Líftryggingafélagið NOVIS, sem hefur selt þúsundum íslenskra neytendum tryggingar í gegnum dreifingaraðila hérlendis, hefur verið svipt starfsleyfi sínu af seðlabanka Slóvakíu. Ákvörðun hans um að afturkalla leyfið gildir frá deginum í gær og frá þeim tíma er NOVIS óheimilt að stunda vátryggingarstarfsemi að undanskilinni þeirri starfsemi sem er nauðsynleg til að framfylgja kröfum félagsins og gera upp skuldbindingar þess. Í því felst að NOVIS má ekki gera nýja samninga.
Frá þessu er greint á vef Seðlabanka Íslands í dag. NOVIS, sem hóf starfsemi árið 2014, hefur selt vátryggingaafurðir í gegnum útibú í Austurríki, Tékklandi og Þýskalandi en í gegnum dreifingaraðila á Íslandi, í Finnlandi, Litháen, Póllandi, Svíþjóð, Ungverjalandi og á Ítalíu.
Í gær, sama dag og slóvakíski seðlabankinn svipti NOVIS starfsleyfinu, birti Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands niðurstöðu athugunar sinnar á breytingum félagsins á vátryggingaskilmálum. Sú athugun hófst í október í fyrra vegna skilmálabreytinga á tveimur vátryggingatengdum fjárfestingaafurðum NOVIS, Wealth Insuring og Life Savings Plan. Skilmálabreytingarnar snéru að því að fella brott allar tilvísanir til fjárfestingaeininga og fastrar tengingar þeirra við eina evru. Í niðurstöðuskjalinu segir: „Það þýðir að eftir skilmálabreytingarnar voru Wealth Insuring og Life Savings Plan afurðirnar ekki skilgreindar sem einingatengdar afurðir út frá ákvæðum skilmála þeirra. Hins vegar var um að ræða skilmálabreytingar sem snéru að því að draga úr skyldu NOVIS til að fjárfesta innstæðum tryggingareikninga viðskiptavina sinna (greiddum iðgjöldum) að fullu. Þetta þýðir að eftir skilmálabreytingarnar var NOVIS ekki lengur skylt að fjárfesta öllum iðgjöldum sem viðskiptavinur hefur greitt félaginu, viðkomandi viðskiptavini til hagsbóta.“
Misvísandi og blekkjandi upplýsingar
Fjármálaeftirlitið komst að þeirri niðurstöðu, út frá fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum, að NOVIS hefði „veitt vátryggingartökum á Íslandi misvísandi og blekkjandi upplýsingar um skilmálabreytingarnar þannig að þeim hafi verið nánast ómögulegt að átta sig á þýðingu breytinganna og taka upplýsta ákvörðun um hvort þær samræmdust hagsmunum þeirra. Þá breytti félagið skilmálunum á grundvelli þegjandi samþykkis, þ.e. hreyfðu vátryggingartakar ekki við andmælum öðluðust skilmálabreytingarnar gildi.“
Upplýsingagjöf félagsins um ástæðu, tilgang og mögulegar afleiðingar skilmálabreytinganna fyrir þegar gerða vátryggingarsamninga við íslenska vátryggingartaka hafi þannig falið í sér gróft brot á ákvæðum laga og reglna um eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti vátryggingafélaga. Eftirlitið taldi brot NOVIS gróf, meðal annars með tilliti til yfirburðastöðu félagsins gagnvart viðskiptavinum sínum.
Fjármálaeftirlitið gerði því kröfu um að NOVIS myndi afturkalla allar skilmálabreytingarnar, að vátryggingartökum yrði greint frá því skriflega, að félagið myndi upplýsa dreifingaraðila sína á Íslandi um ákvörðun eftirlitsins í málinu og að NOVIS myndi senda því staðfestingu á framkvæmd allra úrbótakrafna.
NOVIS fékk frest til 8. júní að ljúka við úrbæturnar. Tveimur dögum áður en sá dagur rann upp var NOVIS svipt starfsleyfi.
Tryggingar frá NOVIS hafa verið seldar íslenskum neytendum í gegnum dreifingaraðila hérlendis, en stærstur þeirra hefur verið félagið Tryggingar og ráðgjöf ehf. Seðlabankinn hefur ítrekað birt upplýsingar um að NOVIS hafi ekki hagað starfsemi sinni í samræmi við lög og vitnað þar til úrskurða sem Seðlabanki Slóvakíu hefur fellt. Það gerðist til að mynda í janúar í fyrra.
Þá hafði NOVIS ekki stundað starfsemi sína með varfærnissjónarmið að leiðarljósi auk þess sem Seðlabanki Slóvakíu taldi félagið ekki hafa haft nægilegt gjaldþol til að mæta þeim kröfum sem tryggingafélög á Evrópska efnahagssvæðinu þurfa að framfylgja.
Í samtali við Kjarnann á þeim tíma sagði Hákon Hákonarson, framkvæmdastjóri Tryggingar og ráðgjafar, að félagið hefði selt tryggingar frá NOVIS fyrir um tíu þúsund manns. Samkvæmt ársreikningaskrá keypti félagið þjónustu til endursölu fyrir um 404 milljónir króna árið 2020 og 483 milljónir króna árið 2021.
Athugasemdir