Það er 9,8 prósent verðbólga. Hún hefur verið yfir níu prósent síðan í júlí í fyrra og fór um tíma í tveggja stafa tölu. Verðbólguvæntingar til næstu ára hafa sömuleiðis versnað og nú er ekki búist við því að markmið Seðlabankans náist fyrr en á árinu 2026.
Almennt þurfa nokkrir kraftar að róa í sömu átt til að vinna bug á þessum vágesti. Þegar þeir gera það er oft talað um þjóðarsátt. Allir leggja sitt í púkkið, taka hluta af högginu og niðurstaðan verður aukinn kaupmáttur og lægri verðbólga.
Launþegar þurfa að sýna hófsemd í launakröfum, atvinnulífið þarf að stilla arðsemiskröfum sínum í hóf, dempa fjárfestingu og halda aftur af því að velta hækkunum út í verðlagið. Seðlabankinn þarf að beita sínum stýritækjum og ríkisfjármálin þurfa að spila með þessu öllu saman.
Í fyrrahaust var víða höfðað til ábyrgðar launafólks. Það þyrfti að leggjast á árarnar með hinu opinbera og atvinnulífinu til að ná tökum á ástandinu. Á grunni þessa hafa verkalýðsfélög á almenna markaðinum gert skammtímasamninga sem gilda út janúarmánuð 2024 og tryggja almennar launahækkanir sem eru metnar á 6,75 til átta prósent, en þó með þaki. Verðbólgan hefur hins vegar haldið áfram að hækka og miðað við stöðu mála nú eru meiri líkur en minni á að launahækkunin sem samið var um dugi ekki til að viðhalda kaupmætti, sem hefur nú þegar dregist saman þrjá ársfjórðunga í röð.
„Úr öllu samhengi við íslenskan veruleika“
Seðlabanki Íslands hefur beitt þeim tólum sem hann hefur til að takast á við verðbólgu. Hann hefur hækkað stýrivexti tólf sinnum í röð og upp í 7,5 prósent. Vegna þessa eru óverðtryggðir íbúðalánavextir banka nú komnir yfir níu prósent. Þeir sem eru með slík lán á breytilegum vöxtum hafa séð mánaðarlega greiðslubyrði sína rúmlega tvöfaldast á tveimur árum.
Bankinn hefur auk þess hækkað sveiflujöfnunarauka svo bankarnir þurfi að draga úr útlánum og þrengt lánaskilyrði. Þessar aðgerðir bíta suma, heimili og minni fyrirtæki sem lifa í krónuveruleika, fast. Það má gagnrýna bankann fyrir að tala afar óvarlega og gefa falskar væntingar. Stundum jafnvel af hroka og fullkomnu skilningsleysi gagnvart daglegu lífi venjulegs fólks. En erfitt er að sjá hvað hann eigi að gera annað en að hækka vexti í því ástandi sem ríkir, með þann gjaldmiðil sem hann reynir að hemja.
Vart er hægt að halda því fram að atvinnulífið sé að spila með af fullum krafti. Rekstrarhagnaður fyrirtækja jókst um 60 prósent á árunum 2018 til 2022 á sama tíma og verðlag hækkaði um 20 prósent. Stóru fyrirtækin í landinu, sem annaðhvort lifa á fákeppnismarkaði eða eru með ódýrt aðgengi að takmörkuðum auðlindum, hafa verið dugleg að skila þessari stórauknu arðsemi út til eigenda sinna og helstu stjórnenda. Birtingarmyndir þess eru fjölmargar. Stórauknar fjármagnstekjur þeirra sem hafa slíkar, metarðgreiðslur og skapandi tegundir greiðslna til að koma auknum fjármunum til efsta lagsins í íslensku atvinnulífi. Meðallaunagreiðslur til forstjóra skráðra fyrirtækja í fyrra voru til að mynda 19-föld lágmarkslaun.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri gerði þessa stöðu að umtalsefni í ræðu sinni á ársfundi Seðlabankans í síðustu viku. Þar sagði hann að verðbólga og þensla megi „ekki verða að skálkaskjóli til þess að henda öllum kostnaðarhækkunum út í verðlagið. Það getur heldur ekki liðist að stjórnendur fyrirtækja skammti sjálfum sér laun sem eru úr öllu samhengi við íslenskan veruleika.“ Atvinnulífið þurfi líka að axla ábyrgð. Sem það hefur ekki gert.
