Það er eðlilegasti hlutur í heimi að einstaklinga greini á um kosti þess og galla fyrir Ísland og önnur lönd að ganga í Evrópusambandið.
Þetta stafar af því að spurningin um aðild er ekki af efnahagslegum toga nema í aðra röndina heldur er hún einnig pólitísk. Efnahagságreininginn er með góðum vilja hægt að leysa með rökum reistum á rannsóknum, en þannig verður ágreiningur um stjórnmál aldrei til lykta leiddur.
Við skulum byrja á að rifja upp og reifa helztu rökin með og á móti aðild að ESB.
Efnahagsrök
Hér eru fimm hagrænar röksemdir fyrir aðild að ESB sem flestir hljóta að geta fallizt á þar eð þær verða ekki með góðu móti vefengdar með rökum.
-
Viðskipti. Ísland á langmest viðskipti við ESB-lönd, meiri viðskipti við þau miðað við landsframleiðslu en flest önnur ESB-lönd eiga við granna sína, og hefur hag af að rækta og treysta þessi viðskipti.
-
Viðskiptakostnaður. Aðild að ESB fylgir minni kostnaður í viðskiptum milli Íslands og annarra evrulanda og minni óvissa um gengi sem myndi gagnast íslenzkum fyrirtækjum sem skipta við önnur evrulönd og þá einnig launþegum. Upptaka evrunnar myndi draga úr landlægri verðbólgu og lækka vexti þar eð gengisfall krónunnar heyrði þá sögunni til.
-
Erlend fjárfesting. Meiri erlend fjárfesting myndi laðast að Íslandi ef Íslendingum tekst að ávinna sér aftur traust útlendinga eftir hrunið 2008. Hrein erlend fjárfesting á Íslandi nam innan við 0,5% af landsframleiðslu 2021 borið saman við 3% til 8% annars staðar um Norðurlönd. Erlend fjárfesting á Íslandi nam 2,7% af landsframleiðslu að jafnaði 1970-2007 borið saman við -0,3% 2008-2021. Erlendir fjárfestar misstu áhugann á Íslandi.
-
Aðgangur. Íslenzk fyrirtæki myndu hagnast á greiðari aðgangi að stórum innri markaði ESB líkt og til dæmis 50 fylki Bandaríkjanna hagnast á frjálsum viðskiptum þar innan lands. Í efnahagslægðum ættu Íslendingar greiðari aðgang að lánum í öðrum evrulöndum til að fleyta sér yfir tímabundna erfiðleika, aðgang sem Ísland naut ekki í hruninu 2008 og þurfti því á bröttu gengisfalli krónunnar að halda til að brúa bilið. Og heimilin myndu njóta góðs af betri og ódýrari mat og drykk.
-
Samkeppni. Greiðari viðskipti myndu leiða til meiri samkeppni og hags af henni og skapa þannig skilyrði til að skera upp herör gegn fákeppni og meðfylgjandi okri og sjálftöku.
Framangreindar fimm efnahagsröksemdir styðjast við órækar staðreyndir og eru í þeim skilningi hafnar yfir ágreining. Ísland nýtur nú þegar þessara kosta að ýmsu leyti í gegnum aðildina að EES-samningnum frá 1994, nema evruna vantar enn og þann hagsauka ásamt hugsanlegum göllum sem henni myndu fylgja, og erlend fjárfesting hefur ekki enn náð sér á strik eftir hrun.
Stjórnmálarök
Hér eru fimm stjórnmálaröksemdir til viðbótar og um þær geta menn deilt fram og til baka þar eð ekki er hægt samkvæmt eðli máls að skera úr gildi þeirra.
-
Valddreifing. Innganga í ESB með evrunni og öllu saman myndi dreifa valdi frá íslenzkum stjórnmálamönnum í hendur ESB. Sumir telja þetta galla með þeim rökum að íslenzkir stjórnmálamenn megi ekki undir nokkrum kringumstæðum afsala sér völdum, hvorki til kjósenda (!) né Brussel. Aðrir telja þetta kost í ljósi þess hversu stjórnmálamönnunum hafa verið mislagðar hendur, til dæmis við stjórn peningamála, og líta á krónuna sem kúgunartæki, enda gera næstum 300 íslenzk fyrirtæki bækur sínar upp í evrum þótt þau greiði starfsmönnum sínum laun í léttvægum krónum.
