Við fæðumst ekki sköllótt. Reyndar fæðast mjög margir sköllóttir; nýburar eru svo sköllóttir og krumpaðir að þeir líta flestir út eins og Winston Churchill um miðja heimsstyrjöld. Þannig að ég tek alla fyrstu setninguna til baka. Hræðileg byrjun á pistli. Það sem ég vildi segja var að ég fæddist ekki sköllóttur. Þvert á móti fæddist ég með svo þykkt og svart hár að ég var víst sjálfnefndur Hrafn strax á fæðingarheimilinu. Þetta var svo þykkt og liðað hár að hver einasta hárgreiðslumanneskja hafði orð á því. En mér fannst þetta alltaf vesen; það var erfitt að greiða það og mér var alltaf heitt. Þessi þykki, svarti makki fylgdi mér í gegnum æskuna og fram á unglingsárin þar sem ég átti mörg hræðileg hártímabil: gelaðir broddar, vatnsgreiðsla, meira að segja ein misráðin tilraun til einhvers konar hanakambs. Þegar komið var fram á unglingsárin áttaði ég mig á því að rof var komið á tengsl mín við eigið hár. Mér fannst það vera óboðinn laumufarþegi; sníkjufiskur sem hafði sogið sig fastan við höfuðið á mér sem krafðist stöðugrar athygli og viðhalds án þess að gefa nokkuð af sér.
Þannig að átján ára gamall rakaði ég það allt af í fyrsta skipti.
Þetta var þvílíkt frelsi; veraldlegu og tilfinningalegu fargi af mér létt. Ég hélt þessu til streitu fram á þrítugsaldurinn. Þá fóru gamlar hugsanir að sækja á mig; hvað ef ég er tilbúinn til að vera með hár núna? Hármenning og hártíska hafði þróast og ég sjálfur hafði kannski nægan þroska núna til að takast á við þetta þykka, óstýriláta hár. Þannig að ég ákveð að leyfa hárinu að vaxa á ný. Nema það hafði eitthvað skelfilegt átt sér stað í millitíðinni; það kom ekki allt til baka. Þar sem áður hafði verið gróið landslag frá fjöru til fjalla var nú aðeins örfoka land. Eitt og eitt strá á stangli og svæðið milli þeirra eins og bílastæði hjá meðalstórri verslunarmiðstöð. Þvílík vonbrigði. Þetta var eins og að heimsækja æskuheimili sitt til þess eins að komast að því að það hafði verið rifið og í staðinn risin lúxusblokk fyrir efnaða eldri borgara. Eitt sinn merkt samfélag hárs nú rústir einar.
Ég leyfði mér að syrgja um stund áður en ég fann aftur þakklætið fyrir að vera blessaður með gott höfuðlag og margra ára reynslu af valkvæðum skalla. Ég fattaði líka hversu ótrúlegar upphæðir ég hef sparað á því að sinna eigin hárumhirðu. Hundruð þúsundir í sjampó, milljónir í klippingar.
Þetta fékk mig til að hugsa um aðra hluti sem hægt er að spara peninga á nú þegar verðbólgan er að ná hæstu hæðum og engin starftæk hagstjórn til að stýra okkur frá glötun. Þannig að hér eru topp 10-atriðin til þess að lifa verðbólguna af í sumar.
10. Borða úr frystinum
Þá meina ég bókstaflega allt. þriggja ára gamlir kjúklingaleggir sem voru hálfvafðir inn í álpappír? Borða þá. Frosnu grænu baunirnar sem þið hélduð að barnið ykkar myndi borða? Borða þær allar. Frekar misheppnaði jólaísinn frá tengdapabba þínum sem enginn vildi klára 2015? Mmm, klára hann. Líka stóra taílenska chili-pokann, vonda lasagnað, hamsturinn sem þú hafðir ekki taugar í að segja barninu þínu að hefði étið sig í gegnum svampdýnu og dáið, og sígarettupakkann sem þú faldir í snarhasti fyrir maka þínum. Borða þetta allt. Að lokum að skrapa allan klakann sem er búinn að safnast saman í öll þessi ár sem þið hafið ekki nennt að affrysta og er búinn að safna í sig sósuslettum og kjötsafa. Beint upp í munn.
