Strætó er að hefja skoðun á því hvort tilefni sé til að hækka gjaldskrá félagsins frá og með 1. júlí næstkomandi, en um þetta var fjallað á síðasta stjórnarfundi, sem fram fór 21. apríl. Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir skoðun á þessu máli á fyrstu metrunum.
„Það var samþykkt fyrir þó nokkuð löngu síðan svona gjaldskrárstefna, um að láta hana hækka í samræmi við hækkun kostnaðar, og nú er að fara af stað skoðun á því hver sú hækkun eigi að vera og hvort hún verði,“ segir Jóhannes við Heimildina.
Ekki er langt síðan Strætó réðst síðast í gjaldskrárbreytingar, en 1. október í fyrra hækkuðu farmiðar með almenningsvögnum á höfuðborgarsvæðinu um 12,5 prósent að jafnaði og fór ferðið á stökum miða í Strætó þá úr 490 krónum upp í 550 krónur.
Eigendastefna Strætó mælir fyrir um að fargjaldatekjur standi undir 40 prósentum af kostnaði við reksturinn. Þrátt fyrir að aldrei hafi jafn mörg innstig mælst í strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu og í marsmánuði, eða 1.242.000 talsins, eru tekjurnar þó nokkuð fjarri því að standa undir þeim hluta sem eigendur Strætó, sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins, hafa ákveðið að þær skuli helst gera.
Jóhannes Svavar segir að hlutfall fargjalda af kostnaði hafi hæst farið í 35 prósent á undanförnum árum, en að þrátt fyrir metfjölda innstiga hafi fargjaldatekjur Strætó einungis staðið undir tæpum 30 prósentum af rekstrarkostnaði félagsins á fyrstu mánuðum ársins.
Athugasemdir (1)