25 af 39 þingmönnum sem svöruðu fyrirspurn Heimildarinnar um afstöðu til hvalveiða eru andvígir því að þeim verði haldið áfram í sumar eða 40 prósent alls þingheims. Átta þingmenn sem svöruðu eru hlynntir veiðunum og sex gáfu ekki afgerandi svar. Lýstu sumir efasemdum og settu ákveðna fyrirfara um framhaldið. 24 þingmenn svöruðu ekki fyrirspurninni eða vildu ekki gefa upp afstöðu sína. Flestir þeirra sitja á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn.
Tilefni þess að Heimildin kannaði afstöðu þingmanna til hvalveiða nú er nýútgefin eftirlitsskýrsla Matvælastofnunar þar sem fram kom m.a. að fjórðungur þeirra tæplega 150 langreyða sem veiddar voru við Ísland í fyrra voru skotnar oftar en einu sinni. Yfir helmingur allra dýranna drapst ekki samstundis og mörg háðu langt og kvalarfullt dauðastríð. Sum voru elt lengi eftir fyrsta skot, jafnvel í fimm klukkustundir. Þá eru dæmi um veiðar í myrkri, að skutlar hafi ekki sprungið við snertingu og að dýrin hafi verið hæfð í bægsli. Ellefu kýr voru kelfdar og ein var mjólkandi sem þýðir að hún hefur verið með afkvæmi á spena.
Spurning Heimildarinnar var eftirfarandi: Ertu hlynnt/ur því eða andvíg/ur að hvalveiðar verði stundaðar við Ísland í sumar?
Óskað var eftir persónulegri afstöðu hvers þingmanns, burtséð frá því hvort viðkomandi teldi hægt að afturkalla gildandi leyfi Hvals hf. til veiðanna. Fyrirspurnin var send í tölvupósti sem fylgt var eftir með ítrekun nokkrum dögum seinna. Í kjölfarið var reynt að hringja í þá sem ekki höfðu svarað. Alþingismenn eru 63 og svarhlutfallið var því 62 prósent.
Ísland er eitt þriggja ríkja í heiminum sem stundar hvalveiðar í hagnaðarskyni og það eina sem leyfir veiðar á langreyði, næst stærsta spendýri jarðar. Hvalur hf. hefur eitt fyrirtækja leyfi til hvalveiða í ár. Það leyfi var gefið út árið 2019. Matvælaráðherra hefur sagt að hún telji sér ekki heimilt að svipta fyrirtækið leyfi til veiðanna án þess að skapa ríkinu skaðabótaskyldu. Þessa afstöðu gagnrýna þingmenn stjórnarandstöðunnar.
„Ef ég væri matvælaráðherra myndi ég vita hvert valdsvið mitt væri og ég myndi einfaldlega banna hvalveiðar á stundinni og hefði verið búin að því,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, við Heimildina. Hún telur það rangt hjá matvælaráðherra að ekki séu heimildir til að svipta Hval hf. veiðileyfinu. „Hún er ráðherra. Hún trónir efst í þessum strúktúr.“ Að mati Ingu væri hægt að stöðva veiðarnar á mörgum forsendum, m.a. vegna almannahagsmuna, að áframhaldandi veiðar muni skaða ímynd landsins og að veiðarnar séu ekki sjálfbærar, „svo ég tali nú ekki um að þetta er dýraníð“.
Mögulega höfði forsvarsmenn Hvals hf. skaðabótamál. „Ég veit ekki hvernig hægt er að meta það til fjár, að koma í veg fyrir að fleiri hvalir líði þessar þjáningar,“ segir Inga.
„Við erum ekki bara að drepa þá – það er verið að pynta þá til dauða.“
Allir þingmenn stjórnarandstöðunnar svöruðu fyrirspurn Heimildarinnar utan Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins. Tveir þingmenn stjórnarandstöðuflokka sögðust hlynntir veiðunum en 21 var andvígur.
