Nú er svo komið að eftir 28 ára stjórnarsetu Sjálfstæðisflokksins síðustu 32 árin hefur honum að mestu tekist að brjóta niður heilbrigðiskerfið, rústa húsnæðismálum almennings og kollvarpa fjármálakerfinu einu sinni. Með kaldhamraðri sérhagsmunagæslu innvígðra og innmúraðra lukkuriddara flokksins, bæði innan opinbera kerfisins og utan, eru þeir á góðri leið nú með að draga tennurnar úr bankakerfinu á nýjan leik. Íslenska þjóðfélagið einkennist nú af auðræði, sérhagsmunagæslu gagnvart auðlindum, fákeppni, hnignandi samkeppni og niðurbroti velferðarkerfanna í meira mæli en nokkru sinni fyrr í sögu þess. Hljómsveitarstjórinn nú er Bjarni Benediktsson en var Davíð Oddsson á fyrri hluta þessa tímaskeiðs. Óhæfuverkin gegn almenning eru nú unnin með vitund, vilja og samþykki framsóknarflokkana sem þeir hafa í taumi í ríkisstjórn.
Almennir kjósendur virðast vera farnir að átta sig á að þessi valdaflokkur hatar samkeppni, jöfn tækifæri og eftirlit af hálfu hins opinbera hvað svo sem stendur í stefnuskrá hans. Samfylkingin, sem neyddist til að endurskoða stefnuna í þessu ljósi og einbeita sér um sinn að neyðaraðstoð við heilbrigðis- og húsnæðiskerfið, hefur nú 50 prósenta meira fylgi í könnunum en Sjálfstæðisflokkurinn. Stuðningsflokkur þessarar stefnu Sjálfstæðisflokksins, VG, nær nú vart 7 prósenta fylgi í könnunum.
Forhert valdbeiting í þágu ógagnsæis
Harðsnúinn og einbeittur brotavilji stjórnarflokkanna gagnvart kjósendum hefur undanfarna mánuði komið skýrt fram Íslandsbanka- og Lindarhvolsmálinu. Í Lindarhvolsmálinu hafa þeir með hrokafullum hætti haldið upplýsingum frá almenningi og misnotað Alþingi til þess. Enn þverskallast formaður Sjálfstæðisflokksins við að skipa rannsóknarnefnd í Íslandsbankamálinu enda búinn að koma eignum almennings í hendur föður síns og frænda í krafti ógagnsæis. Dyggilegan stuðning hefur hann vitanlega fengið frá samstarfsflokkunum til að auka ógagnsæi íslenska samfélagsins með þessum hætti.
Ann Charlott Altstadt er krítísk, sænsk blaðakona sem hefur oftar en ekki lagt allt undir í störfum sínum. Hún heldur því fram að náið samband sé á milli lýðræðis og hollustu: „Þegar lýðræðinu hnignar sýna menn meiri hollustu.“ Altstadt þarf ekki annað en að líta til Íslands til þess að færa sönnur á tilgátu síns. Strákarnir á fjármálamarkaðnum þurfa að sýna Sjálfstæðisflokknum hollustu eigi þeir að komast skjótt í aðstöðubraskið við útdeilingu flokksins á almannaeignum. Það þarf lögfræðingastéttin að gera líka eigi hún að hafa von um skjótan frama og nokkra aura í budduna. Má nefna hér Lárus Blöndal, formann stjórnar Bankasýslunnar, sem opinberlega hefur játað formanni Sjálfstæðisflokksins ást og hollustu.
Vér innvígðir þegjum
Margt fleira gætu íslensk stjórnvöld lært af Altstadt. Hún telur að aukin einkavæðing og einkarekstur í Svíþjóð hafi ekki verið svar við óskum almennings heldur einhliða ákvörðun yfirvalds sem krefst hollustu undirmanna við að hrinda breytingunum í framkvæmd en einnig við að halda við kerfinu eftir að á því hafa verið gerðar breytingar: „Hollustan sem við eigum að sýna liggur lóðrétt; hollustan er við atvinnurekandann en ekki við starfsfélagana eða samfélagið. – Hollusta meðal æðstráðenda liggur hins vegar lárétt; þar sýna stjórnendurnir í úrvalshópnum hver öðrum tryggð og hollustu. Þar tryggja menn hver öðrum eftirsóttar stöður, jafnvel þótt þeir hafi framið afglöp og klúðrað málum. Þeir stjórnarmenn sem örlátir eru á kaupauka fyrir forstjórana fá það ríkulega endurgoldið.“
Kannast einhver við lýsinguna? Ógnvænlegast af öllu er að einkenni þessa gangverks sjást svo greinilega í Íslandsbanka- og Lindarhvolsmálinu. Íslenskur fjármála- og fjárfestingamarkaður er lítill og grunnur enn þann dag í dag, persónur og leikendur fáir og erlendir gestir á honum fáir enda ekki eftir miklu að slægjast í óstöðugu og spilltu fjármálaumhverfi landsins. Eigendur Íslands skipa auðsveipa og holla menn í stjórnir hver hjá öðrum. Þeir taka ákvarðanir um kaupauka og starfslokasamninga klíkubræðra og makka eins og fyrir þá er lagt af eigendum Íslands, eða Sjálfstæðisflokknum sem skipaður er eigendum Íslands.
Styrmir Gunnarsson heitinn ritstjóri var innvígður og innmúraður Sjálfstæðismaður. Hann sá þetta allt, einnig innan frá, og sagði í rannsóknarskýrslu Alþingis um bankahrunið – sem frægt er orðið: „Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“
Ógagnsæið í íslensku viðskipta- og stjórnmálalífi eykst, lýðræðinu hnignar og einmitt þar er gróðrarstía lögbrota, klíkuskapar og spillingar.
Kjósendur einir geta breytt þessu feigðarflani. Núverandi ríkisstjórn hefur hvorki áhuga á því né getuna.
Höfundur er f.v. blaðamaður og stjórnarformaður Transparency International á Íslandi
HVAR er nýja stjórnarskráin ?