Ég er manneskja sem þrífst á því að læra nýja hluti, hef alltaf verið mjög forvitin og haft þörf fyrir að auka við þekkingu mína. Enda hef ég safnað upp nokkrum háskólagráðum og kennsluréttindum, fyrir utan öll þau námskeið sem ég hef sótt í gegnum tíðina.
Ég hef sótt í viskubrunn margra stórkostlegra kennara sem hafa verið mér sterk fyrirmynd.
En lífið tekur stundum yfir og leiðir til manns óvæntustu kennara og ekki alltaf á þann hátt sem kona óskar sér. Ég hefði aldrei óskað mér þess, til dæmis, að missa móður mína langt fyrir aldur fram. En það að missa náinn ástvin óvænt hefur líklegast verið einn minn stærsti lærdómur í lífinu. Hann kostaði sitt, það tekur mörg ár að læra að lifa með sorginni, en hann ýtti mér líka út í andlega vegferð með sjálfa mig sem er ferðalag sem tekur engan enda.
Við mamma vorum mjög nánar og miklar vinkonur. Þegar hún dó var ég með ungbarn, 7 mánaða gamalt, og ungling sem nýbúið var að ferma. Þegar svona atburður gerist þá heldur maður áfram að sinna því sem þarf að sinna en taugakerfi manns fer úr skorðum. Í kjölfarið þurfti ég að takast á við mikinn kvíða og allt hafði þetta auðvitað áhrif á samskiptin við mína nánustu. Fram undan voru stórir viðburðir, ég var í miðju ferli að pródúsera leikferðalag erlendis auk annarrar vinnu svo ég þurfti á öllu mínu að halda.
Ég er svo heppin að hafa verkfæri úr leiklistinni til að vinna með sjálfa mig og akkeri mitt í þeirri sjálfsvinnu var raddvinnan mín. Það kom í ljós að hún var ekki bara snilld fyrir mig sem leikkonu en aukaáhrif af því að þjálfa röddina er að ákveðin heilun á sér stað.
Raddvinnan er m.a. endalaus vinna með djúpöndun, með spennujafnvægi líkamans og svo það að „hljóða“ við píanó. Þessi vinna beinist að því að vera í núinu og í núinu er ekki pláss fyrir kvíðann. Heilunarmáttur raddarinnar er stórkostlegur og að ástunda það sem ég hafði tiltækt var rauði þráðurinn í því sem hjálpaði mér að komast í jafnvægi.
Ég leitaði líka víða að hjálp, í aðra heilun, fór til sálfræðinga, lærði hugræna atferlismeðferð. Ég var komin á sporið með mína andlegu vegferð og raddþjálfunin, sem er mikil orkuvinna, leiddi mig síðan inn í margra ára nám í sjamínskri heilun.
Vinna leikarans er mikil umbreyting á orku og það sama á við um raddvinnuna og hér fóru brotin mín öll að tala saman. Á allri þessari vegferð kviknaði ljós hjá mér á augnablikum þar sem ég sá hlutina í nýju samhengi. Þegar ég lít til baka hafði áfallið með mömmu mun meiri áhrif en ég áttaði mig á, til dæmis á samband mitt við manninn minn. Það tók mig langan tíma að vinna úr því og átta árum síðar horfðumst við í augu við skilnað. En auðvitað spilaði fleira en missirinn þar inn í. Ég var komin djúpt í þessa andlegu vinnu, var að upplifa miklar breytingar á sjálfri mér og fann að við höfðum þróast hvort í sína áttina.
„Get ég verið heil á einum stað en ekki á öðrum?“
Það áfall, eða sorgarferli sem skilnaður er, hvort sem maður vill hann eða ekki, ef maður á börn og hefur átt sér framtíðardrauma um líf saman, ýtti mér enn lengra út í það að heila sjálfa mig og gömul áföll. Það er eins og það rifni upp gömul sár þegar maður verður fyrir djúpu áfalli. Þannig að ég hélt áfram að skoða það hjá sjálfri mér, hvernig ég mæti til leiks í samskiptum. Ekki bara benda alltaf á hinn aðilann. Eins skoðaði ég mikið samspilið milli vinnunnar og míns persónulega lífs. Get ég verið heil á einum stað en ekki á öðrum?
Ég vinn sem leiðsögumaður á milli þess sem ég starfa við leiklistina. Ég hef alltaf átt mjög auðvelt með það að mæta þar gestum mínum, fjölbreyttum hópi fólks, með bros á vör og gefa þeim bestu útgáfuna af sjálfri mér. Algerlega áreynslulaust.
Ég elska það að vinna með ólíku fólki, ég elska það að ferðast og ég er með skýrt markmið að hjálpa þeim við að gera þessa draumaferð, sem þau hafa fjárfest í, ógleymanlega.
Einn daginn var ég að hugsa um þetta, hvað gerir það að verkum að mæta þannig til leiks sem leiðsögumaður reynist mér auðvelt, en samskiptin við mín nánustu taka svo oft á? Þá rann upp fyrir mér ljós. Ég hef nákvæmlega engar væntingar til þessara ferðamanna. Þau mega vera eins og þau eru fyrir mér. Ég er ekkert að reyna að stjórna þeim, heldur bara tek því sem að höndum ber og geri það besta úr aðstæðum. Ég mæti þeim með það í huga að skapa jákvætt andrúmsloft og bara njóta.
Ég spurði sjálfa mig, hvað myndi gerast ef ég mætti alltaf þannig til leiks inn í allar mínar persónulegu kringumstæður? Með engar væntingar, bara með bros á vör, opinn huga, staðráðin í að gera þetta (lífsins) ferðalag að draumaferðalaginu okkar saman og bara njóta?
Það var alger frelsun. Það kviknaði á perunni! Væntingastjórnun! Ég get auðvitað leikið sama leikinn í prívatlífinu. Ef aðstæður í einhverjum af þeim hlutverkum sem ég leik í þessu lífi verða krefjandi, þá kveiki ég á þessari hugsun og það gerir öll samskipti mín auðveldari og skemmtilegri! Það er bara svo miklu auðveldara líka þegar maður er meðvitaður um það hvaða orku maður kemur með sér inn í rýmið, inn í samskiptin.
Ég vildi bara að ég hefði áttað mig á þessu fyrr. En það er aldrei of seint að þroskast, bæta nýjum tólum í verkfærakassann og læra nýjar leiðir til að fá það besta út úr lífinu.
Athugasemdir