Allir þingmenn Pírata og Viðreisnar eru andvígir hvalveiðum við Íslandsstrendur. „Ég hef verið alfarið andvíg hvalveiðum í mörg ár,“ segir Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata. Ástæðan sé sú að ekki sé hægt að stunda þær á mannúðlegan hátt.
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar segir að á sama tíma og það sé „eðlilegasti hlutur í heimi“ að nýta með sjálfbærum hætti auðlindir og nytjastofna „hljótum við að gera þær kröfur að veiðar kalli ekki þjáningu og pínu yfir dýr“.
Fimm af sex þingmönnum Flokks fólksins eru á sama báti. Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður flokksins, segist áður hafa verið tvístígandi gagnvart hvalveiðum. Nú sé það henni hins vegar ljóst að aðferðirnar eru mun verri en hún gat ímyndað sér. „Ég er því ekki tvístígandi lengur, heldur algjörlega andvíg því að hvalveiðar verði stundaðar við Ísland í sumar.“
Einn varaþingmaður Flokks fólksins, Sigurjón Þórðarson, segist hlynntur þeim, en vil að tekið verði tillit til niðurstöðu eftirlitsskýrslu MAST „til þess að tryggja að veiðarnar gangi betur fyrir sig“.
Ekki áherslumál
Fimm af sex þingmönnum Samfylkingarinnar eru mótfallnir áframhaldandi veiðum en formaðurinn, Kristrún Frostadóttir, gaf ekki afgerandi svar. „Þetta er ekki mál sem ég sem formaður Samfylkingarinnar legg áherslu á núna. En það þarf að skoða betur veitingu þessara leyfa,“ svaraði hún.
Annar tveggja þingmanna Miðflokksins, Bergþór Ólason, svaraði fyrirspurninni á þá leið að hann væri fylgjandi áframhaldandi hvalveiðum. „Það er sjálfsagt mál, hér eftir sem hingað til, að auðlindir landsins séu nýttar með sjálfbærum hætti.“
Sex þingmenn Vinstri grænna svöruðu fyrirspurn Heimildarinnar. Fjórir sögðust andvígir veiðunum og tveir, Svandís Svavardóttir matvælaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, lýstu efasemdum sínum án þess þó að gefa afgerandi svar. „Þau myndbönd sem birst hafa, sem sýna raunveruleika þessara veiða eru sláandi og vekja upp spurningar um framtíð þessarar atvinnugreinar,“ segir Svandís. „Persónulega tel ég ekki sjálfgefið að þessar veiðar haldi áfram,“ segir Katrín forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Sex af sautján þingmönnum Sjálfstæðisflokks svöruðu og voru fjórir þeirra hlynntir hvalveiðum. „Ég set stór spurningamerki við veiðar á hvölum, ekki bara í sumar heldur almennt,“ sagði hins vegar Friðjón R. Friðjónsson varaþingmaður sem situr nú á þingi í fjarveru Hildar Sverrisdóttur. „Á meðan ég efast um lögmæti þess að afturkalla leyfið til hvalveiða í sumar er ég ekki stuðningsmaður þess að það verði endurnýjað.“
Samflokkskona hans, Bryndís Haraldsdóttir, er á svipuðum nótum, segist hlynnt því að nytjastofnar séu nýttir á sjálfbæran hátt en „dýravelferð er ekki síður mikilvæg í því samhengi og nýleg skýrsla kallar á yfirferð þessara mála“.
Þrír þingmenn Framsóknarflokksins svöruðu. Tveir sögðust hlynntir veiðunum en einn var á báðum áttum. „Ég eiginlega veit það ekki,“ sagði Stefán Vagn Stefánsson, spurður um afstöðu sína. „Ég er almennt hlynntur hvalveiðum en það þarf að horfa til þess sem fram kemur í þessari skýrslu.“
Hér að neðan eru svör þingmanna sem bárust við fyrirspurn Heimildarinnar.
Andrés Ingi Jónsson
þingmaður Pírata
Andvígur hvalveiðum í sumar, andvígur hvalveiðum eftir sumarið.
