Víðtækar götulokanir verða í miðborg Reykjavíkur næstu tvo daga á meðan að á leiðtogafundi Evrópuráðsins stendur, sem fer fram í Hörpu 16. og 17. maí. Þannig verður meðal annars fatlað fólk að nýta akstursþjónustu frá Ráðhúsinu og verður þeim sem eiga bílastæði innan lokaðs svæðis ekki heimilt að leggja þar á meðan á fundinum stendur. Hins vegar verður ekki tekið fyrir ferðir Alþingismanna innan svæðisins og geta þeir eftir sem áður lagt bílum sínum á bílastæði Alþingis eða í bílakjallara þingsins, þrátt fyrir að það svæði sé kyrfilega innan hins lokaða svæðis. Formaður Öryrkjabandalagsins segir að sér þætti eðlilegra að þingmenn sætu við sama borð og aðrir sem verða fyrir áhrifum af lokunum vegna leiðtogafundarins.
Þingmenn fengu í síðustu viku sendan tölvupóst þar sem tilgreint var að lokanirnar sem um ræðir væru víðtækar, og þar með talið í kringum Alþingi. Hins vegar verður þingmönnum heimilt að keyra inn á svæðið, um Vonarstræti og þaðan inn á bílastæði Alþingis, og svo sömu leið til baka.
Þetta er þingmönnum heimilt, þrátt fyrir að með þessu séu þeir að keyra inn á akstursleið fylgdaraksturs þeirra erlendu aðila sem komnir eru hingað til lands til þátttöku á fundinum. Ein slíkra leiða liggur um Templarasund en þangað þurfa þingmenn að beygja af Vonarstræti til að komast að bílastæðum Alþingishússins.
Til þess að þingmenn, þar með talið ráðherrar, geti keyrt inn á svæðið þurfa þeir að framvísa merkingu við lokunarpóst sem er á gatnamótum Tjarnargötu og Vonarstrætis. Sú merking, sé að marka tölvupóstinn sem barst þingmönnum, er þó ekki mjög flókin heldur virðist aðeins vera um útprentað og plastað merki Alþingis að ræða, sem setja þarf í bifreiðar þingmanna.
Ekki ofverk þingmanna að labba einhvern spöl
„Mér þætti auðvitað eðlilegt að þingmenn, sem eru okkar kjörnu fulltrúar, sætu við sama borð og aðrir. Þeir leggðu bara utan svæðisins og þyrftu þá að labba einhvern spöl til að komast til vinnu. Mér þætti það bara eðlilegt, án þess að ég sé með einhverja sérstakar hugmyndir um það af hverju þessi undanþága var veitt, ég hef engar forsendur til að meta það,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, í samtali við Heimildina.
„Ég veit reyndar um fólk sem ætlar bara ekki að koma heim til sín“
Spurð hvort félagsmenn í Öryrkjabandalaginu hafi haft samband og lýst óánægju með framkvæmd lokananna segir Þuríður Harpa að það hafi verið furðu lítið. „Ég veit reyndar um fólk sem ætlar bara ekki að koma heim til sín, ætlar að koma sér fyrir annars staðar, en það eru ekki allir sem hafa tækifæri á því,“ segir Þuríður Harpa og telur að fólk muni nýta sér akstursþjónustu frá Ráðhúsinu.
„Síðan getur verið að þegar á hólminn er kominn þá vakni fólk upp við vondan draum og þá komi upp einhver vandamál. Ég vona bara að þetta gangi vel, fyrst þetta þarf að vera svona. Þetta er víst alls staðar í heiminum svona, er mér sagt, að öllu sé lokað í kringum svona stóra fundi.“
Athugasemdir