Þingmenn Vinstri grænna bregðast við orðum Jóns Gunnarssonar, fyrrverandi dómsmálaráðherra, um ágreining á milli Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna, með mismunandi hætti. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra vill ekki bregðast sérstaklega við orðum hans og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varaformaður þingflokks Vinstri grænna, segist ekki hafa áhyggjur af orðum óbreytts þingmanns.
Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir samstarfsfólk sitt í hinum ríkisstjórnarflokkunum hins vegar „velta sér upp úr rasíska drullupollinum í von um að geta kroppað inn einhver prósent frá systurflokkum sínum í útlendingamálum, Miðflokki og Flokki fólksins“.
Í viðtali í Dagmálum Morgunblaðsins í dag fullyrðir Jón að samstarf ríkisstjórnarflokkanna geti ekki haldið áfram eins og þetta endaði í vor. Jón segir stefnu Sjálfstæðisflokksins ekki fara saman við stefnu Vinstri grænna, sem birtist meðal annars í því að þinglok voru, að hans sögn, vegna ágreinings í ríkisstjórnarflokkunum en ekki við stjórnarandstöðuna. „Mitt mat er það að í dag sé þetta farið að verða þjóðinni dýrkeypt, í formi þess að við erum ekki að ná árangri í málum sem skipta okkur gríðarlega miklu máli,“ segir Jón í Dagmálum.
Svandís um Jón: „Hann talar bara fyrir sig“
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra vill ekki tjá sig sérstaklega um orð fyrrverandi dómsmálaráðherra um erfiðleika í ríkisstjórnarsamstarfinu. „Hann talar bara fyrir sig og ég ætla ekki að bregðast sérstaklega við þessum orðum hans,“ segir Svandís í samtali við Heimildina.
Í viðtalinu gerir Jón upp ráðherratíð sína í löngu máli og ræðir ágreining sem hann segir ríkja milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins í ýmsum málaflokkum, svo sem um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglunnar og málefni flóttamanna. Að mati Jóns er það erfitt fyrir Vinstri græn að sitja í ríkisstjórn þegar augljóst er að huga þarf að öryggis- og varnarmálum, orkumálum og breytingum í málefnum útlendinga.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, varaformaður þingflokks Vinstri grænna, segir í samtali við Heimildina að ekki sé sérstök ástæða til að hafa áhyggjur af því hvað óbreyttur þingmaður segi, þó að hann hafi verið að koma úr ráðherrastól. „Ég get ekki endilega tjáð mig um það nákvæmlega hvað hann er að tala um annað en að hann heldur því fram að við séum að stoppa þarna mál og við auðvitað stoppum ekki mál nema að við teljum þau ekki nógu vel undirbúin. Kannski hefðum við bara þurft viku í viðbót á þinginu. Eða ekki,“ segir Bjarkey, sem telur Vinstri græn hafa unnið að heilindum að öllum málum á nýliðnum þingvetri. „Stundum tekst það, stundum ekki.“
Alltaf legið fyrir að nálgun flokkanna er ólík
Að mati Jóns er það erfitt fyrir Vinstri græn að sitja í ríkisstjórn þegar augljóst er að huga þarf að öryggis- og varnarmálum, orkumálum og breytingum í málefnum útlendinga. Ágreiningurinn einskorðist við Vinstri græn en ekki Framsóknarflokkinn. Aðspurð hvort málefnaáherslur Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna séu of ólíkar segir Bjarkey að það hafi alltaf legið fyrir að nálgun flokkanna í málefnum innflytjenda og fólks á flótta er ólík. „Það er ekkert nýtt undir sólinni þar. En okkur hefur tekist að landa ákveðnum hlutum í því og varðandi mörg önnur mál viljum við reyna að nálgast þau þannig að allir aðilar geti verið sáttir við það hvernig þau enda, það náðist ekki að klára ákveðin mál núna, ekki bara hjá honum, það var líka hjá öðrum ráðherrum.“

„Við höfum misst tökin á þessum málaflokki,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, við ráðherraskiptin í gær og telur hann þingið hafa brugðist í málefnum útlendinga. Því er Bjarkey ósammála. „Eins og minn formaður sagði í gær, þetta er rosalegt álag á kerfið, það fer ekki á milli mála, en við getum alveg tekið utan um það og eigum að gera það að mínu mati. Það liggur alveg fyrir og við vitum alveg að þetta kostar. Það hefur aldrei verið jafn margt fólk á flótta eins og akkúrat núna. Ég tel að við þurfum að horfa vel ofan í þennan málaflokk og taka utan um hann eins og við höfum verið að gera.“
„Hádramatískur tangó Jóns og Gunnu“
Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri grænna, bregst við orðum Jóns í færslu á Facebook þar sem hún segir átakanlegt að horfa á innanmein Sjálfstæðisflokksins. „Hádramatískur tangó Jóns og Gunnu hefur verið frekar taktlaus og feilsporin stigin á sárar tærnar aftur og aftur enda virðist hljómsveitarstjórinn Bjarni Ben ekki alveg ráða við svona flókið tónverk.“

Jódís heldur áfram: „Til að víkja athygli þjóðarinnar frá þessum darraðadansi og til að bregðast við fylgistapi, sameinast þau nú öll í að velta sér upp úr rasíska drullupollinum í von um að geta kroppað inn einhver prósent frá systurflokkum sínum í útlendingamálum, Miðflokki og Flokki fólksins.“
Varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins kann ekki við að vera kenndur við rasisma

Friðjón R. Friðjónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við Heimildina fyrr í dag að færsla Jódísar sé frekar vanstillt. „Ég kann ekki við að vera kenndur við rasisma og finnst það ógeðfellt. Ég tel mig hafa talað með þeim hætti, og sýnt það, að ég hef enga þolinmæði fyrir svoleiðis hugsunarhætti. Mér finnst þetta vera ómálefnalegt. En það geta allir gert mistök og ég er mjög umburðarlyndur maður. Þannig að ég ætla ekki að erfa þetta við hana, ekki að svo stöddu.“
En merkilegast við þetta allt saman, að mati Jódísar, er að allt sem miður hefur farið hjá Sjálfstæðisflokknum virðist vera Vinstri grænum að kenna að mati fyrrverandi dómsmálaráðherra. „Hann opnar ekki á sér þverrifuna nema koma því að hvernig Vinstri græn stoppa góðu málin hans. Þetta er sérlega áhugavert í því ljósi að ítrekað fæ ég að heyra hvernig VG lætur íhaldið teyma sig yfir öll mörk og við séum viljalaus verkfæri Sjálfstæðisflokksins,“ skrifar Jódís, sem sér sig knúna til að leiðrétta Jón um þinglega meðferð mála.
Segir hún til að mynda að Vinstri græn hafi ekki talað fyrir opnum landamærum heldur vilji flokkurinn skilvirkt kerfi sem tryggi öllum sem hingað leita réttláta málsmeðferð. Niðurstöðu málsmeðferðar beri svo að virða. Jódís segir þinglega meðferð útlendingafrumvarpsins hafa verið erfiða en hún er stolt af þeim „mikilvægu breytingum sem frumvarpið tók og tryggðu mannréttindi fólks á flótta“.
Athugasemdir