Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, ræddi hvalveiðar út frá umhverfissjónarmiðum í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
„Það liggur fyrir að hvalir eru mikilvægur, jafnvel ómissandi, hluti af heilbrigðu vistkerfi sjávar. Og þvert á það sem sumir hafa haldið fram þá styrkir tilvist þeirra til að mynda fiskistofna,“ sagði Hanna Katrín sem beindi fyrirspurn sinni til Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
„Ég spyr hæstvirtan umhverfisráðherra í ljósi þeirra jákvæðu áhrifa sem hvalir hafa á vistkerfi sjávar og vistkerfi almennt, hver er afstaða ráðherra til hvalveiða Íslendinga?“
Hvalur hf. hefur leyfi til að veiða langreyðar við Íslandsstrendur út þetta sumar en svo þarf matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, að ákveða hvort félagið fái áframhaldandi heimild til veiðanna næstu fjögur árin eða ekki. Hvalveiðarnar eru umdeildar og hafa verið fyrirferðamiklar í umræðunni eftir að Matvælastofnun birti upplýsingar um langvinnt dauðastríð og þjáningar langreyða sem Hvalur hf. hefur skotið.
Um helmingur landsmanna andvígur hvalveiðum
Samkvæmt nýrri könnun Maskínu er um helmingur landsmanna andvígur hvalveiðum. 51 prósent svarenda eru andvíg hvalveiðum, samanborið við 42 prósent árið 2019. Andstaðan er 57 prósent á höfuðborgarsvæðinu en 41 prósent á landsbyggðinni. 24 prósent höfuðborgarbúa eru hlynntir hvalveiðum og 40 prósent íbúa á landsbyggðinni.
Höfuðborgarbúum sem eru andvígir hvalveiðum hefur fjölgað um sjö prósent frá síðustu könnun en fjölgunin er meiri á landsbyggðinni. 27 prósent íbúa á landsbyggðinni voru andvígir hvalveiðum fyrir fjórum árum en hefur nú fjölgað um 13 prósent.
Karlar eru hlynntari hvalveiðum en konur samkvæmt könnun Maskínu. 41,4 prósent karla eru hlynntir veiðunum en aðeins 15,4 prósent kvenna. Á sama tíma eru 62,2 prósent kvenna andvígar hvalveiðum en 41,4 prósent karla. Því eldra sem fólk er, því líklegra er það til að vera hlynnt hvalveiðum. Þannig eru 43,5 prósent 60 ára og eldri hlynnt hvalveiðum en aðeins 16 prósent á aldrinum 18-49 ára. 67,5 prósent yngsta aldurshópsins, 18-49 ára, eru andvíg hvalveiðum.
Íslendingar ráði sínum málum sjálf
Drög að starfsleyfi Hvals hf. liggja fyrir hjá heilbrigðiseftirliti Vesturlands og heimilt er að veita andmæli við því til 9. júní. Eftir það hefur heilbrigðiseftirlitið fjórar vikur til að afgreiða umsóknina. Hann Katrín spurði ráðherra jafnframt að því, í ljósi upplýsinga um að Hvalur hf. hafi ekki brugðist við ýmsum frávikum frá fyrri starfsleyfum, hvort fyrirhugað væri að bregðast við beiðni fyrirtækisins um þessa sérstöku undanþágu.
„Er, að mati ráðherra, rétt að veita fyrirtæki sem ekki hefur starfað í samræmi við reglur í landinu undanþágu frá lögbundnu starfsleyfi, sérstaklega í máli sem er jafn umdeilt og raun ber vitni, þegar kemur að hvalveiðum Íslendinga?“ spurði Hanna Katrín.
Guðlaugur Þór sagðist ekki ætla að greina frá niðurstöðu í þingsal í máli sem er í formlegum farvegi í ráðuneytinu. „Það væru nú ekki vinnubrögð sem væru sæmandi,“ sagði ráðherra.
Hvað afstöðu hans til hvalveiða sagði Guðlaugur Þór að þegar nýta eigi auðlindir eigi að gera það með sjálfbærum hætti, nokkuð sem ráðherra hefur sagt áður. „Við höfum ávallt lagt áherslu á það Íslendingar, alls staðar, og að við ráðum þeim málum sjálf. Svo getum við tekist á um það hvað er rétt að gera og hvað við viljum gera. Það er gríðarlega mikilvægt, og heyrir beint undir lífsákvörðun íslenskrar þjóðar, að sjálfbærni sé alltaf höfð að leiðarljósi og að við ráðum sjálf okkar málum. Við gætum verið í þeirri stöðu ef sumir flokkar ná hér fram sínum áherslum að við værum bara álitsgjafar og að þessar ákvarðanir verði teknar annars staðar. Og það er af fullri alvöru sem ég minni á þetta hér.“
„Umhverfisráðherra hefur semsagt enga skoðun á hvalveiðum Íslendinga. Jafnvel minni skoðun á áhrifum þeirra á lífríki sjávar en hann hefur áhyggjur af lífríki Skerjafjarðar ef byggt verður þar,“ svaraði Hann Katrín, og hélt áfram:
„Ég velti því fyrir mér, vegna þess þegar menn verða ráðþrota þá eru þetta alltaf síðustu rökin, að við ætlum að fá að ráða þessu sjálf. Getur ráðherra ekki verið sammála mér í því að það að fá að ráða hlutum sjálf felst í því að það er bæði hægt að segja já og nei.“
Þá sagði Hanna Katrín að engin stoð sjálfbærni syðji hvalveiðar. „Ekki efnahagslega stoðin, ekki sú félagslega og ekki sú umhverfislega. Þá er kannski ástæða til að líta til hagsmuna Íslendinga frekar en hagsmuna Hvals hf. og segja nei við hvalveiðum. En fyrst og fremst þætt mér, í alvöru, ágætt að fá skoðun ráðherrans á hvalveiðum.“
Guðlaugur Þór gagnrýndi Hönnu Katrínu fyrir að halda því fram að hann hefði enga skoðun á lífríki sjávar. „Það er algjörlega skýrt í mínum huga og liggur alveg fyrir að við nýtum auðlindir, bæði sjós og lands, með sjálfbærum hætti.“
Athugasemdir