Þessi grein birtist fyrir meira en 2 árum.

Bankarnir þurfi að fara að huga að aðgerðum fyrir lántakendur

Fjár­mála­stöð­ug­leika­nefnd seg­ir að huga þurfi tím­an­lega að þyngri greiðslu­byrði lán­tak­enda til þess að fyr­ir­byggja greiðslu­erf­ið­leika. Lík­ur á því að verð­leið­rétt­ing muni eiga sér stað, þar sem íbúða­verð leiti nið­ur á við í átt að und­ir­liggj­andi þátt­um, hafa auk­ist.

Bankarnir þurfi að fara að huga að aðgerðum fyrir lántakendur
Fjármálastöðugleikanefnd Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er formaður nefndarinnar. Mynd: Seðlabanki Íslands

Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands brýnir fyrir lánveitendum að huga tímanlega að þyngri greiðslubyrði lántakenda til þess að fyrirbyggja greiðsluerfiðleika þeirra. Viðbúið sé að þrengri fjármálaskilyrði birtist fyrr eða síðar í auknum vanskilum en að rétt sé að hafa í huga að vanskil geti komið fram með nokkurri tímatöf. „Þar sem þörf krefur ber að skoða að lengja lánstíma, taka upp jafngreiðsluskilmála, setja þak á greidda nafnvexti og líta til ólíkra lánaforma sem bjóða upp á mismunandi greiðslubyrði. Rúm eiginfjárstaða margra lántaka ætti að gefa töluvert svigrúm til að tryggja að greiðslubyrði haldist í takti við viðmið lánþegaskilyrða sem nefndin hefur sett.“ 

Þetta er meðal þess sem fram kemur í yfirlýsingu nefndarinnar, sem leidd er af Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra, sem birt var í morgun og minnisblaði hennar sem birt var samhliða.

Nefndin telur að íslenska fjármálakerfið standi traustum fótum og segir að eiginfjár- og lausafjárstaða kerfislega mikilvægu bankanna þriggja, Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka, sé sterk. Það sjáist meðal annars á því að vanskil séu enn sem komið er lítil, en vanskilahlutfall einstaklingslána var 0,75 prósent í lok mars og hafði þá hækkað lítillega frá áramótum. Hlutfall útlána til heimila sem eru í frystingu hefur líka hækkað og nam 1,1 prósenti í lok mars.

Þá sé rekstrarafkoma bankanna þriggja sé góð, en þeir högnuðust samtals um 20,3 milljarða króna á fyrstu þremur mánuðum yfirstandandi árs. Allir þrír juku hagnað sinn frá sama tímabili 2022, enda jukust vaxtatekjur þeirra mikið milli ára og eru langstærsti tekjupósturinn í rekstri þeirra. 

Föstu lánin fara að losna

Verðbólga, sem mælist nú 9,5 prósent, og þrettán stýrivaxtahækkanir í röð, sem hafa skilað þeim vöxtum í 8,75 prósent, hafi þó leitt til þyngri greiðslubyrði þeirra sem tekið hafa óverðtryggð íbúðalán á breytilegum vöxtum, en þar er um að ræða fjórðung allra íbúðalána.. Margir lántakendur sem festu óverðtryggða vexti muni auk þess losna úr þeirri festingu á næstunni sem mun hækka greiðslubyrði þeirra verulega. Við því þurfi bankar og aðrir lánveitendur að bregðast tímanlega. 

Samkvæmt tölum sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur tekið saman þurfti sá sem var með óverðtryggt lán upp á 45 milljónir króna á breytilegum vöxtum að borga 191.700 krónur af slíku láni í upphafi árs 2022. Þegar allir bankarnir verða búnir að hækka vexti sína eftir síðustu stýrivaxtahækkun – Landsbankinn er einn búinn að gera það enn sem komið er – verða þeir allir komnir yfir tíu prósent. Útreikningar HMS sýna að greiðslubyrðin af slíku láni verði þá komin í 366.795 krónur á mánuði, og hafi þá aukist um 175.275 krónur á einu og hálfu ári. 

Alls eru lán upp á næstum 600 milljarða króna á föstum óverðtryggðum vöxtum sem losna á næstu þremur árum. Binditími lána upp á 74 milljarða króna renna út á þessu ári, en um er að ræða lán 4.451 heimila.  

Líkur á verðleiðréttingu aukast

Í minnisblaði fjármálastöðugleikanefndar er einnig fjallað um áhrif þeirra aðgerða sem Seðlabankinn hefur gripið til á fasteignamarkaðinn, en auk mikilla vaxtahækkana hafa lánþegaskilyrði verið þrengd verulega með hámarki á veðsetningar- og greiðslubyrðarhlutfalli. Þar kemur fram að verulega hafi hægt á hækkun íbúðaverðs á síðustu mánuðum, íbúðum sem eru til sölu hefur fjölgað og meðalsölutími lengst. Þá hefur velta á íbúðamarkaði dregist nokkuð saman og var rúmlega fjórðungi minni með fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu að raunvirði á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2023 en á sama tímabili í fyrra. Utan höfuðborgarsvæðisins var samdrátturinn þó heldur minni. 

Nefndin bendir á að í hlutfalli við ákvarðandi þætti sé íbúðaverð þó enn hátt. Það bendi til talsverðs ójafnvægis með tilheyrandi kerfisáhættu. Líkur á verðleiðréttingu, þar sem íbúðaverð leiti í átt að þeim þáttum sem vanalega ráða verðmyndun á markaðnum, hafi aukist með hækkandi fjármagnskostnaði. Það þýðir á mannamáli að íbúðaverð gæti lækkað nokkuð skarpt á Íslandi í nánustu framtíð, líkt og það hefur gert víða í löndum í kringum okkur. 

Kjósa
5
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • ADA
    Anna Dóra Antonsdóttir skrifaði
    Komnar tillögur að nafni á núverandi ríkisstjórn: Verðbólgustjórnin? Hávaxtastjórnin? eða?
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Maður getur ekki tekið neinu sem sjálfsögðum hlut
5
Viðtal

Mað­ur get­ur ekki tek­ið neinu sem sjálf­sögð­um hlut

Linda Þor­valds­dótt­ir er húsa­mál­ari sem mál­ar mál­verk og steypu­lista­verk í líki dauð­ans hafa vak­ið at­hygli á lóð­inni henn­ar. Und­ir niðri kraum­ar þung­lyndi sem hef­ur fylgt henni alla tíð. Sorg­ina þekk­ir hún, eft­ir að hafa misst syst­ur sína en í fyrra lést barns­fað­ir henn­ar þeg­ar hann féll of­an í sprungu í Grinda­vík. Eft­ir kuln­un hóf hún störf hjá Kirkju­görð­um Reykja­vík­ur.

Mest lesið í mánuðinum

„Ég var lifandi dauð“
3
Viðtal

„Ég var lif­andi dauð“

Lína Birgitta Sig­urð­ar­dótt­ir hlú­ir vel að heils­unni. Hún er 34 ára í dag og seg­ist ætla að vera í sínu besta formi fer­tug, and­lega og lík­am­lega. Á sinni ævi hef­ur hún þurft að tak­ast á við marg­vís­leg áföll, en fað­ir henn­ar sat í fang­elsi og hún glímdi með­al ann­ars við ofsa­hræðslu, þrá­hyggju og bú­lemíu. Fyrsta fyr­ir­tæk­ið fór í gjald­þrot en nú horf­ir hún björt­um aug­um fram á veg­inn og stefn­ir á er­lend­an mark­að.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár