Allt netkerfi Alþingis liggur niðri eins og sakir standa, bæði vefsíða og innra net. Þá virðist sem símkerfi þingsins sé einnig í lamasessi. Blaðamaður Heimildarinnar náði símasambandi við þingið klukkan 9:20 en símtalið slitnaði því sem næst strax og síðan hefur ekki náðst í skiptiborð Alþingis.
Guðlaugur Ágústsson, öryggisstjóri Alþingis, sagðist í samtali við Heimildina ekki hafa upplýsingar um hvort netkerfið væri úti. Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri staðfesti hins vegar að net og símkerfi væru niðri. „Þetta er bara í athugun hjá okkur,“ sagði Ragna í stuttu samtali við Heimildina og sagði að að svo komnu máli gæti hún ekki sagt til um ástæður truflananna.
Vitað er að uppi voru hótanir um árásir á ýmis netkerfi, meðal annars Háskóla Íslands og stjórnsýslunnar, í samhengi við leiðtogafund Evrópuráðsins sem hefst í dag. Ekki er þó ljóst hvort látið hafi verið verða af þeim árásum og þetta séu afleiðingar þess.
Athugasemdir