Skammsýni sem hefur afleit áhrif
Að endingu þurfa ríkisfjármálin að spila með. Það hafa þau sannarlega ekki gert. Helstu verk sitjandi ríkisstjórnar hafa falið í sér gegndarlausa útgjaldaaukningu sem skilað hefur mörg hundruð milljarða króna halla á rekstri ríkissjóðs í tíð hennar. Hún eyðir sig frá ósættinu. Einn flokkurinn fær að ausa skattfé til breiðra baka sem kjósa hann í hrönnum. Annar fær að dæla fjármunum í kjördæmapot og gæluverkefni. Sá þriðji fær að stjórna, vegna þess að það skiptir víst svo miklu máli hver stjórnar.
Þensluna sem ríkir má að stóru leyti rekja til pólitískra ákvarðana. Til dæmis þeirrar að byggja upp ferðaþjónustu sem risastoð undir íslenska hagkerfið. Hún er láglaunagrein í hálaunalandi sem útheimtir mikinn mannafla og gengur á mikilvæga innviði. Sá fjöldi sem starfar í greininni er sóttur út fyrir landsteinana. Tilraunir til að leggja gjöld á erlenda ferðamenn vegna þess hafa ætíð runnið út í sandinn og þess í stað hafa verið innleiddar skattaívilnanir sem örva vöxt ferðaþjónustunnar, sem svo þurfti að halda á lífi með gríðarlegum framlögum úr ríkissjóði í gegnum kórónuveirufaraldurinn.
Á þessum grunni, ásamt sterkri krónu, skapaðist hagvöxtur. Til að ýkja hagvöxtinn enn frekar var hlaðið í tilfærslur á peningum úr sjóðum hins opinbera, þar sem þeir hefðu nýst til að styrkja velferðarkerfi og jöfnuð, í vasa þeirra betur stæðu. Það var gert í gegnum alls kyns skattaafslætti, Leiðréttingu og skattfrjálsa nýtingu séreignarsparnaðar til að nefna örfáar leiðir. Allt voru þetta skammsýnar aðgerðir sem mæltust vel fyrir hjá þeim sem nutu þeirra, en hafa til langs tíma afleit áhrif á samfélagsgerðina.
Stefnulaust moð
Þegar verðbólga og þensla hrjáir þjóðarlíkamann verður beiting þessarar aðferðafræði hins vegar flóknari. Slík staða kallar á aga og aðhald. Styrka efnahagsstjórn og þor til að taka erfiðar ákvarðanir. Ríkisstjórninni mistókst herfilega að sýna slíkt við gerð fjárlaga fyrir yfirstandandi ár en fékk nýtt tækifæri þegar hún setti saman fimm ára fjármálaáætlun sem kynnt var í síðustu viku. Niðurstaðan þar eru fullkomin vonbrigði. Stefnulaust moð.
Ekki er tekið á hallarekstri ríkissjóðs með aukinni tekjuöflun eða almennilegu aðhaldi. Þess í stað á að reka hann í alls 161,2 milljarða króna halla út árið 2027. Þrátt fyrir digurbarkalegar yfirlýsingar þess hluta ríkisstjórnarinnar sem vill á tyllidögum kenna sig við félagshyggju, um þörf fyrir álagningu hvalrekaskatts, hækkun bankaskatts, þrepaskipts fjármagnstekjuskatts, gjaldtöku af ferðaþjónustu og stóraukinnar innheimtu auðlindagjalda, er lítið sem ekkert um slíkt að finna í áætluninni. Það sem þó er minnir á lélegt ljósrit af ljósriti af vel undirbyggðum áformum.
