Landsvirkjun hefur skrifað undir samstarfssamning við alþjóðlega stórfyrirtækið Linde, sem er leiðandi alþjóðlegt gas- og verkfræðifyrirtæki með starfsemi í yfir 100 löndum, um að vinna að þróun grænna vetnis- og rafeldsneytisverkefna hérlendis. Þróun á slíku eldsneyti, sérstaklega vetni fyrir þungaflutninga og metanól fyrir skipaflotann, er lykilatriði í orkuskiptum á Íslandi.
Haraldur Hallgrímsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun, segir í samtali við Heimildina að samstarfið muni ganga út á að skilja hvað framleiðsla á rafeldsneyti muni kosta, hvar hún geti verið sett upp, hvort hún sé tæknilega fýsileg og hverjir þurfi að koma að verkefninu ef það eigi að raungerast.
Endanlegt hlutverk Landsvirkjunar annars vegar og Linde hins vegar við framleiðslu á rafeldsneyti er þó ekki endanlega ákveðin í samstarfssamningnum sem nú hefur verið undirritaður. „Við áttuðum okkur á því fyrir nokkru síðan að rafeldsneyti er nauðsynlegt til að ná fram orkuskiptum innanlands. Fyrstu verkefnin við uppbyggingu slíkrar framleiðslu verða bæði fjárhagslega og tæknilega erfið. Það mun þurfa til öflug fyrirtæki og opinberan stuðning.“
Hann segir að nauðsynlegt að fá fyrirtæki að þróuninni sem séu með mikla reynslu og á þeim forsendum hafi Landsvirkjun rætt við nokkur slík. Á grundvelli þeirra samtala hafi verið ákveðið að fara í samstarf við Linde.
Í tilkynningu frá Landsvirkjun vegna undirritunar samningsins er haft eftir Daniel Mateos, yfirmanni viðskiptaþróunar hjá Linde í Norður-Evrópu, að það sé mikil tilhlökkun hjá fyrirtækinu að vinna með Landsvirkjum að því að hjálpa Íslandi að ná metnaðarfullum áformum sínum í loftlagsmálum. „Linde og Landsvirkjun stefna að því að gegna lykilhlutverki í orkuskiptum á Íslandi. Samanlagður styrkur og sérfræðiþekking beggja fyrirtækja í gegnum alla virðiskeðjuna, allt frá endurnýjanlegri orku til hreins eldsneytis, mun leggja grunn að öruggu og áreiðanlegu framboði á hreinu vetni og rafeldsneyti.“
Stefnt að því að hætta að nota jarðefnaeldsneyti 2040
Orkuskipti þýða á einföldu máli að skipta út notkun jarðefnaeldsneytis á Íslandi fyrir aðra orkugjafa. Til að ná fullum orkuskiptum þarf því að grípa til aðgerða sem láta alla bíla, alla þungaflutninga, öll skip, allar flugvélar, ganga fyrir öðrum orkugjöfum en olíu og vörum unnum úr henni.
Ísland framleiðir nú þegar gríðarlegt magn af grænni orku, eða um það bil 20 terrawattsstundir á ári. Meginþorri þeirrar orku er framleiddur af vatnsafls- eða jarðvarmavirkjunum. Yfir 80 prósent af þessari orku er seld til stórnotenda, aðallega alþjóðlegra stórfyrirtækja sem reka þrjú álver á Íslandi.
Orkuskipti voru tískuorð síðustu þingkosninga á Íslandi. Nær allir flokkar notuðu þetta hugtak ítrekað til að lýsa stefnu sinni í loftslagsmálum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem kynntur var seint á árinu 2021 var fyrra markmiði um jarðefnaeldsneytislaust Ísland flýtt frá 2050 til 2040. Hraða átti orkuskiptaferlinu gríðarlega. Til að ná þessum metnaðarfullu loftslagsmarkmiðum þarf ýmislegt til. Það þarf að bæta orkunýtni og auka orkusparnað. En fyrst og síðast þarf, að óbreyttu, að auka afl núverandi virkjana og byggja nýjar.
Með öðrum orðum þarf að virkja meira ef það á að ná orkuskiptum í gegn, og samt halda áfram að selja álverum þorra þeirrar orku sem við framleiðum líkt og langtímasamningar við þau gera ráð fyrir. Verði af þeim áformum er ljóst að mikil eftirspurn verður eftir þeirri nýju orku
Þungaflutningar, skip og flugvélar eftir
Ísland hefur forskot á aðrar þjóðir þar sem nánast öll rafmagnsframleiðsla og húshitun kemur úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Þannig hefur málum verið háttað í áratugi eftir uppbyggingu opinberra orkufyrirtækja á síðustu öld.
Sem stendur eru orkuskipti bíla komin eitthvað á veg og ýmsir efnahagslegir hvatar hafa gert það að verkum að mun fleiri rafbílar seljast nú en þeir sem eru drifnir áfram af jarðefnaeldsneyti. Í lok árs 2022 voru bílar í eigu heimila sem gengu eingöngu fyrir rafmagni eða voru með raftengi orðnir 24.302 talsins. Þeim fjölgaði um 59 prósent milli ára og eru 26 sinnum fleiri en þeir voru 2016. Þótt bensínbílum á götunum hafi fækkað lítillega á síðustu árum hefur bílum sem ganga fyrir dísil eða öðru eldsneyti fjölgaði. Alls voru jarðefnaeldsneytisbílarnir á íslenskum heimilum enn 213.869 talsins í lok árs 2022. Til viðbótar við þá koma svo allir bílarnir, stórir og smáir, sem notaðir eru í atvinnuskyni á Íslandi. Þeir eru að uppistöðu enn drifnir áfram af jarðefnaeldsneyti.
Orkuskipti í skipum, þungaflutningum og flugi er hins vegar vart hafin hérlendis.
Til að ná þeim mun þurfa mikla orku til að framleiða svokallað rafeldsneyti. Það er samheiti á nothæfu eldsneyti sem búið er til úr vetni við rafgreiningu á vatni. Dæmi um slíkt eldsneyti er metanól, sem er eldsneytisvökvi sem þegar er framleiddur hérlendis hjá Carbon Recycling í Svartsengi. Í frétt RÚV frá því í janúar í fyrra var haft eftir framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar hjá Carbon Recycling að verksmiðja fyrirtækisins gæti framleitt umhverfisvænt eldsneyti fyrir allan fiskiskipaflotann en að það vantaði einfaldlega áhuga á að fara í þau orkuskipti.
Athugasemdir