Eftirlitsskýrslan sem MAST var að birta staðfestir bara það sem öllum sem vilja vita hefur verið ljóst í háa herrans tíð: Það er ekki hægt að stunda hvalveiðar með mannúðlegum hætti. Þegar sú niðurstaða liggur skýr fyrir – og bætist ofan á öll rökin sem fyrir voru gegn hvalveiðum – er óskiljanlegt að ráðherra víki sér undan því að gera nokkuð fyrir sumarið. Ef sérfræðingar ráðuneytisins segja að kerfið leyfi henni ekki að gera það (túlkun sem ég er reyndar ósammála), þá er það hennar hlutverk sem ráðherra að breyta kerfinu. Og til þess hefur hún haft 18 mánuði í embætti.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir
þingmaður Pírata
Ég hef verið alfarið andvíg hvalveiðum í mörg ár, eða allt frá því ég gaf mér tíma til að kynna mér hvers vegna það er svona mikil andstaða við þær á heimsvísu. Það er vegna þess að hvalveiðar er ekki hægt að stunda á mannúðlegan hátt. Það er ekki hægt. Dýrin eru ofan í sjónum, illsjáanleg og á hreyfingu, og þau eru of stór til þess að hægt sé að tryggja að þau eigi skjótan og sársaukalausan dauðdaga. Íslendingar fundu upp (að mér skilst) þessa „frábæru“ tækni, sprengiskutulinn, til þess að láta þeim blæða örlítið hraðar út, en dauðdaginn er sársaukafullur og skelfilegur engu að síður. Dýrið kvelst alltaf. Þetta er algjör viðbjóður. Hvalir eru spendýr; greind, forvitin og tilfinningarík eins og við.
Skýrsla Matvælastofnunar var sannarlega sláandi, en hún sagði okkur nákvæmlega ekki neitt sem við vissum ekki nú þegar. Það er algjörlega ömurlegt að ráðherra vinstri grænna sé að vakna fyrst núna og þykist ekkert geta gert. Hún stóð sjálf að samningu ályktunar fyrir 8 árum síðan þar sem þetta kom allt saman fram. Hún sat í ríkisstjórn þegar þessi samningur var gerður og hún situr í ríkisstjórn í dag og hún vissi allan tímann hvernig í pottinn er búið.
Ágúst Bjarni Garðarsson
þingmaður Framsóknarflokksins
Ég er almennt hlynntur sjálfbærum veiðum og það gildir um veiðar á hval eins og öðrum veiðum á nytjastofnum sjávar.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir
þingmaður Flokks fólksins
Í gegnum tíðina hef ég verið tvístígandi gagnvart hvalveiðum og séð bæði kosti og galla við að halda þeim áfram enda hafði ég enga hugmynd að verið væri að murka úr þeim lífið með þeim hætti sem þessi skýrsla sýnir fram á.
Veiðiaðferðirnar eru mun verra en ég hafði getað ímyndað mér og hljóta að flokkast undir dýraníð af verstu sort. Þær eru algjörlega óverjandi og ótrúlegt ef þessar upplýsingar nægja ekki til að banna hvalveiðar án tafar.
Ég er því ekki tvístígandi lengur, heldur algjörlega andvíg því að hvalveiðar verði stundaðar við Ísland í sumar.
Bergþór Ólason
þingmaður Miðflokksins
Ég er fylgjandi áframhaldandi hvalveiðum. Það er sjálfsagt mál, hér eftir sem hingað til, að auðlindir landsins séu nýttar með sjálfbærum hætti.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
þingmaður Vinstri grænna
Ég er ekki hlynnt hvalveiðum yfir höfuð, hvorki áður né í sumar. Tek þó fram að þeim þarf að hætta með réttum hætti og byggja á lögmætum sjónarmiðum.
Björn Leví Gunnarsson
þingmaður Pírata
Andvígur.
