Færri vistunarúrræði fyrir kvenkyns fanga er ein helsta ástæða þess að staða kvenna í fangelsum á Íslandi er almennt lakari en staða karla. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá umboðsmanni Alþingis þar sem aðstæður kvenna í fangelsum voru bornar saman við aðstæður karla í sömu sporum.
Skýrslan sem ber titilinn Konur í fangelsi: Athugun á aðbúnaði og aðstæðum kvenna í afplánun er fyrsta þemaskýrsla umboðsmanns Alþingis á grundvelli svokallaðs OPCAT-eftirlits með stöðum þar sem frelsissviptir dvelja.
Tekið er fram í skýrslunni að í eldri skýrslum Fangelsismálastofnunnar hafi verið settar fram tillögur um hvernig bæta megi aðstöðu kvenna til vistunar í fangelsi.
Staðan sýni að heildarsýn í málafokknum skorti
Tillögurnar sneru meðal annars að því að fjölga vistunarmöguleikum til að koma þannig betur til móts við þarfir kvenkyns fanga, auk þess sem vikið var að mikilvægi þess að móta heildstæða stefnu um vistun kvenna í fangelsum. „Tillögurnar, eins og þær voru kynntar í skýrslunum tveimur, komu ekki til framkvæmda. Ekki varð heldur úr að móta heildræna stefnu um vistun kvenna í fangelsum og ber núverandi staða með sér skort á heildarsýn í málaflokknum,“ segir í skýrslunni.
Kvenkynsfangar eru í miklum minnihluta af heildarfjölda fanga, hlutfallið hefur verið í kringum sex prósent á undanförnum árum. Þessi minnihlutastaða er „almennt til þess fallin að koma niður á möguleikum þeirra til að afplána í ólíkum úrræðum,“ segir í skýrslunni en kvenfangar eru einungis vistaðir í tveimur af fjórum fangelsum sem Fangelsismálastofnun rekur, á Hólmsheiði og Sogni.
„Aðalvistunarstaður kvenfanga er Fangelsið Hólmsheiði sem er að öðru leyti fyrst og fremst hugsað sem móttöku- og gæsluvarðhaldsfangelsi. Þar af leiðandi vistast kvenfangar að meginstefnu til í lokuðu fangelsi þar sem öryggisstig er hátt,“ segir í tilkynningu frá umboðsmanni Alþingis sem send var út samhliða útgáfu skýrslunnar. Þrátt fyrir að ýmislegt sé gert til að koma til móts við þær konur sem þar dvelja, þá „ber skortur á virknistarfi og þjónustu í fangelsinu vitni um að það hentar illa sem langtímaúrræði.“
Atvinnutækifæri bundin við þrif og handverk
Skortur á virknistarfi og þjónustu birtist meðal annars í því að minna framboð er af vinnu fyrir kvenfanga og þeirra tækifæri eru að mestu bundin við hefðbundin kvennastörf, svo sem þrif og handverk. Því hefur umboðsmaður Alþingis komið því á framfæri að leita skuli leiða til að auka framboð af atvinnu fyrir kvenfanga. Umboðsmaður hefur einnig sent ábendingu til mennta- og barnamálaráðherra þess efnis að skoða þurfi, í samráði við fangelsismálayfirvöld, hvort hægt sé að bæta menntamál kvenkyns fanga.
Hitt fangelsið sem hýsir konur er á Sogni en þar vistast bæði karlar og konur. Konurnar eru þar í miklum minnihluta, mest þrjár miðað við átján karlfanga á hverjum tíma. Það geti skýrt hvers vegna konur vilji heldur taka út sína afplánun á Hólmsheiði. Líkt og fram kemur í skýrslunni þá stendur konum ekki lengur til boða að afplána á Kvíabryggju, „sem af ýmsum ástæðum þykir eftirsóknarvert.“
Gera þurfi kvenföngum kleift að afplána í opnum fangelsum
„Möguleikar kvenna til að afplána í opnu fangelsi eru þannig lakari en karla í sömu stöðu án þess að sá munur verði útskýrður með öðru en skorti á viðeigandi úrræðum,“ segir í tilkynningu umboðsmanns. Hann bendir á að staðan sé ósamrýmanleg almennum jafnræðisreglum og beinir því þar af leiðandi til bæði ráðuneytis og Fangelsismálastofnunar „að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að kvenfangar hafi í raun sömu möguleika á að afplána í opnu fangelsi og karlar í sömu stöðu.“
Ábendingar umboðsmanns snúa líka að heilbrigðisþjónustu. Taka þurfi til skoðunar hvort hægt sé að koma til móts við fanga sem óska eftir að vera sinnt af heilbrigðisstarfsfólki af sama kyni, auk þess sem bent er á mikilvægi þess að kvenkyns fangar hafi greiðan aðgang að krabbameinsskimunum.
Stór hluti kvenkyns fanga glímir við fíknivanda en nauðsynleg aðstoð virðist ekki vera í boði. Meðferðarfulltrúi hefur ekki fasta viðveru og föngum býðst ekki að dvelja á vímuefnalausum gangi. „Í ljósi aðstæðna verður vart annað séð en að konur séu sá hópur innan refsivörslukerfisins sem fær hvað minnsta aðstoð við að ná tökum á vímuefnavanda sínum.“
Erlendir fangar reiða sig á upplýsingagjöf frá samföngum
Sérstaklega er vikið að kvenkyns föngum af erlendum uppruna en í viðtölum á Hólmsheiði kom í ljós að konur í þeim hópi höfðu þurft að reiða sig að miklu leyti á samfanga fyrir upplýsingar.
„Í skýrslunni er bent á að það fyrirkomulag geti reynst óheppilegt og því beint að fangelsinu og Fangelsismálastofnun bæta upplýsingagjöf til erlendra fanga, s.s. með því að þýða mikilvægar upplýsingar og notast við túlkaþjónustu þegar komið er á framfæri upplýsingum sem ljóst er að hafi mikla þýðingu fyrir þá,“ segir í tilkynningu umboðsmanns. Þar að auki þurfi að gæta að því að fangar túlki ekki hver fyrir annan þegar um er að ræða viðkvæm einkamálefni.
Óskar eftir viðbrögðum
Í síðasta kafla skýrslunnar segir að umboðsmaður muni halda áfram að fylgjast með þróun mála sem og viðbrögðum viðeigandi yfirvalda sem geta orðið til þess að tiltekin atriði verði tekin til frekari skoðunar.
Óskað er eftir því að Fangelsið á Hólmsheiði, Fangelsið Sogni, Fangelsismálastofnun og geðheilsuteymi fangelsanna upplýsi umboðsmann um viðbrögð við tilmælum og ábendingum sem settar eru fram í skýrslunni eigi síðar en 1. febrúar næstkomandi. Þá er einnig óskað eftir því að fyrir þann tíma verði bæði dómsmálaráðuneyti og barna- og menntamálaráðuneyti búin að gera grein fyrir viðbrögðum sínum við þeim tilmælum og ábendingum sem beint er til þeirra í skýrslunni.
Athugasemdir