Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, villti um fyrir þingmönnum breska þingsins af ásettu ráði í umræðum um veisluhöld í Downingstræti á tímum heimsfaraldurs. Þetta er niðurstaða sérstakrar rannsóknarnefndar breska þingsins sem skilaði skýrslu sinni í morgun og er innihald hennar mun alvarlegra en ráð var gert fyrir. 40 vikur eru síðan Johnson var forsætisráðherra.
Rannsóknarnefndin var skipuð í apríl í fyrra. Hlutverk hennar var að rannsaka hvort Johnson hafi vísvitandi afvegaleitt þingmenn í umræðum um samkvæmi sem haldin voru á vegum forsætisráðuneytisins á tímum strangra sóttvarnaregla vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Niðurstaða nefndarinnar er að svo hafi verið og að Johnson hafi gert „ítrekaðar tilraunir“ til að afvegaleiða þingið og reynt að grafa undan lýðræðislegum aðferðum þingsins og nefndinni eftir að rannsókn hennar hófst.
Baðst afsökunar en sá ekki tilefni til afsagnar
Allt tengist þetta Partygate-hneykslinu svokallaða. Málið komst í hámæli í janúar í fyrra þegar Johnson viðurkenndi að hafa verið viðstaddur þrjú samkvæmi á vegum forsætisráðuneytisins, ýmist þegar útgöngubann eða strangar sóttvarnareglur voru í gildi vegna útbreiðslu COVID-19 voru í gildi. Hann baðst ítrekað afsökunar en taldi sig ekki þurfa að segja af sér embætti.
Johnson fékk skýrslu rannsóknarnefndarinnar afhenta á föstudaginn og sagði af sér þingmennsku í kjölfarið. Í skýrslunni er farið fram á 90 daga brottrekstur Johnson sem samkvæmt greiningu breska ríkisútvarpsins hefði nægt til að kjósa að nýju um þingsæti hans.
Sjálfur hefur Johnson farið ófögrum orðum um nefndina og niðurstöðu hennar. Segir hann að um sýndarréttarhöld hafi verið að ræða og segir hann það hafa verið ætlun nefndarinnar frá upphafi að bola honum út.
Nefndarmenn brugðust við orðum Johnson og segja að um sé að ræða árás á nefndina. „Þessi árás á nefnd sem sinnir lýðræðislegum skyldum er árás á lýðræðislegar stofnanir landsins.“
Rannsóknarnefnd, lögreglurannsókn og sérstakur saksóknari
Umfangsmikil rannsókn hefur farið fram á Partygate. Sérstakur saksóknari, Sue Gray, var skipuð í janúar í fyrra og var hún með 16 samkvæmi til rannsóknar. Hennar hlutverk fólst í að meta eðli og tilgang veisluhaldanna ásamt því að taka saman hverjir voru viðstaddir. Um innri rannsókn var að ræða frekar en sjálfstæða rannsókn og var hún fyrirskipuð af Johnson sjálfum. Krafist var hlutleysi af hálfu Gray og skilaði hún niðurstöðum sínum til forsætisráðherra í maí í fyrra. Í henni kom fram að ekki hefði átt að leyfa margar af þeim samkomum sem haldnar voru í Downingstræti 10 og á vegum breskra stjórnvalda á tímum strangra sóttvarnareglna og illa var komið fram við starfsfólk sem gerði athugasemdir við partýstandið. Stjórnmálaleiðtogar og háttsettir embættismenn verða að axla ábyrgð, var niðurstaða Gray.
Lögreglurannsókn fór fram samhliða rannsókn Gray og lauk henni síðasta vor. Tólf samkvæmi voru til rannsóknar og alls gaf lögregla út 126 sektir vegna brota á sóttvarnareglum. Sektirnar ná ti 83 manns og því eru dæmi um að einstaklingar hafi fengið fleiri en eina sekt. Johnson fékk þó aðeins eina sekt, fyrir að vera viðstaddur eigin afmælisveislu 19. júní 2020, í Downingstræti.
Sérstök umræða um skýrslu rannsóknarnefndarinnar fer fram á breska þinginu á mánudag.
Tímalína
Partygate
10. maí 2020:
Boris Johnson kynnir fyrstu skref afléttinga eftir útgöngubann sem hafði verið í gildi frá því í mars. Hann ráðlagði almenningi hins vegar að fara áfram eftir reglum um fjarlægðartakmarkanir og til að framfylgja þeim reglum var komið á sektum „fyrir þann smáa minnihluta sem brýtur þær“. Samkvæmt gildandi reglum mátti aðeins fara út fyrir hússins dyr af brýnni nauðsyn og aðeins mátti hitta eina manneskju utandyra.
15. maí 2020:
Mynd sem tekin var fyrr í mánuðinum sýnir forsætisráðherrann og starfsfólk hans gæða sér á víni og ostum í garði Downingstrætis. Aðspurður sagði Johnson að þarna hafi verið á ferðinni fólk á vinnutíma að tala um vinnutengd mál.
