Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sagði í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag að mikið verk væri eftir að vinna „þegar kemur að því að nýta verðmætin sem eru í draslinu okkar [...]“
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokk fólksins, gagnrýndi útflutning Íslendinga á rusli og fyrirhugaðan innflutning á gróðurhúsalofttegundum. Innfluttri mengun yrði breytt í grjót með tækni íslenska fyrirtækisins Carbfix. „Hvert erum við að stefna í loftslags og umhverfismálum?“ spurði Guðmundur Ingi ráðherrann.
Í síðustu viku afhjúpaði Heimildin sannleikann á bak við endurvinnslu mjólkurferna en í ljós kom að fernurnar eru ekki endurunnar, heldur fluttar erlendis þar sem þær eru brenndar og nýttar í orkuframleiðslu. Viðbrögð innan samfélagsins við fréttunum voru hörð enda hafa Íslendingar lagt metnað og tíma í að hreinsa og flokka mjólkurfernur í umhverfisskyni.
Verið að þróa tækni en drepa hvali
Úrvinnslusjóður, sem sér um að skapa hagræn skilyrði fyrir endurnotkun og nýtingu úrgangs, heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Eftir fund ráðherra, Úrvinnslusjóðar og Sorpu fyrir nokkrum dögum var ákveðið að óháður aðili sinni framvegis eftirlitshlutverki um að raunverulega sé verið að endurvinna fernurnar. Einnig tilkynnti Sorpa að nú ætti að senda fernurnar til Svíþjóðar þar sem þær verða endurunnar hjá fyrirtækinu Fiskeby Board.
Guðlaugur Þór sagði hóp undir hans stjórn vera að skoða möguleg viðskipti við önnur lönd í Evrópu um innflutning á gróðurhúsalofttegundum en að markmiðið með þeim væri tekjuöflun. Þá gagnrýndi Guðmundur Ingi hugsanleg viðskipti enn frekar. „Ég segi ég bara: Guð hjálpi okkur ef þetta á að vera framtíðin.“
Umhverfis-, orku og loftslagsráðherra ítrekaði að náttúran fangaði gróðurhúsalofttegundir og nefndi þar föngun trjálendis og mögulega tækni þar sem þörungar gleypa gróðurhúsalofttegundir. Guðlaugur Þór hefur ekki fordæmt hvalveiðar við Íslandsstrendur en hvalir gleypa mikið magn af gróðurhúsalofttegundum úr umhverfinu.
„Ég vona að ég fái fleiri spurningar,“ sagði Guðlaugur Þór er hann lauk svörum sínum. Ráðherra fékk engar frekari spurningar frá þingmönnum.
Athugasemdir