Áhyggjur annarra þjóða á norðurslóðum af norðurljósarannsóknarmiðstöð Kína á Kárhóli í Þingeyjarsýslu eru ræddar í ritgerð um öryggismál Atlantshafsbandalagsins (NATO) á norðurslóðum sem birt var í lok árs í fyrra. Í ritgerðinni er ekki vísað til heimilda um þetta atriði. Einn af höfundunum, Gregory Falco, segir aðspurður að um sé að ræða munnlegar heimildir, samtöl við aðila sem vel til þekkja.
Heimildin hefur fjallað um norðurljósarannsóknarmiðstöðina á síðustu vikum og meðal annars greint frá því að NATO hafi haft áhyggjur af henni og möguleikanum á njósnum og eftirliti Kína í gegnum hana.
„Í mínum huga er það of mikil tilviljun að Kína sé með rannsóknarmiðstöð einmitt á þeim stað sem hentar best til að sinna þessu eftirliti“
Rannsóknarmiðstöðin hefur verið vandræðamál í íslenska stjórnkerfinu í nokkur ár og klóraði Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrverandi utanríkisráðherra, sér til dæmis mikið í höfðinu yfir tilvist hennar samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar. Íslenska ríkið hefur ekki skipt sér mikið af miðstöðinni eða haft góða yfirsýn yfir það sem þar fer fram. Utanríkisráðuneytið þurfti til dæmis að senda upplýsingabeiðni til RANNÍS, sem er tengiliður Íslands við Kínversku heimsskautamiðstöðina vegna Kárhóls, til að spyrjast fyrir um starfsemina.
Í ritgerðinni, sem heitir Commercial Space Risk Framework Assessing the Satellite Ground Station Security Landscape for NATO in the Arctic and High North, segir meðal annars um byggingu norðurljósamiðstöðvarinnar. „Þessi þróun bendir til þess að tæknibúnaður frá Kína, sem og starfsmenn, séu vel dreifðir um norðurhvel jarðar, og hefur þetta vakið áhyggjur um þjóðaröryggi hjá mörgum ríkjum á svæðinu.“
Höfundar greinarinnar eru fjórir fræðimenn á sviði þjóðaröryggismála: Nicoló Boschetti, Nathaniel Gordon og Gregory Falco sem allir starfa við John Hopkins-háskóla í Bandaríkjunum og Johan Sigholm sem vinnur í sænskum háskóla.
Hluti af Belti og braut
Þá segir að rannsóknarstöðin á Íslandi sé ein af fjórum sambærilegum rannsóknarmiðstöðvum Kínverja sem komið hefur verið upp á norðurhveli jarðar. Hinar eru á Svalbarða, í Kiruna nyrst í Svíþjóð og á Grænlandi. Umræddar rannsóknarmiðstöðvar eru hluti af innviða- og fjárfestingarverkefni kínverska ríkisins, „Belti og braut“. Belti og braut gengur út aðkomu Kína og kínverskra fyrirtækja að uppbyggingu innviða víða um heim.
Eins og rakið var í fréttaskýringu í Kjarnanum þá vísar nafnið á verkefninu „til hinnar fornu silkileiðar sem tengdi Kína við umheiminn og Xi Jinping vill endurvekja undir formerkjum Beltis og brautar“. Um þetta segir í ritgerðinni: „Fjárfestingar Peking í fjarkönnunum á norðurhveli jarðar, GNSS, og byggingar rannsóknarmiðstöðva á jörðu niðri í löndunum í Norður-Atlantshafi voru ekki bara byggðar vegna vísindalegra ástæðna heldur líka til að styðja við Belti og braut verkefnið á norðurslóðum.“
Miðað við þessa túlkun greinarhöfunda þá er Ísland óbeinn þátttakandi í Belti og braut verkefni kínverskra stjórnvalda í gegnum norðurljósamiðstöðina. Opinberlega hefur hins vegar komið fram að Ísland hafi hafnað innviðafjárfestingum Kínverja og þar með þátttöku í Belti og braut. Þáverandi varaforseti Bandaríkja, Mike Pence, sagði til dæmis árið 2019, þegar hann heimsótti Ísland, að yfirvöld í Bandaríkjunum væru þakklát Íslendingum fyrir að taka ekki þátt í Belti og braut. „Bandaríkin eru þakklát fyrir þá afstöðu Íslendinga að hafna samgöngufjárfestingum Kína á Íslandi vegna Beltis og brauta.“
Guðlaugur Þór Þórðarson, þáverandi utanríkisráðherra, sagði þá að ummæli Pence væru ekki alveg nákvæm þar sem Ísland og Kína ættu í miklum samskiptum og að Ísland vildi efla viðskiptin við Kína. Hann sagði hins vegar jafnframt að Ísland hefði ekki samþykkt með formlegum hætti að vera þátttakandi í Belti og braut, líkt og margar þjóðir hafa gert, en að þetta væri til skoðunar.
Umræðan um mögulega þátttöku Íslands í Belti og braut verkefninu kom meðal annars upp í tengslum við umræðu um mögulega aðkomu kínverskra fyrirtækja að uppbyggingu stórskipahafnar í Finnafirði fyrir nokkrum árum.