Bryndís Haraldsdóttir
þingmaður Sjálfstæðisflokks
Ég er hlynnt því að við Íslendingar nýtum okkar auðlindir og nytjastofna á sjálfbæran hátt í samræmi við ráðleggingar vísindanna. Dýravelferð er ekki síður mikilvæg í því samhengi og nýleg skýrsla kallar á yfirferð þessara mála.
Friðjón Friðjónsson
varaþingmaður Hildar Sverrisdóttur þingmanns Sjálfstæðisflokks
Ég set stór spurningamerki við veiðar á hvölum, ekki bara í sumar heldur almennt. Það kvalastríð hvala sem kemur fram í myndböndum dregur ekki úr efasemdum mínum um gildi þeirra. Þá eru möguleg dauðastríð annarra villtra tegunda sem veiddar eru hér við og á landi ekki réttlæting á því sem lítur út fyrir að vera grimmileg meðferð.
Á meðan ég efast um lögmæti þess að afturkalla leyfið til hvalveiða í sumar er ég ekki stuðningsmaður þess að það verði endurnýjað án umfangsmikillar og yfirvegaðrar greiningar á því til hvers við eigum að standa í þessum veiðum. Þar verði að horfa til þess hvort þau tilvik sem birst hafa í fréttum séu venja eða undantekning.
Það er líka atvinnufrelsi í landinu sem er mikilvægt að virða. En allir þeir sem stunda dráp á dýrum í atvinnuskyni þurfa að sýna fram á að það sé gert eins vel og hratt og hægt er og dauðastríð sé ekki dregið á langinn.
Gísli Rafn Ólafsson
þingmaður Pírata
Mjög andvígur [hvalveiðum]. Tel mikilvægt að leyfi til veiða verði afturkallað hið snarasta, jafnvel þó það skapi skaðabótaskyldu fyrir ríkissjóð, þar sem ég tel að efnahagsleg áhrif áframhaldandi hvalveiða á orðspor Íslands verði mun meiri en sá kostnaður sem hlýst af afturköllun leyfisins.
Guðbrandur Einarsson
þingmaður Viðreisnar
Ég er andvígur því að hvalveiðar verði stundaðar við Íslandsstrendur.
Að stunda slíkar veiðar á þann hátt sem gert hefur verið er ekki í neinu samræmi við hugmyndir mínar um dýravelferð.
Guðmundur Ingi Kristinsson
þingmaður Flokks fólksins
Ég er á móti hvalveiðum og þær á að stöðva strax. Eins með blóðmeraníðið og aðrar illa meðferðir á dýrum.
Guðrún Hafsteinsdóttir
þingmaður Sjálfstæðisflokks
Ég er hlynnt því að hvalveiðar verði stundaðar við Ísland í sumar.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir
þingmaður Framsóknarflokks
Ég er hlynnt hvalveiðum við Íslandsstrendur. Skapar atvinnu og gjaldeyristekjur fyrir Ísland. Gerum þetta rétt og vel. Landbúnaður er aldrei falleg iðja fyrir þeim sem ekki hafa fengið að kynnast landbúnaði eða sjávarútvegi. Vönduð og örugg matvælaframleiðsla á sjó og landi er eitthvað sem ég mun alltaf styðja.
Halldóra Mogensen
þingmaður Pírata
Það er ekkert sem réttlætir að halda hvalveiðum áfram. Það samræmist hvorki loftslags- né dýravelferðarsjónarmiðum. Ég er mjög andvíg.
Hanna Katrín Friðriksson
þingmaður Viðreisnar
Ég er andvíg hvalveiðum og vil sjá matmælaráðherra stöðva fyrirhugaðar veiðar við Ísland í sumar. Til viðbótar við mikilvæg dýraverndunarsjónarmið er umdeilanlegt hvort veiðarnar borgi sig efnahagslega. Nýjar vísindalegar niðurstöður um mikilvægi hvala til verndunar lífríkis og loftslags eru svo síðasti naglinn í líkkistu þessara veiða að mínu mati. Ósjálfbærar hvalveiðar ber að stöðva.
Helga Vala Helgadóttir
þingmaður Samfylkingar
Mín skoðun er sú að hvalveiðar séu ekki réttlætanlegar þegar horft er til allra þátta.