-
Afsal fullveldis. Íslendingar þyrftu að afsala sér sjálfstæðri stefnu í peningamálum og gætu því ekki notað gengisfellingar með gamla laginu til að laga þjóðarbúið að ytri eða innri áföllum eins og gert var til dæmis eftir hrunið. Sumir telja slíkt fullveldisafsal frágangssök, en aðrir skoða það sem framför í ljósi þess að krónan hefur misst 99,95% af verðgildi sínu gagnvart dönsku krónunni frá 1939. Sumir segja: Ef hagsveiflan á Íslandi er ekki í takt við sveifluna í evrulöndum, þá hentar sameiginleg peningastefna evrulandanna ekki Íslendingum. Það er rétt, en aðrir segja á móti: Hagsveiflan á Íslandi hefur í krafti aukinna viðskipta líkzt sveiflunni útí í Evrópu meira og meira með tímanum, enda nemur sjávarútvegur nú ekki nema 7% af landsframleiðslu og innan við fimmtungi útflutningstekna þjóðarbúsins. Ekki er fullveldisafsalið talið vera frágangssök í Færeyjum sem eru evruland í reynd þótt eyjarskeggjar eigi mun meira undir sjávarútvegi en Íslendingar. Afsal fullveldis er ekkert tiltökumál eða réttara sagt: það er ekkert tiltökumál að deila fullveldi sínu með öðrum. Í hjónabandi deila hjónin fullveldi sínu hvort með öðru. Aðrir segja: En fullveldið er heilagt! Ég segi: Hjónabandið líka, enda segjumst við ganga í „heilagt hjónaband“. Hjónabönd eru eigi að síður uppsegjanleg líkt og aðild að ESB, enda gengu Grænlendingar út 1985 og Bretar 2020.
-
Íþyngjandi regluverk. Stofnanir ESB halda uppi öflugu aðhaldi að og eftirliti með fyrirtækjum og fólki á svæðinu, ekki bara fjármálaeftirliti og samkeppniseftirliti, heldur einnig mannréttindavörzlu á vettvangi Mannréttindadómstóls Evrópu. Sumum finnst slíkt eftirlit vera íþyngjandi og rifjast þá upp fleyg ummæli Václavs Havel Tékklandsforseta: „Engum nema glæpamönnum getur stafað ógn af inngöngu í ESB.“
-
Land og sjór. Stuðningur almannavaldsins við landbúnað á Íslandi myndi minnka, rétt er það, þar eð sameiginleg búverndarstefna ESB (e. CAP, Common Agricultural Policy) myndi gefa minna í aðra hönd en landbúnaðarstefnan hér heima. Aðrir segja: Nei, styrkir til Íslands sem svæðis á útjaðri Evrópu myndu vega tapið upp og vel það. Þess vegna höfðu finnskir bændur og flokkur þeirra, Miðflokkurinn, forgöngu um aðild Finnlands að ESB 1995. Íslendingar þyrftu að beygja sig undir sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB (e. CFP, Common Fisheries Policy), rétt er það einnig, og myndu þannig missa fulla stjórn á fiskveiðum á Íslandsmiðum. Aðrir segja: Aðgangur að markaði er annað en aðgangur að auðlindum. Við getum leyft erlendum útgerðum að keppa við íslenzkar útgerðir á uppboðsmarkaði fyrir veiðiheimildir auk þess sem líklegt má telja að ESB virði hefðarrétt Íslendinga til veiða á eigin fiskimiðum. Leiðin til að komast til botns í málinu er að semja um lausn eins og Norðmenn gerðu á sínum tíma og leggja samninginn síðan í dóm kjósenda svo sem Alþingi lagði upp með 2009.
-
Meðal vina. Sumir telja sjálfsagt að Ísland marki sér stöðu meðal vinaþjóða innan vébanda ESB alveg eins og við eigum heima í SÞ og NATO hvað sem öllum efnahags- og stjórnmálarökum líður. Aðrir líta svo á að úr því að Norðmenn og Svisslendingar standa keikir utan ESB geti Íslendingar gert það líka. Þegar Íslandi bauðst að gerast stofnaðili í NATO 1949 settust menn ekki niður til að meta aðildina til fjár. Hermangið kom síðar. Sumir telja einsýnt að ESB-aðild myndi ógna fullveldi Íslands, sérstöðu okkar og menningu. Svarið við þessu er: Hvað finnst til dæmis Dönum? – sem hafa verið í sambandinu í meira en hálfa öld. Finnst þeim að aðildin hafi ógnað fullveldi sínu, sérstöðu þeirra og menningu? Flestir Danir myndu svara spurningunni neitandi.
Fyllilega er eðlilegt að menn greini á um þessar stjórnmálaröksemdir. Enda hafa flest ESB-lönd kosið að halda þjóðaratkvæðagreiðslur um aðild að ESB nema þau lönd í Suður- og Austur-Evrópu þar sem vitað var að yfirgnæfandi hluti kjósenda var hlynntur aðild svo að þjóðaratkvæði var talið óþarft og ákvörðun þings látin duga.
