Stundum er því fleygt að æskan sé glöð og áhyggjulaus, ekki síst á árum áður. Við lékum úti frjáls, enginn útivistartími, foreldrar ekki að flækjast fyrir með eftirliti eða stífum reglum. Frá morgni til kvölds allt árið. Aftur á móti fylgdu frelsinu og afskiptaleysinu ýmsar skuggahliðar. Slys af margvíslegu tagi voru tíð, börn slösuðust oft illa, létust af slysförum í bæjum og sveitum, ekki bara börn heldur fullorðnir líka á sjó og landi. Eftirlitsþjóðfélagið alræmda, aukið regluverk um aðbúnað af ýmsu tagi, eins og bílbelti, hefur sannarlega gert líf okkar öruggara.
Er æskan samt ekki áhyggjulaus? Ekki þarf hún að hafa áhyggjur af vandamálum fullorðinna eins og skuldum og afkomu heimilisins og getur bara leikið sér? Vonandi. Líf barnsins er aftur á móti langt frá því að vera alltaf dans á rósum, hvorki þá né nú.
Barnaskólinn
Sex ára gamall í byrjun skólagöngu var ég settur í próf að vorlagi til að mæla kunnáttu mína í lestri og skrift. Þekkti ekki stafina og gat ekki lesið úr stuttum orðum. Til að bjarga mér spurðu konurnar tvær sem prófuðu mig hversu mörg systkini ég ætti og ég hugsaði, við erum fjögur systkinin – og svo ég! Ég á fimm systkini, fannst þetta samt eitthvað skrítið. Nú þurfti ekki frekari vitnanna við, ég var settur í C-bekk um haustið. Mátti eflaust þakka fyrir að hafa ekki lent í tossabekk með öllum óþekku strákunum og sterkasta kennaranum þar sem hörðum aga var beitt til að halda aftur af mestu ólátabelgjunum. Já, bekkjakerfið var getuskipt áður fyrr og örugglega stéttskipt líka.
Amma tók sig hins vegar til og kenndi mér lestur og skrift um sumarið þannig að sjö ára bekkurinn reyndist mér auðveldur. Eiginlega of léttur. Í lok kennsluársins fór kennarinn yfir allt það sem við áttum að hafa lært yfir veturinn og ég sagði kokhraustur að þetta kynni ég nú allt, væri skítlétt. Kennarinn gekk hægum skrefum að borði mínu og sló mig allt í einu utan undir þannig að ég lenti á gólfinu og sá stjörnur í fyrsta og síðasta sinn á ævinni. Þetta voru þá verðlaunin fyrir að standa sig vel í skólanum og kannski lífinu líka. Kjaftshögg! Karlinum fannst ég örugglega vera merkikerti hið mesta, þyrfti nú aldeilis að lækka rostann í þessum dreng.
„Amma tók sig hins vegar til og kenndi mér lestur og skrift um sumarið þannig að sjö ára bekkurinn reyndist mér auðveldur. Eiginlega of léttur.“
Í frímínútunum á eftir bar ég mig illa og þá kom bekkjarbróðir til mín og sagði að þetta hefði ég nú ekki átt skilið, kennarinn hefði verið vondur við mig. Þakka þér, Hákon, hvar sem þú ert staddur í lífinu! Ég var síðan færður upp í besta bekk um haustið og þar varð ég allt í einu miðlungsstúdent meðal allra gáfnaljósanna en fann mig samt miklu betur.
Ofbeldið í skólanum
Líkamlegt ofbeldi af hendi kennara var langt frá því einsdæmi á þessum tíma. Strákarnir voru oft beittir ofbeldi og stelpurnar örugglega líka þó ég muni minna eftir því. Andlegt ofbeldi fylgdi með í kaupunum, til dæmis var nefið okkar sett við töfluna við óþekkt þar til tímanum væri lokið. Beita þyrfti börn hörðum aga til að uppeldið gengi upp, enginn yrði jú óbarinn biskup. Einelti á skólalóðinni tíðkaðist líka, kallað stríðni. Ekki tilkynntum við kennara eða skólayfirvöldum enda bara klöguskjóður og kennarasleikjur sem gera slíkt, ekki vildum við það. Hvarflaði ekki að mér að segja foreldrum mínum frá kjaftshöggi kennarans, þolendaskömm mín var allt of mikil fyrir það. Sögur af þessu tagi af ofbeldi kennara í garð nemenda eru vonandi liðin tíð en eineltið og ofbeldi meðal nemenda þekkjum við því miður enn.
Kynfræðslan
Kynþroskaskeiðið var annar kapítuli. Við biðum spennt eftir kaflanum Nýtt líf kviknar í 12 ára bekk með myndinni af ungu hjónunum brosandi með nýfædda barnið. Höfðum heyrt að stundum væri kaflanum sleppt. Ekki hjá okkur, jibbý! Kennslukonan fór nokkrum óstyrkum orðum um viðfangsefnið sem við skildum lítið í og sagði síðan allt í einu, eru einhverjar spurningar? Ég var svo framhleypinn að spyrja hvort stelpurnar í bekknum gætu átt börn – bekkurinn skellihló (að mér?) og grey kennslukonan svaraði einhverju í fáti og lauk tímanum í snatri. Einhvern veginn varð þessi uppákoma táknræn fyrir samskipti kynjanna síðar, vandræðagangur og óframfærni. Eitthvað sem ekki mátti tala um, eitthvað forboðið sem við þyrftum að vara okkur á. Sjálfsmyndin að mótast, er ég frambærilegur, vill einhver stelpa mig? Örugglega samt miklu erfiðara í dag með alla samskiptamiðlana, kynin öll og fullkomnu fyrirmyndirnar. Eftir á að hyggja finnst mér samt eins og segir í dægurlagatextanum að við hefðum getað verið aðeins betri hvert við annað, til dæmis bara hrósað, en jafnvel það var of mikið mitt í öllum komplexunum.
Útskriftin best
Grunnskólinn var samt í það heila góður, menntaskólinn skemmtilegri og háskólinn enn betri. Allra best var þó að útskrifast. Held það sé fyrst og fremst aukin ábyrgð á eigin námi og lífi, meira sjálfræði, sem skýrir vaxandi sátt mína við skólann. Uppgötva svo að ég hef eiginlega aldrei alveg útskrifast úr skóla, hef kennt á bæði framhalds- og háskólastigi allar götur síðan. Útskrifast kannski ekki að fullu fyrr en við starfslok – ef guð lofar.
Takk fyrir þennan fína texta Helgi !