Fyrstu háskólar Evrópu þróuðust í samhengi við klausturlíf munka þar sem næði til að hugsa, rannsaka og skrifa varð grundvöllurinn að því sem kalla má fræðimennsku. Máttur fræðimannsins hefur verið falinn í næðinu; næði frá skarkala og frá pólitískum hagsmunum. Því þróaðist sú hefð að næði í formi einkaskrifstofu voru réttindi sem fylgdu því að fá akademískt starf við háskóla.
Nú stendur til hjá æðstu stjórnendum Háskóla Íslands að framselja þessi réttindi án þess að fyrir liggi skýr stefna um hvernig tryggja eigi næði með öðrum hætti. Í raun tala æðstu stjórnendur fyrir niðurfellingu einkaskrifstofunnar sem framfaraskrefi. Því ættum við öll nú að vera sorgmædd yfir örlögum þeirra fræðimanna í Eddu – nýju húsi íslenskra fræða – sem voru þeir síðustu í sögu Háskóla Íslands til að fá úthlutað einkaskrifstofum. Framtíðin felst í verkefnamiðuðu vinnurými, þar sem ekkert rými tilheyrir fræðimanninum persónulega og vilji fólk næði þarf að sækja um það dag í senn. Íslenskufræðingar þjóðarinnar munu því missa af snerpunni og sköpunarmættinum sem hefði fylgt því að finna sér tímabundið næðisrými í litlum glerbúrum. Þau geta þó huggað sig við þá staðreynd að einn daginn mun koma að þeim að taka upp hús(ó)næðisstefnu ríkisins en það gæti þó tafist um einhverja áratugi. Það á nefnilega hægt og sígandi að innleiða þetta í allan háskólann. Þetta eru nýleg stefnumið frá fjármálaráðuneytinu sem hafa ekki hlotið neina efnislega meðferð hjá stéttarfélögum fræðimanna.
Það þurfa því ekki allir fræðimenn að lúta þessum kröfum í einu vetfangi. Menntavísindasvið verður fyrst sviða, ásamt hluta heilbrigðisvísindasviðs til að fara inn í opin og verkefnamiðuð vinnurými. Fyrst er því grafið undan næðinu hjá þeim sem sinna rannsóknum á umhyggjuhagkerfinu (mennta- og heilbrigðisvísindum). Á þessum fræðasviðum eru kvenstúedentar í miklum meirihluta og menntavísindasvið eina svið HÍ þar sem fræðikonur eru fleiri. Er þetta helber tilviljun eins og rektor heldur fram?
Eða byggir þessi atburðarás á sögulegri arfleifð sem minnir á sig þegar minnst varir? Konur voru útilokaðar frá æðstu háskólastofnunum aðeins fyrir nokkrum áratugum síðan. Það er t.d. ekki fyrr en 1948 sem Cambridge-háskóli fór að veita konum háskólagráður og 1988 sem Magdalene College var síðasta kollegíið til að samþykkja kvenstúdenta inn í sínar raðir. Það er svo stutt síðan konur voru að berjast fyrir inngöngu; voru að berjast fyrir því að vera taldar jafn miklar skynsemisverur og karlar. Hugsun þeirra, störf og líf hafa verið minna metin um aldir.
Árið 1929 skrifaði rithöfundurinn Virginia Woolf (1882–1941) um mikilvægi þess að konur hefðu sérherbergi til að hafa næði til að skapa skáldverk. Hún var einfaldlega að benda á þá staðreynd að konur skrifuðu síður skáldskap því fjárhagslegt sjálfstæði og réttar starfsaðstæður skorti.
Susan Sontag (1933–2004) skrifaði um mikilvægi þess að konur þyrftu að skapa sér eigið rými til að fá frið, og rýmið þurfi að vera þrungið þögn og stöflum af bókum. Það er því ekki hægt að líta á það sem tilviljun að þær manneskjur sem síðast hafa fengið að njóta slíkra starfsaðstæðna til fræðiskrifta, missi það fyrst, við íslenska akademíu. Hvert er réttlætið í því að það svið sem er nýjast sviða við Háskóla Íslands er þvingað til að framkvæma fyrir sitt starfsfólk slíkar hugmyndir áður en búið er að ræða þær á stéttarfélagsgrunni og áður en þær eru almennt innleiddar við stofnunina? Ég stórefast um að þetta standist jafnréttislög.