Veiðarnar virðast ekki fara fram með tilliti til reglna gegn dýraníði, þær eru skaðlegar fyrir orðspor lands og þjóðar og ávinningur okkar af slíkum veiðum ekki sýnilegur nema síður sé.
Þegar fyrir liggur að aðferðir þær sem nú eru notaðar fara gegn markmiðum laga þá sé ég ekki betur en að lög, reglugerð og form þess leyfis sem nú er í gildi gefi ráðherra heimild til að stöðva veiðarnar - hvort sem er tímabundið, á ákveðnum stöðum eða með öðrum leiðum. Hér á landi er það eitt fyrirtæki sem hefur haldið þessu áfram með aðferðum sem virðast utan ramma laganna.
Þá sýnist mér á nýjustu fréttum að afstaða ráðuneytis sé að hvalveiðileyfið byggist á ákvæðum sem séu ógild, þar með myndi ég halda að leið ráðherra til að stöðva frekari veiðar sé greið.
Inga Sæland
formaður Flokks fólksins
„Ef ég væri matvælaráðherra myndi ég vita hvert valdsvið mitt væri og ég myndi einfaldlega banna hvalveiðar á stundinni og hefði verið búin að því,“ sagði Inga í samtali við Heimildina. Hún telur það rangt hjá matvælaráðherra að hún hafi ekki heimildir til að svipta Hval hf. veiðileyfinu. „Hún er ráðherra. Hún trónir efst í þessum strúktúr.“ Að mati Ingu væri hægt að stöðva veiðarnar á mörgum forsendum, m.a. vegna almannahagsmuna, að áframhaldandi veiðar muni skaða ímynd landsins og að veiðarnar séu ekki sjálfbærar, „svo ég tali nú ekki um að þetta er dýraníð.“
Hún minnir á að þar sem Hvalur hf. hafi leyfi og stundi því veiðarnar „í góðri trú“ sé mögulegt að forsvarsmenn fyrirtækisins höfði skaðabótamál á hendur ríkinu. „Ég veit ekki hvernig hægt er að meta það til fjár, að koma í veg fyrir að fleiri hvalir líði þessar þjáningar. Við erum að fá gríðarlega mikla peninga hingað til lands með erlendum ferðamönnum sem koma margir hverjir hingað til að skoða hvali. Svo erum við að slátra þeim. Og við erum ekki bara að drepa þá – það er verið að pynta þá til dauða.“
Skýrsla Matvælastofnunar varpar skýru ljósi á hversu oft hvalir heyja langdregið dauðastríð, jafnvel tímunum saman. „Það kom mér verulega á óvart að þetta væri svona ofboðslega brútal,“ segir Inga um niðurstöður MAST. „Við eigum að stöðva hvalveiðar. Hér og nú og strax.“
Jakob Frímann Magnússon
þingmaður Flokks fólksins
Dýraníð er mér alfarið á móti skapi, hvaða nafni sem það nefnist.
Jódís Skúladóttir
þingmaður Vinstri grænna
Ég er andvíg því að hvalveiðar verði stundaðar við Ísland í sumar. Ég er alfarið á móti hvalveiðum og hef verið það fyrir þessa skýrslu og er það eftir birtingu hennar og myndbandanna.
Ég er mjög glöð að reglugerðarbreyting sem Svandís gerði, gerði það kleift að þessi skýrsla var gerð og vonandi hefur það áhrif til frambúðar á veitingu leyfa.
Jóhann Páll Jóhannsson
þingmaður Samfylkingar
Get ekki stutt hvalveiðar. Sé ekki hvernig þær aðferðir sem lýst er í skýrslu Matvælastofnunar geta samrýmst dýravelferðarlögum og meginmarkmiðum þeirra.
Jón Gunnarsson
dómsmálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokks
Hlynntur.
