Sautján stjórnarandstöðuþingmenn vilja að Alþingi feli Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra að skipa starfshóp um heildræna endurskoðun á fjölmiðlamarkaði á Íslandi, sem á að hafa það að markmiði að jafna samkeppnisstöðu fjölmiðla sem starfa á íslenskum markaði, „hvort sem þeir eru íslenskir eða erlendir, í einkaeigu eða eigu ríkisins“, eins og það er orðað í þingsályktunartillögu sem lögð var fram á mánudag.
Fyrsti flutningsmaður hennar er Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar, en aðrir í hópi flutningsmanna koma úr þingflokkum Viðreisnar, Pírata, Samfylkingar og Flokks fólksins.
Samkvæmt því sem segir í tillögunni eiga fulltrúar frá fjölmiðlanefnd, Blaðamannafélagi Íslands, hagfræðideildar Háskóla Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneytis og menningar- og viðskiptaráðuneytinu að fá sæti í starfshópnum.
Samanburður við Norðurlönd, auglýsingar á RÚV og skattlagning erlendra fyrirtækja
Flutningsmenn vilja að starfshópurinn líti sérstaklega til þriggja þátta. Sá fyrsti sem er nefndur er samanburður á rekstarumhverfi einkarekinna miðla á Íslandi í samanburði við önnur norræn ríki. Í því samhengi segir að hópurinn skuli taka afstöðu til þess „hvort sérstakt styrkjakerfi sé best til þess fallið að bæta stöðu fjölmiðlamarkaðarins eða hvort breytingar á sköttum og gjöldum séu hagkvæmari lausn, eða einhvers konar samspil þessara tveggja þátta“. Hópurinn á að meta „hvað sé hagkvæmast fyrir hið opinbera og líta til reynslu annarra norrænna ríkja af slíkum kerfum“ og sömuleiðis leggja „mat á það hvort þörf sé á stuðningi við alla miðla eða hvort hagkvæmara sé að stuðningur afmarkist við smáa, nýja eða svæðisbundna miðla“.
Í annan stað ætti hópurinn að horfa til hagrænna áhrifa þess að takmarka umsvif RÚV á auglýsingamarkaði og líta til þess hvaða áhrif það hefði á rekstur einkarekinna miðla og hins vegar fyrir samfélagið í heild. Einnig ætti starfshópurinn að meta áhrif þeirra breytinga á tekjur RÚV.
Til viðbótar er lagt til að hópurinn skoði hvernig best sé að haga skattlagningu erlendra efnisveitna til samræmis við þau skattalög sem gilda um innlenda miðla, með það að leiðarljósi að jafna samkeppnisstöðu þeirra.
Bútasaumur
Í greinargerð með tillögunni segir að flutningsmenn telji þörf á heildstæðri endurskoðun í málaflokki fjölmiðla og nefnt er að þingmál sem varða fjölmiðlamarkaðinn séu yfirleitt lögð fram sjálfstætt og án tillits til annarra þátta.
„Útkoman verður óhjákvæmilega bútasaumskennt rekstrarumhverfi sem ber ekki með sér heildstæða yfirsýn yfir rekstur á fjölmiðlamarkaði og leysir ekki annars konar vanda sem fjölmiðlar standa frammi fyrir,“ segir í greinargerðinni.
Telja rétt að skoða nýsköpunarstyrki
Þar segir að það fari ekki á milli mála að einkareknir fjölmiðlar standi höllum fæti og að annars staðar á Norðurlöndum sé ekki deilt um hvort styðja eigi við fjölmiðla, heldur hvernig.
„Óumdeilt er að í núverandi starfsumhverfi þeirra sé einhvers konar opinber stuðningur nauðsynlegur. Hann er þó með mismunandi sniði milli ríkja. Þar má nefna að í Noregi nýtur stærsti fjölmiðillinn á hverju svæði ekki stuðnings nema hann falli í flokk smærri fjölmiðla. Í Finnlandi er stuðningur annars vegar veittur prent- og netmiðlum sem eru gefnir út á tungumálum minnihlutahópa og hins vegar á grundvelli nýsköpunar sem er ekki bundin útgáfu heldur miðast að því að koma á fót nýjum miðlum eða þróa nýja þjónustu, lausnir og framleiðsluaðferðir í fjölmiðlun,“ segir í greinargerðinni og bent á að það sem sameini stuðningskerfi allra Norðurlandanna utan Íslands sé nýsköpunarstuðningur, sem ekki sé bundin útgáfu heldur miði að því að koma á fót nýjum fjölmiðlum eða til að þróa þjónustu lausnir og framleiðsluaðferðir.
„Að mati flutningsmanna ætti að kanna kosti slíks fyrirkomulags í stað þess að miða stuðning eingöngu við öflun og miðlun efnis líkt og lagt hefur verið fram til þessa. Stuðningur við nýsköpun í fjölmiðlum er enn fremur til þess fallinn að rétta af samkeppnishallann sem fjölmiðlar sem koma nýir inn á markað standa frammi fyrir gagnvart starfandi fjölmiðlum. Því leggja flutningsmenn til að starfshópnum verði falið að gera sérstakan samanburð á rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi og í öðrum norrænum ríkjum,“ segir í greinargerðinni.
Ef starfshópurinn yrði skipaður, eins og þingmennirnir 17 leggja til, ætti hann að skila tillögum sínum til ráðherra fyrir árslok 2023 og ráðherra falið að innleiða þær.
Heimildin er einn þeirra fjölmiðla sem uppfyllir skilyrði fyrir rekstrarstyrk úr ríkissjóði.
Athugasemdir (1)