Lögreglan mun ekki veita upplýsingar um búnaðarmál eða innkaup í tengslum við leiðtogafund Evrópuráðsins sem haldinn verður í Hörpu í næsta mánuði. „Þetta er gert af öryggisástæðum og í takt við vinnulag lögreglu á norðurlöndum, til að mynda, í aðdraganda sambærilegra funda,“ segir í skriflegu svari ríkislögreglustjóra við fyrirspurn Heimildarinnar.
Leiðtogafundurinn er sá umfangsmesti sem haldinn hefur verið hér á landi. 44 af 46 þjóðarleiðtogum hafa staðfest komu sína á fundinn og löggæslan verður af þeirri stærðargráðu sem hefur ekki sést áður á Íslandi. RÚV greindi frá því í vikunni að um þrjú hundruð lögreglumenn hafa fengið sérstaka þjálfun í meðferð skotvopna í aðdraganda fundarins og fjárfest hefur verið í um 250 jakkafötum fyrir lögreglumenn sem verða óeinkennislæddir.
Heimildin óskaði eftir frekari upplýsingum um jakkafatakaupin en fékk aðeins staðfestingu á kaupunum frá Gunnari Herði Garðarssyni, samskiptastjóra ríkislögreglustjóra, og að þau verði notuð af starfsfólki lögreglu sem mun sinna verkefnum í tengslum við lífvarðagæslu.
„Það væri nú frekar langt seilst að segja að jakkafötin varði þjóðaröryggi.“
„Lögregla mun þó ekki veita nánari upplýsingar um búnaðarmál eða innkaup í tengslum við fundinn fyrr en að loknum fundinum. Þetta er gert af öryggisástæðum og í takt við vinnulag lögreglu á norðurlöndum, til að mynda, í aðdraganda sambærilegra funda,“ segir í svari ríkislögreglustjóra.
Gunnar Hörður segir það frekar langt seilst að segja að jakkafötin varði þjóðaröryggi. „En nánari upplýsingar um búnaðarmál lögreglu í heild sinni og að hluta í tengslum við fundinn, hvort sem um er að ræða fatnað eða annað, verða ekki veittar fyrr en að loknum fundi.“
Leiðtogafundurinn fer fram 16. til 17. maí og mun hafa töluverð áhrif á miðborgina og nánasta nágrenni, meðal annars með víðtækum gatnalokunum. Kostnaður við löggæslu vegna leiðtogafundarins er áætlaður 1,4 milljarðar króna.
Athugasemdir (1)