Katrín Jakobsdóttir
forsætisráðherra og þingmaður Vinstri grænna
Ég styð þá ákvörðun matvælaráðherra að taka hvalveiðar til endurskoðunar þegar núverandi leyfi renna út. Hún hefur nýtt tímann í embætti til að vinna vandaða undirbúningsvinnu og ný skýrsla MAST er hluti af henni. Persónulega tel ég ekki sjálfgefið að þessar veiðar haldi áfram og þar þarf að meta umhverfisáhrif, efnahagsleg og samfélagsleg áhrif ásamt sjónarmiðum um dýravelferð. Um það snýst vinna matvælaráðherra.
Kristrún Frostadóttir
formaður Samfylkingarinnar
Þetta er ekki mál sem ég sem formaður Samfylkingarinnar legg áherslu á núna. En það þarf að skoða betur veitingu þessara leyfa.
Logi Einarsson
þingmaður Samfylkingarinnar
Ég hef verið andvígur hvalveiðum í mörg ár og nýútgefin eftirlitsskýrsla Matvælastofnunar styrkir enn frekar þá afstöðu mína.
Njáll Trausti Friðbertsson
þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Ég er hlynntur.
Oddný G. Harðardóttir
þingmaður Samfylkingarinnar
Ég er andvíg og rökin fyrir því má m.a. finna í skýrslu MAST.
Orri Páll Jóhannsson
þingmaður Vinstri grænna
Ég er ekki hlynntur því að hvalveiðar verði stundaðar við Ísland í sumar. Eins og ég sagði á þingi nýverið þá tel ég þessa atvinnugrein tilheyra fortíðinni en ekki framtíðinni.
Sigmar Guðmundsson
þingmaður Viðreisnar
Ég er mjög eindregið á því að þessar veiðar eigi ekki rétt á sér. Á sama tíma og það er eðlilegasti hlutur í heimi að nýta með sjálfbærum hætti auðlindir og nytjastofna hljótum við að gera þær kröfur að veiðar kalli ekki þjáningu og pínu yfir dýr. Skýrsla MAST leiðir í ljós að þessar hvalveiðar standast ekki þær kröfur sem við eigum að gera til dýravelferðar og því er ekkert annað að gera en að stöðva þær strax. Þess utan eru sáralítil efnahagsáhrif af þessum veiðum, auk þess sem þetta er heilmikið loftslagsmál eins og bent hefur verið á. Sú staðreynd að við séum í fullum rétti að nýta stofna við landið, þýðir ekki sjálfkrafa að við verðum að gera það. Þessa vitleysu á stöðva strax.
Sigurjón Þórðarson
varaþingmaður Eyjólfs Ármannssonar, Flokki fólksins
Ég er almennt hlynntur hvalveiðum og vil að tekið verði tillit til skýrslunnar, til þess að tryggja að veiðarnar gangi betur fyrir sig.
Stefán Vagn Stefánsson
þingmaður Framsóknarflokksins
„Ég eiginlega veit það ekki,“ segir Stefán Vagn er blaðamaður nær í hann í síma og spyr hann út í afstöðu til hvalveiða. „Ég er almennt hlynntur hvalveiðum en það þarf að horfa til þess sem fram kemur í þessari skýrslu.“
Steinunn Þóra Árnadóttir
þingmaður Vinstri grænna
Ég vona að það verði engar hvalveiðar í sumar. En ég get ekki séð að stjórnvöld hafi lagaheimildir til að stöðva þær, það er ekki á ráðherrans færi.
Svandís Svavarsdóttir
þingmaður Vinstri grænna og matvælaráðherra
Þau myndbönd sem birst hafa, sem sýna raunveruleika þessara veiða eru sláandi og vekja upp spurningar um framtíð þessarar atvinnugreinar. Það að dýr þjáist klukkustundum saman við aflífun er óforsvaranlegt miðað við þær kröfur sem samfélagið hefur til velferðar dýra í dag.
Teitur Björn Einarsson
þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Ég er hlynntur þeim.