20. maí 2020:
Um 100 manns var boðið í garðveislu í Downingstrætií boði forsætisráðherra og einkaritara hans, Martin Reynolds. Um 30 manns mættu, þar á meðal Boris Johnson, sem hefur viðurkennt að hafa verið viðstaddur í um 25 mínútur og að hann hafi talið að „um vinnutengdan viðburð“ hafi verið að ræða.
5. nóvember 2020:
COVID-19 smitum fer fjölgandi og Johnson biður fólk „enn á ný að halda sig heima“. Útgöngubann tekur aftur gildi.
13. nóvember 2020:
BBC hefur eftir heimildamönnum að starfsfólk Downingstrætis hafi komið saman ásamt Carrie Johnson í íbúð hjónanna. Talsmaður Johnson þvertekur fyrir að samkoman hafi átt sér stað.
27. nóvember 2020:
Kveðjuhóf í tilefni af starfslokum Cleo Watson, starfsmanni Downingstrætis. Áfengi var haft um hönd og Johnson hélt ræðu að sögn heimildamanna.
10. desember 2020:
Menntamálaráðuneytið viðurkenndi að hafa haldið gleðskap til að þakka starfsfólki fyrir verðugt framlag í heimsfaraldrinum. Drykkir og léttar veitingar voru í boði en engir gestir aðrir en starfsfólk ráðuneytisins voru leyfðir. Útgöngubanni var aflétt 2. desember en fleiri en tveir máttu ekki koma saman.
14. desember 2020:
Íhaldsflokkurinn viðurkennir að hafa haldið „óheimila samkomu“ á skrifstofu flokksins í Westminster.
15. desember 2020:
Sunday Mirror birtir mynd frá „jólaspurningakeppni“ sem haldin var fyrir starfsfólk Downingstrætis. Þegar Johnson var spurður út í viðburðinn um ári seinna sagðist hann ekki hafa brotið neinar reglur en að atvikið væri til skoðunar.
17. desember 2020:
Annað kveðjuhóf, nú til að kveðja yfirmann Covid-aðgerða.
16. apríl 2021:
Enn og aftur er um kveðjuhóf starfsmanna Downingstrætis að ræða. Í þetta sinn tvö talsins og er umrætt kvöld kvöldið fyrir útför Filippusar drottningarmanns. Samkvæmt reglunum var óheimilt að umgangast annað fólk innandyra að undanskildum þeim sem búa á sama heimili. Leyfilegt var að koma saman utandyra í sex manna hópum.
20. desember 2021:
Johnson þvertekur fyrir veisluhöld í Downingstræti 15. maí 2020, þegar útgöngubann var í gildi. „Ég á heima hér og ég starfa hér. Þetta voru fundir á vinnutíma sem fjölluðu um vinnuna.“
12. janúar 2022:
Boris Johnson biðst afsökunar á að hafa verið viðstaddur um þrjátíu manna veislu í Downingstræti 10, 20 maí 2020, þegar útgöngubann vegna útbreiðslu COVID-19 var í gildi. Veisluhöldin fóru fram í garði Downingstræti og var hundrað boðsgestum meðal annars bent á að „hafa eigið áfengi meðferðis til að njóta góða veðursins eins best væri á kosið“. Um 30 manns þekktust boðið, þar á meðal Johnson sjálfur og Carrie Johnson, eiginkona hans.
12. apríl 2022:
Breska lögreglan sektaði Boris Johnson, þáverandi forsætisráðherra og Rishi Sunak, þáverandi fjármálaráðherra, vegna samkvæma sem bresk yfirvöld stóðu fyrir á meðan strangar sóttvarnareglur voru í gildi vegna heimsfaraldursins. Ekki var gefið út hversu háar sektirnar voru.
25. maí 2022:
Lokaskýrsla Sue Gray, sérstaks saksóknara, var birt, fjórum mánuðum eftir að forsætisráðherra baðst fyrst afsökunar. Niðurstöður Gray voru m.a. að ekki hefði átt að leyfa margar af þeim samkomum sem haldnar voru í Downingstræti 10 og á vegum breskra stjórnvalda á tímum strangra sóttvarnareglna og illa var komið fram við starfsfólk sem gerði athugasemdir við partýstandið. Stjórnmálaleiðtogar og háttsettir embættismenn verða að axla ábyrgð.
7. júlí 2022:
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði af sér sem leiðtogi Íhaldsflokksins en sat áfram sem forsætisráðherra.
5. september 2022:
Liz Truss sigraði í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins og tók við nokkrum dögum seinna sem forsætisráðherra. Hún sat hins vegar stutt á stóli forsætisráðherra og sagði af sér embætti 20. október.
15. júní 2023:
Sérstök rannsóknarnefnd breska þingsins skilar skýrslu og kemst að þeirri niðurstöðu að Boris Johnson hafi vísvitandi blekkt breska þingið þegar hann sótti samkvæmi á vegum forsætisráðuneytisins á meðan strangar sóttvarnareglur vegna COVID-19 voru í gildi.
Athugasemdir