
Málið fór því fyrir hæstarétt þar sem Lorie hafði betur. Þrátt fyrir vankantana sem kunna að vera á dómskjalinu þá breytir það því ekki að Stewart sem óskaði eftir þjónustu vefhönnuðarins sem er á móti samkynja hjónaböndum er ekki til.
Hinn raunverulegi Stewart er mjög mótfallinn skoðunum Lorie. „Ég er mjög ósammála því sem hún stendur fyrir,“ segir Stewart, sem vill samt forðast sviðsljósið sem honum var óvænt gefið í þessu máli. En hann bað ekki um heimasíðu, hvað þá atburðarrásina sem falska óskin hrinti af stað.
Athugasemdir