Breyttar forsendur?
Innrás Rússa í Úkraínu fyrir ári hefur þjappað Evrópuþjóðunum saman, svo mjög að Finnar og Svíar búast nú til inngöngu í NATO. Austurríkismenn eru ekki í sömu hugleiðingum, enda er staða þeirra frábrugðin stöðu Finna og Svía að því leyti að hlutleysi Austurríkis er bundið í stjórnarskrá landsins frá 1955 auk þess sem milli Austurríkis og Rússlands liggja nú mörg NATO-lönd, þar á meðal Tékkland, Slóvakía, Ungverjaland og Slóvenía auk Póllands og Rúmeníu. Svisslendingar njóta hliðstæðrar landfræðilegrar verndar.
Nú virðist einnig geta dregið til tíðinda í Noregi. Ný skoðanakönnun í Aftenposten sýnir að 67% kjósenda styðja nú inngöngu Norðmanna í ESB og 33% eru andvíg inngöngu. Svo virðist því sem meiri hluti Norðmanna sjái sér hag í að þrýsta sér þéttar upp að ESB-löndunum við þessar óvissu kringumstæður. Ætla má að svipað muni gerast á Íslandi.
Forsagan
Saga Evrópumálsins á Íslandi er að ýmsu leyti furðuleg. Eftir að Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Gallup og fleiri tóku eftir 1990 að kanna viðhorf kjósenda til aðildar að ESB sýndu kannanir þeirra að naumur en frekar staðfastur meiri hluti kjósenda var hlynntur aðild. Enginn stjórnmálaflokkur á Alþingi mátti þó heyra aðild nefnda, ekki fyrr en Samfylkingin tók málið á sína stefnuskrá nokkru eftir aldamótin síðustu og beitti sér síðan fyrir aðildarumsókn af hálfu meiri hluta Alþingis 2009.
„Samningsstaða Íslands gagnvart ESB væri sterkari ef Alþingi staðfesti fyrst nýju stjórnarskrána sem mælir fyrir um óskoraða þjóðareign á sameignarauðlindinni í sjónum.“
Hrunverjar sáu sér leik á borði. Þeir reyndu að dreifa athyglinni frá eigin ábyrgð á hruninu með því að skella skuldinni á útlendinga, jafnvel á Norðurlöndin sem fjármögnuðu að miklu leyti björgunaraðgerðir AGS á Íslandi eftir hrunið. Seðlabankinn, ríkisstjórnin og forseti Íslands leituðu hjálpar í Rússlandi og Kína til að reyna að koma sér undan bjargráðum AGS sem reyndust afburðavel. Við þessar aðstæður minnkaði stuðningur kjósenda við inngöngu í ESB og umsóknin frá 2009 var lögð á ís 2015. Lögð á ís, segi ég, ekki dregin til baka, því að utanríkisráðherra getur ekki upp á sitt eindæmi dregið til baka umsókn Alþingis um aðild Íslands að ESB eins og ráðherrann sagðist hafa gert 2015.
Og nú hafa mál skipazt þannig að margt bendir til hliðstæðrar kúvendingar almenningsálitsins hér heima líkt og gerzt hefur í Noregi. Orðið kúvending á að sönnu við um Noreg, þar sem aðild að ESB var hafnað tvisvar í þjóðaratkvæðagreiðslum, 1972 og 1994, en orðið afturhvarf á betur við um Ísland því að meiri hluti kjósenda var hlynntur inngöngu fram að hruni og fékk því ekki að greiða atkvæði um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og Finnar, Norðmenn, Svíar og Austurríkismenn fengu að gera 1994. Í aðildarumsókn Noregs í síðara skiptið komu ekki upp nein vandamál í tengslum við yfirráð Norðmanna yfir olíuauðlindum sínum. Hins vegar voru uppi vandamál varðandi fiskinn, enda um fjölda deilistofna að ræða. Samningar tókust, en þeim var sem sagt hafnað í þjóðaratkvæði 1994.
Framhaldið
Ef Alþingi endurræsir aðildarumsókn Íslands frá 2009 þarf að ljúka þeim samningum sem horfið var frá í miðjum klíðum 2013 og bera þá síðan undir þjóðaratkvæði. Samningsstaða Íslands gagnvart ESB væri sterkari ef Alþingi staðfesti fyrst nýju stjórnarskrána sem mælir fyrir um óskoraða þjóðareign á sameignarauðlindinni í sjónum. Alþingi getur hvort sem er ekki með góðu móti boðið kjósendum til þjóðaratkvæðis um inngöngu í ESB upp á önnur býti en þau að þingið virði fyrst niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um nýju stjórnarskrána 20. október 2012.
Athugasemdir (1)