Þessi grein birtist upphaflega á Kjarnanum fyrir meira en 5 árum.

Hvað er „Belti og braut“?

Inn­viða- og fjár­fest­inga­verk­efni kín­verskra stjórn­valda er op­ið öll­um ríkj­um og nær nú til norð­ur­slóða.

Hvað er „Belti og braut“?

Eitt verkefni hefur einkennt utanríkisstefnu Kína frá árinu 2013 undir stjórn forsetans Xi Jinping. Það er innviða- og fjárfestingaverkefnið „Belti og braut“ (kínv. 一带一路, e. Belt and Road Initiative). Með Belti og braut er vísað til hinnar fornu Silkileiðar sem tengdi Kína við umheiminn og Xi Jinping vill endurvekja undir formerkjum Beltis og brautar.

Belti og braut, eða „Silkileið 21. aldarinnar,“ skiptist í stuttu máli í svokallaðan silkiveg eða „Belti“ á landi, t.d. í formi lestarteina og hraðbrauta. Hinn hlutinn er svo silkileið á sjó eða „braut,“ t.d. í formi hafna sem auki tengi Kína við umheiminn.

Verkefnið er afar víðfeðmt, en það nær frá Kína til Evrópu, Austur-Afríku auk þess sem það nær einnig til fjölmargra Asíuríkja.

Yfirlýst markmið verkefnisins eru að auka samskipti um stefnumótun milli ríkja, auðvelda viðskipti og verslun, styrkja vegasamgöngur, auka gjaldeyrisviðskipti, auk þess að styrkja samskipti milli þjóða. Því má segja að aukin hnattvæðing og samþætting sé hornsteinn verkefnisins.

Óskýrt hvað fellur undir Belti og braut

Svo virðist sem allt sem kemur innviðum eða fjárfestingum tengt Kína falli nú undir formerki Beltis og brautar. Ekki eru það einungis hafnir, járnbrautir og lestir, heldur einnig allt sem viðkemur netkerfum. Því gæti verið erfitt að greina á milli þess sem áður hafi verið byggt upp eða komið á fót en sé nú sagt vera undir formerkjum Beltis og brautar og svo þess sem var ákveðið frá upphafi að væri hluti af verkefninu.

Myndin sýnir áætlun kínverskra stjórnvalda um Belti og braut.

Eistland skrifaði sem dæmi undir viljayfirlýsingu um þátttöku í Belti og braut og var þá sérstaklega skrifað undir „samning um rafrænan silkiveg“ og „samning um netviðskipti“ í sömu atrennu og skrifað var undir þátttöku í Belti og braut. Því virðast netviðskipti ríkjanna tveggja nú falla undir formerki Beltis og brautar.

Hvað græðir Kína á Belti og braut?

Kínversk stjórnvöld eru undir formerkjum Beltis og brautar að fjárfesta í innviðum annara ríkja til þess að vinna að markmiðunum og auðvelda þar með allan út- og innflutning. Með aukinni innviðabyggingu í bæði nær- og fjærríkjum Kína mun flutningageta aukast. Þar með geti viðskipti Kína við önnur ríki aukist.

Ýmsir fræðimenn hafa bent á að Kína vilji verða tæknivæddara og auka þróun ýmissa héraða sinna. Einkaneyslu þurfi einnig að auka til að halda uppi hagvexti ríkisins og muni þar að auki styrkja gjaldmiðil ríkisins. Aðrir telja að verkefnið sé að mestu strategískt, til að mynda í Indlanshafi.

Stærra net hafna í Indlandshafi mun einnig tryggja Kína aðgengi að sjóleiðum sem er bráðnauðsynlegt fyrir ríki eins og Kína sem byggir sinn efnahag á útflutningi.

Hvað græða þátttökuríki á Belti og braut?

Þátttaka í verkefninu er sem stendur opin öllum ríkjum. Mörg þátttökuríki fagna verkefninu vegna aukinna kínverskra fjárfestinga þar sem mörg hver þeirra hafi þörf á að byggja upp innviði sína, t.d. hafnir, lestarteina, hraðbrautir, flugvelli og svo mætti lengi áfram telja.

Enn fremur gæti það aukið hraða viðskipta á milli þátttökuríkjanna við Kína og önnur lönd. Þar með gæti þátttaka verið löndum til bóta.

Norðurslóðir nú hluti af Belti og braut

Í janúar 2018 gaf Kína út sína fyrstu norðurslóðastefnu. Í henni segjast kínversk stjórnvöld vilja gera norðurslóðir hluta af Silkiveginum á ís (kínv. 冰上丝绸之路) eða Silkivegi norðurslóða. Enn fremur titla kínversk stjórnvöld Kína sem „nærríki norðurslóða“ (kínv. 近北极国家, e. near-Arctic state).

Búist er við aukinni skipaumferð eftir því sem ís bráðnar á norðurslóðum. Það myndi stytta flutningstíma á vörum frá t.d. Kína til Evrópu til muna.

Evrópa og Belti og braut

Alls hafa 17 Evrópulönd skrifað undir viljayfirlýsingu um þátttöku í Belti og braut. Áður var talað um 16+1 löndin í því samhengi, þ.e. þau 16 Mið- og Austur-Evrópuríki sem taka þátt auk Kína (+1). Nú væri þó réttara að tala um 17+1 þar sem nýlega bættist Ítalía í hópinn.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sett fram sína eigin áætlun til þess að bæta samgöngur og innviði í Asíu ásamt því að vera nú komin með erlenda fjárfestingaráætlun í Afríku. Því virðist Evrópusambandið vera orðið að eins konar keppinaut Kína í þessum málefnum.

Umdeilt framtak

Bandaríkin eru eflaust það ríki sem er opinberlega hvað mest mótfallið verkefninu. Bæði varaforseti Bandaríkjanna, Mike Pence, og utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, hafa gagnrýnt framtakið og sagt það varpa ríkjum í skuldagildru. Þar er líklegast verið að vísa til aðstæðna Srí Lanka.

Í suðurhluta Srí Lanka hafa kínversk fyrirtæki einkaleigurétt til 99 ára á Hambantota höfninni. Það er vegna þess að stjórnvöld í Srí Lanka gátu ekki greitt skuld sína við fyrirtækin.

Bandaríkjamenn hafa einnig gagnrýnt skilmála sem ýmsar þjóðir hafi gengist við þar sem kínversk ríkisfyrirtæki standi að byggingunni eða lán undir formerkjum Beltis og brautar með það að skilyrði að kaupa vörur frá kínverskum fyrirtækjum.

Bandaríkin virðast líkt og Evrópusambandið vera að huga að aukinni samkeppni við Belti og braut þar sem komið hefur verið á nýjum lögum um alþjóðlega þróunarfjárfestingar (e. the BUILD Act).

Ísland og Belti og braut

Í viðtali á Hringbraut sagði Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, að íslensk stjórnvöld væru opin fyrir þátttöku í Belti og braut. Hann sagði einnig að verkefnið væri afar árangursríkt. Í svari sínu varðandi gagnrýni Bandaríkjanna á verkefninu svaraði Jin því að Belti og braut hafi skapað tækifæri til framþróunar, grænnar þróunar og að verkefnið skapi ekki skuldagildrur.

Í öllu falli munu kínversk stjórnvöld halda ótrauð áfram að kynna og markaðssetja Belti og braut. Að því mun koma að Ísland þurfi að taka ákvörðun um þátttöku í verkefninu.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár