Kristrún Frostadóttir segir að hún myndi ekki sætta sig við það sem Katrín Jakobsdóttir hefur sætt sig við í yfirstandandi ríkisstjórnarsamstarfi. Ef Samfylkingunni mistekst að komast í ríkisstjórn eftir næstu kosningar þá mun Kristrún hætta sem formaður hennar.
Þótt Kristrún hafi ekki viljað útilokað samstarf við nokkurn stjórnmálaflokk, heldur sett áherslu á að kjósendur styðji Samfylkinguna vegna stefnu hennar, þá segir hún stefna Sjálfstæðisflokksins vera þannig að afar erfitt yrði að fara með þeim í ríkisstjórn. Hugur hennar stendur til að setja á laggirnar mið-vinstri stjórn eftir næstu kosningar.
Þetta kemur fram í viðtali við Kristrúnu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins, en hún snéri aftur til þingstarfa í liðinni viku eftir fæðingarorlof.
Vinstri grænum líður betur að tala um mjúku málin
Í viðtalinu segir Kristrún að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Vinstri grænna, sem leiðir óvenjulega ríkisstjórn með Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokki, sé í stöðu þar sem hún komi ákveðnum hlutum ekki í gegn. „Ég held að hún væri betur sett með mig í fjármálaráðuneytinu en Bjarna. Þannig að ég hefði ekkert á móti því að sitja með Katrínu í ríkisstjórn. Í mörgum grunnmálum eru Vinstri græn og Samfylkingin sammála. Samfylkingin og Vinstri græn eru þó ólík að því leyti að Samfylkingin hefur sterkar sósíaldemókratískar rætur, er kerfisflokkur í grunninn, þar sem fókuserað er á velferðina og fjármögnun á henni, en þetta eru kjarnamál í daglegu lífi fólks. Á meðan hefur Vinstri grænum þótt allt í lagi að vera minna í þessum kerfislægu málum en meira í stökum málum. Vinstri grænum líður kannski betur í ríkisstjórninni að tala um mjúku málin sem kosta ekki pening en skipta vissulega miklu máli, eins og mannréttindamál. Við styðjum þessi mál en breytingarnar sem þurfa að eiga sér stað í íslensku samfélagi kosta breytingar í fjármálaráðuneytinu og Samfylkingin væri ekki að standa með sjálfri sér sem sósíaldemókratískur flokkur nema hún sæi breytingar þar. Ég væri ekki tilbúin að sætta mig við það sem Katrín hefur sætt sig við.“
Vill mið-vinstri stjórn
Hún gæti vel hugsað sér að vinna með Katrínu í ríkisstjórn en það hvaða ríkisstjórn verði mynduð fari algjörlega eftir því hvaða staða verði uppi eftir kosningar. „Ég vil sjá mið-vinstri stjórn í landinu. Það er kominn tími á það. Til þess að það gerist þarf Samfylkingin að verða stærsti flokkur landsins, forystuflokkur. Aðalatriðið er að við séum með skýrar og breiðar línur sem fólkið í landinu geti sameinast um sem og aðrir flokkar. Flokkur Katrínar rúmast í þeirri heimsmynd.“
Takist Samfylkingunni ekki að komast í ríkisstjórn í næstu kosningum mun Kristrún stíga til hliðar sem formaður. „Samfylkingin er á þannig tímamótum að hún þarf að komast í ríkisstjórn. Mitt verkefni, þegar ég tók við flokknum, var að gera hann stjórntækan. Ef mér tekst ekki að gera það þá hef ég brugðist. Ég tók þetta starf að mér til að leiða Samfylkinguna inn í ríkisstjórn og í forystu við stjórn landsins. Ég mun standa og falla með því.“
Afar erfitt að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokki
Kristrún segir að hún vilji að fólk kjósi Samfylkinguna út af flokknum, ekki út af því hvað hann er ekki. „Mér finnst stimplar sem felast í því að segja: Við lofum að gera ekki þetta til marks um flokk sem treystir sér ekki til að segja: Þetta eru okkar verkefni, treystið okkur til verka og þið fáið ríkisstjórn sem skilar verkefnum af sér. Ef stefnan sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur rekið undanfarin ár og áratugi verður óbreytt eftir næstu kosningar þá mun það hamla framförum í svo að segja öllum okkar stóru málaflokkum svo mjög að afar erfitt verður að fara í ríkisstjórn með þeim.“
Samfylkingin hefur verið á miklu flugi í skoðanakönnunum að undanförnu. Hún mældist með 27,8 prósent fylgi í síðasta Þjóðarpúlsi Gallup. Flokkurinn hefur ekki mælst með meira fylgi síðan í maí 2009, eða skömmu eftir bankahrunið og kosningarnar sem haldnar voru í kjölfar þess. Þá var Samfylkingin nýsest í ríkisstjórn undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur.
Alls hefur fylgi flokksins aukist um 17,9 prósentustig frá síðustu kosningum og rúmlega tvöfaldast síðan að Kristrún tilkynnti framboð sitt til formanns síðla sumars í fyrra. Hún tók svo við formennsku í flokknum í lok október.
Ríkisstjórnin í frjálsu falli
Ríkisstjórnarflokkarnir þrír: Vinstri græn, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, hafa allir tapað mælanlegu fylgi frá síðustu kosningum. Sameiginlegt fylgi þeirra þriggja mælst nú 38,1 prósent en þeir fengu 54,3 prósent í kosningunum í september 2021. Flokkarnir þrír sem halda um stjórnartaumana hafa því tapað 16,2 prósentustigum frá því að kosið var síðast. Sameiginlegt fylgi þeirra hefur aldrei mælst minna síðan að þeir tóku fyrst við síðla árs 2017.
Sama er að segja um stuðning við ríkisstjórnina. Hann mælist nú 39 prósent, og er það í fyrsta sinn sem hann fer undir 40 prósent síðan að ríkisstjórnin tók við fyrir fimm og hálfu ári síðan. Í fyrstu mælingu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, sem birt var í desember 2017, sögðust 74,1 prósent styðja ríkisstjórnina.
Athugasemdir (3)