Catrin Nye hjá breska ríkisútvarpinu flettir í þáttunum hulunni af því hvernig breskt markþjálfunarfyrirtæki notaði hótanir og andlegt ofbeldi til þess að taka yfir líf fólks, pumpa út úr þeim peninga og tvístra fjölskyldum. Starfshættir fyrirtækisins minna um margt á sértrúarsöfnuði sem einangra meðlimi sína til þess að öðlast völd yfir fólki.
Sagan er nánast ótrúleg og varpar mjög skýru ljósi á það hve auðvelt það reyndist stjórnendum fyrirtækisins að lokka til sín fólk með loforðum um aukin lífsgæði. Hlustandinn áttar sig á því að þarna er á ferðinni nútímalegt „költ“ og finnur til verulegrar samkenndar með fólkinu sem lenti í klóm þess. Það var nefnilega bara venjulegt fólk eins og ég og þú – fólk sem vildi ná markmiðum sínum, komast yfir áföll eða verða hamingjusamara.
Það sem gerir þættina sérstaklega áhrifaríka er að stjórnendur markþjálfunarfyrirtækisins tóku öll samskipti við „kúnna“ sína upp á segulband. Þessi samskipti eru spiluð í þáttunum og veita einstaka innsýn í það hvernig þeir brutu fólkið niður og sannfærðu það síendurtekið um að láta af hendi fé og völd yfir eigin lífi.
Á sama tíma og þættirnir hvetja hlustandann til þess að vera var um sig fjalla þeir um málið með ábyrgum hætti og gæta þess að skýra hlustandanum frá því að markþjálfar starfi almennt ekki með þessum ósiðlega hætti.
Þó að umfjöllunarefni þáttanna sé nýtt þá er boðskapurinn gömul tugga: Ef eitthvað virðist of gott til að vera satt, þá er það líklega raunin.
Athugasemdir