Er hægt að ná sátt innan verkalýðshreyfingarinnar og um hvað á sáttin að snúast?
Fjölmargir pistlar og sjónarmið um stöðu hreyfingarinnar og ASÍ hafa birst og langar mér að deila hugleiðingum mínum um þessa stöðu.
Sífellt er talað um sættir og samstöðu án þess að farið sé dýpra í hvar ósættið liggur eða lausnir eða tillögur settar fram sem eitthvað mark er á takandi.
Ein leiðin sem einhverjir hafa kastað fram, til að ná sáttum, er að losna við fólkið sem lætur í sér heyra. Það er jú ein leiðin og sjónarmið útaf fyrir sig. En er það lausn? Finnur ósættið sér ekki alltaf farveg á endanum? Liggur þá lausnin í kurteisislegu samtali aðila á milli við sameiginlegt háborð Þjóðhagsráðs? Eða er þetta eitthvað vandamál yfir höfuð?
Það hafa alltaf verið átök innan hreyfingarinnar, og saga hennar er lituð af því, bæði pólitísk og hugmyndafræðileg. Allar götur frá því að VR fékk inngöngu, með dómi, í Alþýðusambandið hefur félagið sífellt verið að ræða stöðu sína innan þess og aðild. Það hafa önnur landssambönd einnig gert. Iðnfélögin og bakland þeirra hafa spurt þessa spurninga, sjómannafélögin líka. Spurningin er alltaf sú sama. Hvað erum við að fá út úr þessu? Því það eru félögin sem halda starfseminni uppi, með skatti af félagsgjöldum, og eiga auðvitað að velta þessu upp með reglulegum hætti til að framfarir og jákvæðar breytingar geti átt sér stað.
Versta niðurstaðan er að borga og brosa.
En við hvað er fólk svona ósátt og um hvað snýst ósættið. Ósætti og átök hafa litað Alþýðusambandið frá stofnun þess, en líka samstaða og samtakamáttur heildarinnar þegar á reynir. Til að varpa ljósi á ósætti innan hreyfingarinnar er mikil einföldun að halda því fram að þetta snúist bara um persónur og leikendur.
Það er látið að því liggja að ósættið hverfi og að hægt sé að sameina hreyfinguna með því einu að fella formann stærsta stéttarfélagsins. Þetta er auðvitað jafn grunnt og það er galið að halda þessu fram.
Samsetning stéttarfélaga er eins og samfélgið. Við erum ólík og staða okkur er misjöfn eftir því. Hvort sem horft er til tekna eða eigna eða menntunar og starfa þá endurspeglar hreyfingin ólíka hópa samfélagsins vel.
Lýðræðislega kjörið forystufólk stéttarfélaga er ekkert annað en framlenging á vilja félagsfólks þeirra. Málflutningur okkar, sem bjóðum okkur fram til starfa, og stefnur sem liggja þar að baki, tala máli meirihlutans sem kýs.
Þegar ég bauð mig fram til formanns VR árið 2017 hafði ég árum saman gagnrýnt forystu ASÍ. Framboð mitt þá var yfirlýst vantraust á þáverandi forseta ASÍ og forystu þess. Ég átti alls ekki von á því að ná kjöri en fannst rétt að félagsfólk VR fengi valkost um algjöra stefnubreytingu og aðrar áherslur hjá félaginu. Valkosturinn gat varla verið skýrari.
Ástæðan fyrir því að ég taldi litlar líkur á því að njóta brautargengi í formannsframboði mínu er hluti af vanda okkar í hreyfingunni. Því það var nánast enginn hljómgrunnur fyrir gagnrýni minni innan stjórnar VR og trúnaðarráði á þeim tíma, sama var uppi á teningnum á þingum ASÍ.
Auðvitað voru gagnrýnisraddir innan hreyfingarinnar fleiri, raddir sem kölluðu eftir breytingum og gagnrýndu það sama og ég. En innan stjórnar VR og á þingum ASÍ voru raddir okkar mjög jaðarsettar og féllu í grýttan jarðveg.
Það kom mér því verulega á óvart þegar ég náði kjöri sem formaður.
Hreyfingin hafði raunverulega lokað sig inni í bergmálshelli, lokað eyrunum gagnvart fólkinu sem það starfaði í umboði fyrir. Því kosning mín var mjög afgerandi.
Tvær leiðir voru í boði eftir það. Að taka þátt í starfinu á nákvæmlega sömu forsendum og fólkið sem öllu réði innan ASÍ, halla sér aftur í stólnum og verða smá saman hluti af sama vandamálinu og þú gagnrýndir, eða hefja vegferð til breytinga. Stjórn VR stóð í nákvæmlega þeim sporum á þessum tíma. Að vinna með niðurstöðuna eða vinna gegn henni.