Möguleikinn á að stunda njósnir í gegnum gervihnetti
Gregory Falco segir aðspurður að hann hitti og ræði við mikið af fólki, ráðamönnum, sem hafa innsýn inn í þjóðaröryggismál landanna á norðurhveli jarðar. Varðandi heimildir fyrir staðhæfingunni af áhyggjum annarra þjóða af rannsóknarmiðstöðinni á Kárhóli segir hann: „Hún byggir á persónulegri þekkingu. Ég vinn mikið með þjóðaröryggismál og ég hitti og ræði við mikið af fólki sem hefur þekkingu á þessum málum. Heimildir eru því ráðamenn innan þessara þjóða sem ég ræði við. Flest þessara samtala eru ekki opinber samtöl. Þess vegna segjum við bara að þjóðirnar á norðurhveli jarðar hafi áhyggjur af þessum rannsóknarmiðstöðvum, bæði á Íslandi og einnig á Svalbarða,“ segir Gregory, sem er á leiðinni til Svíþjóðar í næstu viku að ræða um öryggismál á norðurhveli jarðar.
Hann segir að öryggisáhyggjurnar sem önnur ríki hafi af rannsóknarmiðstöðinni á Kárhóli sé möguleikinn á því að einnig sé verið að nota hana til að safna upplýsingum sem ekki eru vísindalegs eðlis. „Áhyggjurnar snúast um mögulegt tvíþætt eðli þessarar rannsóknarmiðstöðvar. Þetta er rannsóknarmiðstöð sem sinnir vísindum en á sama tíma er ekkert eftirlit með því hvers konar gögn og upplýsingar fara inn og út úr þessari miðstöð. Og Ísland er svæði sem er landfræðilega mikilvægt strategískt séð vegna stöðugrar umferðar gervitungla sem bera leynilegar upplýsingar yfir landið. Það þarf fjarskiptastöð á jörðu niðri til að geta móttekið þessarar upplýsingar. Í mínum huga er það of mikil tilviljun að Kína sé með rannsóknarmiðstöð einmitt á þeim stað sem hentar best til að sinna þessu eftirliti,“ segir Gregory.
Aðspurður um hvort einhverjar vísbendingar eða sannanir séu fyrir því að Kínverjar hafi notað stöðina til að stunda njósnir segir Gregory að svo sé ekki. „Við þyrftum að hafa aðgang að gögnunum sem stöðin er að vinna með til að geta sagt nákvæmlega til um það og þessi gögn eru örugglega dulkóðuð. Stutta svarið er að við vitum nákvæmlega ekkert um það hvað þeir eru að gera þarna.“ Gregory segir að svipaðar áhyggjur séu uppi varðandi rannsóknarmiðstöð Kínverja á Svalbarða.
Gregory segir að kjarninn i gagnrýni hans sé að Kína þurfi slíkar rannsóknarmiðstöðvar á jörðu niðri til að geta rekið eigið net gervihnatta sem fara yfir norðurhvel jarðar og eftir atvikum stundað eftirlit í gegnum þær með öðrum ríkjum sem einnig reka net gervihnatta sem fara yfir norðurhvelið.
Leigusamningur til 99 ára
Líkt og Heimildin hefur greint frá þá var rannsóknarmiðstöðin opnuð formlega árið 2018. Hún byggir á samstarfssamningi sem Ísland og Kína undirrituðu árið 2013. Miðstöðin er 730 fermetra hús á þremur hæðum þar sem er að finna rannsóknarbúnað sem tekur myndir upp í himinhvolfin og sendir til Kína. Á Kárhóli er einnig íbúðarhús þar sem kínverskir vísindamenn búa í þegar þeir heimsækja rannsóknarmiðstöðina.
Sjálfseignarstofnun sem komið var á laggirnar, sem keypti jörðina á Kárhóli, leigir kínversku heimskautastofnuninni, Polar Research Instituite (PRIC), svo húsnæðið í 99 ár samkvæmt leigusamningi um verkefnið. Samningurinn er frá 2019 og gildir þar til í lok árs 2117. Ástæðan fyrir þessu er meðal annars sú að kínverskar ríkisstofnanir mega ekki eiga jarðir á Íslandi með beinum hætti.
Eitt af því sem er áhugavert við leigutímann á jörðinni er að hann er jafnlangur og sá tími sem Bretland leigði sjálfsstjórnarhéraðið Hong Kong af Kína árið 1898 til 1997. Þetta gerðist eftir að Kína hafði tapað nokkrum stríðum, meðal annars svokölluðum Ópíumstríðum við Bretland, og svæðið varð að breskri nýlendu. Þegar Bretland gerði þennan 99 ára samning við Kína um Hong Kong árið 1898 var í reynd litið svo á að verið væri að semja um bresk yfirráð yfir svæðinu „því sem næst til frambúðar“ eins og breskur embættismaður orðaði það.
Bretland skilaði hins vegar Hong Kong til Kína árið 1997 og er svæðið sjálfsstjórnarhérað í dag sem er með kapítalískt markaðshagkerfi. Hong Kong er þó hluti af Kína en sérstaða svæðisins hefur verið undirstrikuð með orðunum „eitt land, tvö kerfi“ sem er tilgreind í stjórnarskrá Alþýðulýðveldisins. Alræðisstjórnin í Peking er hins vegar alltaf meira og meira að reyna að grafa undan þessu sjálfræði Hong Kong og hafa blossað upp mótmæli í borginni vegna þessa sem þó hafa orðið máttlausari með árunum.
Ísland er því í þeirri stöðu að vera bundið af leigusamningi við Kína um Kárhól í tæp 100 ár, rétt eins og Kína var gagnvart Bretlandi í Hong Kong. Rannsóknarmiðstöðin á Kárhóli er því komin til að vera í allmargar kynslóðir, eða kannski „því sem næst til frambúðar“.
Athugasemdir (4)