Hvalveiðar byggja á vísindarannsóknum, lúta sérstökum lögum sem og eftirliti, eru sjálfbærar og í samræmi við alþjóðalög. Þá er þessi starfsemi, eins og önnur lögleg starfsemi í landinu, varin af atvinnufrelsis- og eignarréttarákvæði (atvinnuréttindi) stjórnarskrárinnar.
Tómas A. Tómasson
þingmaður Flokks fólksins
Ef ég réði og gæti stjórnað þá væru hvalveiðar ekki stundaðar, hvorki hér né annars staðar í heiminum.
Vilhjálmur Árnason
þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Hlynntur.
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir
þingmaður Viðreisnar
Ég er því andvíg – og vísa til eftirfarandi ummæla minna á þingi um málið:
Svandís Svavarsdóttir sjávarútvegsráðherra segir okkur nú að ekki standi til að ógilda veiðileyfi hvals þrátt fyrir niðurstöður Matvælastofnunar um að fjórði hver hvalur sé skotinn oftar en einu sinni við drápin, að 40% hvalanna deyi ekki samstundis. Kýr með fóstur eru drepnar, sem er bannað samkvæmt dýraverndunarlögum, og mjólkandi kýr sömuleiðis. Samkvæmt lögum eiga drápin vera bæði skjót og sársaukalaus. Það er ekki tilfellið í um 40% tilvika og engu að síður eru hin pólitísku skilaboð þau að við höldum bara áfram. Staðreyndin er sú að það má svipta leyfi bæði tímabundið og varanlega og lagalega er þetta ekki sérstaklega flókið. Ef þessi skýra niðurstaða núna dugar ráðherranum ekki til, hvenær er þá eiginlega ástæða til? Ef ráðherra stoppar ekki tímabundið veiðar eftir þennan áfellisdóm finnst mér blasa við að ráðherra verði bara að vera samkvæm sjálfri sér og dúndra út næsta leyfi aftur.
Helsta vörumerki þessarar ríkisstjórnar er að hún tekur engar ákvarðanir. Ráðherrar birtast sem álitsgjafar í fjölmiðlum, lýsa yfir áhyggjum og svo gerist ekkert. Þetta kalla þau síðan gjarnan stöðugleika. Hæstvirtur ráðherra talar nú um að það þurfi þrek til að ræða þessi mál en ríkisstjórnin þarf ekki þrek til að tala meira, hún þarf þrek til að taka einu sinni ákvörðun. Undir eru almannahagsmunirnir, dýravelferð og hagsmunir umhverfis. 65% Íslendinga telja að hvalveiðar hafi neikvæð áhrif á orðspor landsins. Dýrin þjást lengi eftir sprengiskutlana og síðast en ekki síst er þetta umhverfismál; hvalir búa yfir þeim magnaða hæfileika að binda kolefni sem nemur um 1.500 trjám á líftíma sínum.
Ég vil aftur vitna í orð hæstvirts sjávarútvegsráðherra þegar hún segir að við stöndum frammi fyrir því að endurskoða það hvort þessi atvinnugrein tilheyri ekki fortíð frekar en framtíð. Stóra spurningin er auðvitað miklu frekar þessi: Tilheyrir þessi ríkisstjórn fortíð frekar en framtíð?
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
formaður Viðreisnar
Andvíg.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir
þingmaður Pírata
Ég er andvíg því og er andvíg hvalveiðum yfir höfuð.
Þórunn Sveinbjarnardóttir
þingmaður Samfylkingarinnar
Ég er andvíg hvalveiðum við Ísland.
Þingmenn sem svöruðu ekki fyrirspurn Heimildarinnar
- Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
- Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins.
- Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
- Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
- Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
- Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
- Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
- Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna.
- Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks.
- Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
- Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og þingmaður Vinstri grænna.
- Ingibjörg Ísaksen, þingmaður Framsóknarflokksins.
- Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks.
- Jóhann Friðrik Friðriksson, þingmaður Framsóknarflokksins.
- Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins.
- Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
- Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
- Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
- Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
- Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins.
- Willum Þór Þórsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og heilbrigðisráðherra.
- Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins.
- Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Athugasemdir (1)