Það tók tíma en eftir mikla vinnu náðum við að snúa bökum saman og hefur stjórnarstarfið í VR gengið framúrskarandi vel síðustu ár. En ekki vegna þess að allir eru sammála heldur fundum við verklag og leiðir til að vinna saman, félagsfólki til góðs. Eftir áralöng átök, hörð átök innan VR, tókst okkur að finna leið. Leið þar sem engin sverð voru slíðruð og leið þar sem ekki þurfti að sameinast um lægsta samnefnarann til að komast að niðurstöðu. Að geta unnið með fólki með ólíkar skoðanir og unnið með fólki sem gæti aldrei sýnt þér opinbera velvild eða stuðning. Það reyndist farsælli leið en tilraun til að breyta skoðunum fólks og halda að lausnin liggi í því að allir verði að styðja það sem þú stendur fyrir.
Mögulega er ég læstur inni í sama bergmálshelli nú og hef misst tengingu við sömu grasrót og kaus mig til forystu á sínum tíma. En um það snýst málið, ekki mig persónulega. Hver er vilji félagsfólks? Ég og stjórn félagsins erum framlenging á því. Stjórn VR er og verður alltaf skipuð fólki sem annað hvort styður þig eða ekki. Verður alltaf skipuð fólki með ólíkan pólitískan bakgrunn og sterkar skoðanir.
Að halda því fram eða gefa í skyn að lausnin liggi í því að fullkomin sátt þurfi að ríkja innan VR og hreyfingarinnar eru í besta falli draumórar. Í fyrsta lagi vegna þess að það er nær útilokað að það geti gerst og í öðru lagi mun það enda í sama risastóra og kyrfilega lokuðum bergmálshellinum sem aftur leiðir af sér sama byrjunarreitinn.
Þessu sem ég lýsi hér er grundvallarvandi og helsti styrkur hreyfingarinnar.
Þessi staða verður auðvitað ekki leyst með kurteisislegu „samtali” manna og kvenna á milli heldur þurfa félögin að finna leiðir til að vinna saman út frá öðrum forsendum. Og það er auðvitað bæði hægt og hefur yfirleitt alltaf tekist, það sýna kjarasamningar síðustu ára, sem gerðir hafa verið af ólíklegustu bandalögum stéttarfélaga, við krefjandi aðstæður og innan um hörð innbyrðis átök.
Ég fagna því mjög að hafa fengið mótframboð til formanns VR því verkefnin framundan eru gríðarlega flókin og augljóst öllum að komandi samningar verða þeir mikilvægustu í áratugi og mun niðurstaðan ráða miklu um lífskjör okkar í dag og til framtíðar. Til þess þarf formaður umboð. Skýrt umboð til að leiða félagið.
Það sem ég sakna helst í kosningabaráttunni, bæði frá frambjóðendum sem tala um sátt og samtakamátt, og stuðningsfólki þess, er hvernig á að ná því markmiði fram? Hvernig náum við árangri?
Hvernig ætlar formaður VR að leysa ágreining innan Starfsgreinasambandsins? Hvernig ætlar formaður VR að fá Villa og Sollu til að tala saman og sættast? Hvernig ætlar formaður VR að leysa ósættið innan Iðnfélaganna? Og hvernig ætla frambjóðendur til forystu stjórnar og formanns VR að fá allt þetta fólk til að vinna saman og fara sameinuð fram?
Með kurteisislegu samtali? Eða með árásum og dylgjum?
Svarið er auðvitað ekki einfalt en lausnin er fyrir framan okkur.
Ég vil frekar verkalýðshreyfingu með lífsmarki og hjarta en duglausa hreyfingu sem ekki getur sameinast um annað en stöðnun og aðgerðarleysi, sem væri algjör óþarfi því við erum með þannig Ríkisstjórn.
Í eftirmálum hrunsins var verkalýðshreyfingin samofin valdablokk stjórnmálanna. Samdauna atvinnulífinu um völdin yfir lífeyrissjóðunum. Eftir áralöng teboð og vinaleg samtöl með sérhagsmunaöflum og stjórnmálunum gat hreyfingin sig hvergi hreyft án þess að stíga á tærnar á sjálfri sér.
Hún lokaði sig af í bergmálshellinum!
Ef einhver saknar þess tíma þegar duglaus og meðvirk verkalýðshreyfingin gekk í hringi með tebolla í annari og blýant í hinni þá geta þeir tímar auðveldlega komið aftur. Árin eftir hrunið voru þau svörtustu í sögu hreyfingarinnar. Og dugleysi hennar var afleiðing innri sátta sem enginn hróflaði við. Með því að gera eins og núverandi ríkisstjórn, að búa til breiðustu sáttina um sem allra minnst.
Hreyfingin var á þeim stað þegar breytingarnar hófust, þegar neisti og lífsmark fór að kvikna aftur innan stéttarfélaganna eftir áralanga deyfð.