9. Fasta
Föstur eru í svakalegri tísku í dag. Fólk fastar til þess að minnka bólgur í líkamanum, hraða efnaskiptum og gefa líkamanum frí. Fólk fastar allt frá nokkrum klukkustundum upp í nokkra daga. Þeir allra hörðustu fasta jafnvel í heilan mánuð og svo eru einhverjir gúrúar þarna úti sem halda því fram að þeir þurfi bara alls ekkert að borða, bara fá alla sína næringu frá því að stara beint í sólina í nokkrar klukkustundir á dag. Ég er enginn vísindamaður þannig að ekki ætla ég að fara að draga það í efa. Einu vankantarnir eru næringarskortur, félagsleg einangrun, að mynda gríðarlega óheilbrigt samband við mat og mögulegur skyrbjúgur. En það sagði enginn að þetta myndi verða auðvelt.
8. Hætta að halda upp á jólin
Jólin eru mikill streitutími fyrir marga. Gjafir, ný föt, dýr matur. Blessunarlega eru mörg trúarbrögð og lífsskoðanir sem einfaldlega hafna kristnum siðum eins og jólum og er því um að gera að taka þau upp, þótt það sé ekki nema rétt yfir hátíðarnar. Erfiðast er að sannfæra börnin, en blessunarlega eru börn bæði vitlaus og ginnkeypt þannig að það er einfaldlega hægt að segja þeim að jólin séu bara alveg að koma. Þið getið svo bara rúllað þessu áfram mánuð eftir mánuð þangað til þau að lokum gleyma þessu einfaldlega.
7. Búa heima hjá foreldrum þínum – að eilífu
Öll vitum við hversu erfitt getur verið að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Þess vegna þurfa margir að bregða á það ráð að búa lengur í foreldrahúsum. En miðað við þróun á fasteignaverði og algjörlega ónýtum leigumarkaði er líklegt að fólk komist bókstaflega aldrei úr foreldrahúsum. Lykillinn er að segja gamla fólkinu ekki frá því, tala bara mikið um að þetta séu bara nokkrir mánuðir í viðbót og að þið séuð á fullu að spara og vonandi hætta þau bara að pæla í því eftir nokkur ár. Best er að þau fari aðeins að kalka og þá getið þið einfaldlega sagt þeim að þið séuð nú þegar flutt út og séuð aðeins í heimsókn. Það versta sem gerist er að þau fái einfaldlega nóg og kasti ykkur út; þá er eina svarið að búa inni í veggjunum hjá þeim og koma aðeins út á næturnar og borða afganga úr ísskápnum.
6. Þykjast vera eldri borgari
Eldri borgarar hafa það almennt ekki sérstaklega gott í samfélaginu; gleymdir, yfirgefnir, oft fastir í fátæktargildru lífeyrisins. En í einstaka tilfellum getur borgað sig að vera eldri borgari. Þeir fá vænan afslátt í strætó, ókeypis í sund og á söfn og oft afslætti hjá ýmsum fyrirtækjum. Eina sem þarf að gera er að eignast mokkasíur, buxur sem að passa illa, kannski grátt gervi-yfirvaraskegg og þið eruð tilbúin. Til að fullkomna huliðshjálminn er nóg að muldra nokkrar setningar um Gúttóslaginn, samgöngumál í Reykjavík og nokkrar misráðnar skoðanir á kynrænu sjálfræði.
5. Syrgja
Þrátt fyrir stórtækar framfarir læknavísindanna halda Íslendingar einhvern veginn áfram að deyja. Þessi óumflýjanleiki tilveru allra er auðvitað sorglegur, en í honum felast samt ýmis tækifæri. Allt þetta fólk þarf að jarðsetja og að því loknu er vanalega haldin erfidrykkja. Gott ráð er að fylgjast með dánarfregnum dagblaðanna og mæta svo fyrir utan kirkjuna rétt þegar kistan er borin út. Smekklegast er að votta nærstöddum samúð ykkar og ef þið vitið ekki hverjir nánustu aðstandendur eru dugir vanalega að segja „ég samhryggist“ út í loftið með nokkurra mínútna millibili. Svo finnið þið bíl til þess að elta og áður en þið vitið af eruð þið mætt í erfið; flatkökur, brauðterta, kleinur og allt það kaffi sem þið getið í ykkur látið. Bara passa að vera dálítið raunamædd á svipinn. Ef þið tímasetjið ykkur vel getið þið vel náð 3 heilum máltíðum yfir daginn.