Til stendur að hækka fyrirtækjaskatt um eitt prósent, en bara í eitt ár og þá vegna rekstrarhagnaðar næsta árs. Hækka á veiðigjöld um óljósa upphæð, þó ekki fyrr en árið 2025. Fyrir tilviljun er það sama ár og næstu kosningar eru fyrirhugaðar. Dempa á skattaívilnanir til byggingageirans sem hefur fært honum milljarða króna úr ríkissjóði á undanförnum árum á sama tíma og álagning þeirra á fyrstu sölu íbúða hefur stóraukist með þeim afleiðingum að metframlegð er í geiranum. Þá á að selja restina í banka sem enginn sýnilegur áhugi er hjá þjóðinni að selja og áfram sleppa því að reikna mörg hundruð milljarða króna fyrirsjáanlegt tap ÍL-sjóðs með í ríkisreikningi, vegna þess að fjármála- og efnahagsráðherra vonast enn til þess að hægt sé að færa það tap yfir á lífeyrissjóði landsins.
Aðhaldið er lítið og stóru tekjuaukningarpóstarnir lenda á venjulegu fólki í gegnum hefðbundnar árlegar gjaldahækkanir og nýja tegund umferðargjalda.
Við þessar aðstæður er kallað á þjóðarsátt.
Þrjár þjóðir
Þá á auðvitað eftir að ræða um fílinn í herberginu, íslensku krónuna. Í nýlegri grein sem Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, birti í Vísbendingu, benti hann á að á Íslandi búi þrjár þjóðir. Ein lifir í krónuhagkerfinu, önnur er fyrirtæki á alþjóðamarkaði sem nota krónuna takmarkað. Á meðal þeirra eru stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins og flest önnur stór fyrirtæki sem stunda alþjóðlega starfsemi. Þau gera upp í evrum eða Bandaríkjadölum og fjármagna sig, að minnsta kosti að hluta, í þeim myntum. Aðkoma þeirra að íslensku krónunni takmarkast við það þegar þau skipta erlendum gjaldeyri í íslenskar krónur til að greiða út laun um mánaðamót. Sú þriðja rekur dótturfélög á Íslandi, til dæmis í álframleiðslu. Við þann hóp má svo bæta stóreignafólk sem geymir stóran hluta eigna sinna í erlendum gjaldmiðlum.
Þær vaxtabreytingar sem ráðist hefur verið í til að reyna að stemma stigu við verðbólgunni og þenslunni bíta einungis á fyrstnefnda hópnum, sem inniheldur launafólk og lítil og meðalstór fyrirtæki.
Þetta má þó ekki ræða upphátt eða af alvöru vegna þess að stjórnarflokkarnir eru á móti Evrópusambandsaðild, þótt meirihluti sé fyrir henni á meðal þjóðarinnar samkvæmt hverri könnuninni á fætur annarri. Slíkt er kallaður „pólitískur ómöguleiki“.
Það blasir þó við að ávinningurinn af því að vera með örgjaldmiðil er enginn fyrir flesta Íslendinga. Krónuást þriggja flokka sem mælast nú með undir 40 prósent samanlagt fylgi skilar þeim þess í stað himinháum vöxtum, fákeppni, samkeppnisbjögun, minni erlendri fjárfestingu, fátækara atvinnulífi og hærra vöruverði. Svo fátt eitt sé nefnt. Beinn kostnaður vegna þessa hefur verið metinn á hundruð milljarða króna á ári.
Ef mynda á alvöru þjóðarsátt verða þjóðirnar þrjár að setjast að borðinu og finna leið sem virkar fyrir alla. Launþegar, atvinnulífið, Seðlabankinn og hið opinbera verða sömleiðis að róa í sömu átt. Svo er ekki. Þangað til að það verður er tal um slíka sátt fullkomlega innantómt.
Athugasemdir (5)