Stóra vandamálið er að þessi neisti og kraftur hefur ekki náð að festa eld í Alþýðusambandinu. Því miður. En breytingar af þessu tagi taka auðvitað tíma og slíkum breytingum fylgja átök. Átök milli þeirra sem vilja breyta og þeirra sem hræðast þær og geta ekki með nokkru móti sýnt fólkinu, sem fengið hefur sterkt félagslegt umboð til breytinga, virðingu eða skilning. Lesið í aðstæður eða virt vilja félagsfólksins sem kallar eftir breytingum.
Alþýðusambandið er eins og olíuskip sem siglir með straumi Salek hugmyndafræðinnar um norræna nálgun á samvinnu ólíkra hópa. Hugmyndafræði sem hefur komið verkalýðsbaráttu á Norðurlöndum í skelfileg vandræði. Félagsaðild er í frjálsu falli og gul, atvinnurekenda miðuð, stéttarfélög eru í mikilli sókn. Þetta snýst allt í hringi því að um leið og krafturinn dvínar og við trúum því að vinaleg samtöl við sérhagsmunaöflin skili okkur bestri niðurstöðu, þá er voðinn vís. Þróunin á Norðurlöndunum ætti að vera okkur víti til varnar. Og hnignun verkalýðsbaráttunnar í Bandaríkjunum og Bretlandi hefur haft vægast sagt skelfilegar afleiðingar og skilað verkalýðsbaráttuna eftir á byrjunarreit, þar er viðspyrnan sem betur fer hafin.
En við þurfum ekki að fara á botninn til að spyrna okkur upp eins og víða þekkist. Og eigum frekar að forðast þá vegferð sem orsakað hefur hnignun baráttunnar annars staðar. Við eigum að nýta kraftinn og fagna honum en ekki beisla hann niður, ekki telja okkur trú um að allt verði gott ef við erum þæg og góð og pössum okkur á því að nota inniröddina.
Tækifærin felast í kraftinum og tækifærin leynast í fjölbreytileikanum, og ósættinu. Ólík sjónarmið og stundum innbyrðis átök eru bara í góðu lagi og nauðsynleg til að ná hjartslætti hreyfingarinnar upp úr hvíldarpúlsi endrum og eins, sem veitir ekki af þegar á úthaldinu þarf að halda.
Og við munum þurfa á úthaldið í komandi kjaraviðræðum. Ég vil jafnvel ganga svo langt að hreyfingin sé í sínu besta formi, eða hefur ekki verið í betra formi í áraraðir. Hún er klár í stutta og langa spretti og gæti tekið maraþon þess á milli. Það eru ekki mörg ár síðan að verkalýðshreyfingin hefði ekki getað labbað upp lágreistan stiga án þess að hvílast í öðru hvoru skrefi og kasta mæðinni.
Við sem höfum hangið á stýri ASÍ í von um að það beygji af leið, höfum þurft að hafa mikið fyrir því. Leiðin er í sjónmáli og við vitum hver stefnan þarf að vera. Vinna við stefnubreytingu er hafin og gengur vel. Já hún gengur bara alveg ágætlega því hún snýst ekki um sama stefnuleysið og áður. Það er langt til lands en við munum á endanum komast á leiðarenda.
Þrátt fyrir ágreining og átök er vel hægt að vinna saman og ná árangri. Allt tal um sættir og samtakamátt er gott og gilt en hún næst aldrei með því að fletja út fjallið sem þú ætlar að klífa, heldur nýta kraftinn og og styrkleika okkar til að skila öllum á toppinn.
Góð vinna hefur farið fram eftir ASÍ þingið um hvernig vinna eigi úr flókinni stöðu Alþýðusambandsins og gengur sú vinna vel. Vinnufundir hafa verið haldnir og hugmyndir settar fram hvernig virkja megi ASÍ svo það verði öflugra þrýstiafl.
Ég hef myndað farsæl bandalög með Eflingu, SGS félögum og nú síðast með samfloti Iðn- og tæknigreina. Samband mitt við formenn flestra félaga er gott og traust.
En ekki dettur mér í hug að halda því fram að ég eða aðrir geti notað traust tengslanet í einhver samtöl um sættir. Staðan er of flókin til þess. Tala nú ekki um að afskipti formanna annara stéttarfélaga á vanda hinna, hefur hingað til ekki reynst farsæl leið til sátta eða lausna. Ef þetta er á annað borð eitthvað vandamál.
Verkalýðshreyfingin hefur ekki verið í betra formi í áraraðir. Við munum mæta sameinuð til leiks í yfirstandandi kjaraviðræðum. Ekki af því að þessi eða hinn er svo góður í að sameina. Heldur vegna þess að við verðum að gera það. Það eru ekki aðrir valkostir í stöðunni.
Um það erum við öll sammála.
Höfundur er formaður VR.
Athugasemdir (2)