Það hefur vakið með mér furðu hversu lítinn áhuga æðstu stjórnendur HÍ hafa á rannsóknum um opin og verkefnamiðuð rými í akademísku umhverfi verandi sjálfir fræðimenn sem telja alla jafnan mikilvægt að nýta rannsóknarniðurstöður við stefnumótun. Ekki hefur enn fundist ein rannsókn sem styður eindregið þessa hús(ó)næðisstefnu. Það er ekki hægt að nýta rannsóknir frá auglýsingastofum, stjórnsýslu eða úr viðskiptageiranum og yfirfæra það á akademískt samhengi. Vinna innan akademíunnar er í eðli sínu ólík þessum geirum. Eins er fólkið sem velst þar inn ólíkt. Hugum að sérstöðu þeirra sem sækja í akademísk störf. Þetta er oftar en ekki fólk sem hefur meiri grúskáhuga en meðalmaðurinn og kemur sér þess vegna (og með miklum fórnarkostnaði) í slíka aðstöðu í gegnum langt nám. Hærra hlutfall akademískra starfsmanna er með „hinsegin taugakerfi“ í samanburði við það sem gengur og gerist. Þetta er fólk sem hefur fundið sér farveg þar sem er mikið næði.
Hér ber að geta þess að fjölmargir velja að vinna heima og það á ekki síst við um eldri kynslóðina sem hefur komið sér haganlega fyrir á sínu heimili og á ekki lengur börn heima, hefur fyrir löngu byggt upp sitt tengslanet og finnur sumt litla þörf fyrir að taka þátt í samfélagi vinnustaðarins. Hins vegar er það yngri kynslóð fræðafólks sem er líklegra til að finna mest fyrir þessu, búa fremur í minna húsnæði, líklegri til að vera með börn á framfæri og þurfa frekar að treysta á stuðning stoðþjónustu og uppbyggingu tengslanets í gegnum vinnustaðinn. Þetta er því einnig mismunun út frá aldri og fjölskyldustöðu.
Að geta gengið að næði við fræðistörf verða því skilgreind í framtíðinni sem forréttindi innan HÍ. Því má spyrja: Hverjir munu njóta þeirra forréttinda? Ef heldur sem horfir verður það helst síðmiðaldra fræðafólk sem að meirihluta eru karlar. Þau sem hafa stystan starfsaldur og/eða búa naumt hafa síðri aðgang að næði, og þar með færri tækifæri til að ná árangri í starfi, sér í lagi í rannsóknum. Það er því verið að mismuna ekki bara á milli sviða og kynja heldur einnig eftir því hvort fólk er ung- eða gamalgróið sem fræðimenn.
Nú þegar er hæst hlutfall þeirra starfsmanna sem lenda í örmögnun í starfi að vinna við kennslu-, heilbrigðis- og umönnunarstörf. Þetta hefur verið vaxandi vandamál innan HÍ og konur þar í miklum meirihluta. Lærum af þeim og þeirra sögu.
Hverju þurfum við að gæta að í nýju húsnæði og endurskilgreiningum okkar á starfsaðstæðum til að fækka slíkum tilfellum? Ætli afnám á fullvissu um aðgang að næði sé leiðin? Skoðum rannsóknir á orkuflæðinu sem fer í nánd og samskipti og lélega hljóðvist, og hversu mikilvægt það er að hafa næði til að hugsa á dýpri nótum; sinna greiningum og skrifum. Kaffistofur, fundarherbergi og önnur opin rými eru nauðsynlegar aðstæður til að ýta undir hugmyndaflæði, skapa mögnunaráhrif hugmynda í gegnum samtalið. En svo þarf að geta lokað sig af til að vinna úr því. Á háskólasvæðinu eru frábær kaffihús, fundarherbergi og opin rými í flestum húsum. En ef starfsmenn finna sig knúna til að leita uppi næði utan vinnustaðarins munu þeir missa af óformlegu samskiptunum og nýtingu þessara opnu rýma sem skipta svo miklu máli í allri hugmyndavinnu. Bestu hugmyndirnar verða til við kaffivélina, sagði einhver. Þetta jafnvægi milli persónulegs rýmis og almenns rýmis glatast.
Hanna Arendt (1906–1975), heimspekingur sem þekkti betur en aðrir að vera aðkomustúlka, vera utangarðs, taldi gríðarlega mikilvægt að manneskja ætti sér prívat stað, ekki bara á heimilinu, heldur líka okkar afmarkaða stað þar sem við getum skapað það sem við viljum og borið það svo fram í dagsljósið – inn í almannarýmið. Við getum ekki verið skapandi í almannarýminu ef við fáum ekki okkar eigið persónulega rými til að þroska þessar hugmyndir. Afnám persónulegs næðisöryggis er hreint tap á réttindum sem akademískir fræðimenn hafa alla jafna haft innan HÍ og ógnar persónulegum sköpunarmætti þeirra. Tryggjum samtöl og samlegð sem mest við megum en um leið þurfum við að tryggja raunverulegt hús-næði við Háskóla Íslands.
Nú liggur fyrir ályktun frá Háskólaþingi gegn þessum hugmyndum sem var samþykkt með 62% atkvæða og Háskólaráð Háskóla Íslands hefur nú ákvörðunarvaldið um framhaldið. Ég legg traust mitt á að rektor Háskóla Íslands taki mark á lýðræðislegum umræðum og niðurstöðum kosninga, og noti lýðræðislega fengið vald sitt til að spyrna við fótum og vinna í þágu fólksins sem kaus hann.
Athugasemdir (1)