4. Eignast hagkvæmari gæludýr
Gæludýr eru ómissandi fjölskyldumeðlimir fyrir marga. Þau hjálpa fólki við að takast á við streitu og kvíða, hjálpa fólki að hreyfa sig meira og eru frábær félagsskapur. En gæludýr eru kostnaðarsöm. Þau borða sérstaka fæðu og þurfa oft bólusetningar og geldingar. Við þessu er einföld lausn: skipta út öllum gæludýrunum sínum fyrir kind! Kindur eru óbrjótandi hlekkur í íslenskri þjóðarvitund; okkar hindúísku kýr ef hindúarnir slátruðu nokkur hundruð þúsund af þeim á hverju ári. Kindur eru nærri alveg sjálfbærar; maður hendir þeim bara út í garð og þar standa þær dauðar í augunum og bíta grasið þitt og framleiða jafnóðum áburð á túnið að ógleymdri ullinni. Svo má vel drekka mjólkina úr þeim. Sögulegar heimildir segja okkur til dæmis að Stekkjastaur hafi gjörsamlega dýrkað að sjúga ærnar, og ekki hefur hann rangt fyrir sér. Eina sem þarf að hafa í huga er að kindur elska að hlaupa út á vegi og standa grafkyrrar þangað til bílar eru komnar alveg að þeim og flauta ítrekað þangað til þær taka skyndilega kipp og spretta eitthvað og festast í girðingu. Að lokum þarf bara að passa sig að freistast ekki til að slátra henni þegar hungrið kallar, því þá þarf að byrja þetta allt upp á nýtt.
3. Stofna kjúklingabú
Það hefur sýnt sig að kjúklingaverksmiðjubúskapur er einn verndaðasti iðnaður landsins. Kjúklingabændur eru algjörlega brynjaðir fyrir erlendum innflutningi, jafnvel þótt hann sé í formi smávægilegrar aðstoðar við stríðshrjáð land. Það getur verið krefjandi og kostnaðarsamt að hefja nýjan rekstur en með smá útsjónarsemi er hægt að verða sér úti um ókeypis kjúklinga á hinum ýmsu Facebook-síðum. Mjög afhjúpandi fréttaskýringarþáttur um kjúklingabú kenndi mér svo að það sé hægt að troða tugum, jafnvel hundruðum kjúklinga á örfáa fermetra og þau þurfa lítið annað viðhald annað en smá fóður. Eina sem þarf svo til að láta þetta ganga er að algjörlega drepa allar tilfinningar og persónulegt siðmat og þá ættu peningarnir að byrja að rúlla inn.
2. Hætta að taka smálán
Ein skynsamlegasta leiðin til þess að spara peninga er að hætta að taka smálán, eða bara venjuleg lán, og einbeita sér frekar að því að taka alveg fáránlega stór lán. Við erum að tala um tugi, jafnvel hundruð milljóna króna lán. Sagan segir okkur nefnilega að því stærra lán sem þú tekur eru hverfandi líkur á því að þú þurfir nokkurn tímann að greiða það til baka. Eyþór Arnalds tók 257 milljóna króna lán hjá Samherja til að kaupa í Morgunblaðinu og það var bara afskrifað. Halldór Benjamín fékk 25 milljóna króna lán hjá þáverandi vinnuveitanda til að kaupa hlut í dótturfélagi þess. Búmm, afskrifað. Hætta að hugsa smátt og fara að hugsa stórt.
1. Fæðast ríkur
Langbesta leiðin til að spara peninga er að eiga efnaða foreldra. Ekkert ráð er betra en að erfa peninga sem þú hafðir ekkert fyrir því að eignast. Því fylgir líka gríðarlegt félagslegt auðmagn, góð menntun, öryggi og greiðara aðgengi að öllum stofnunum samfélagsins. Svo þegar maður á pening gerir hann fátt annað en að breytast í meiri peninga. Algjör fullnaðarsigur á verðbólgunni.
Athugasemdir