Haraldur Þorleifsson hefur fengið það staðfest að hann starfi ekki lengur hjá Twitter. Hann fékk það staðfest níu dögum eftir að lokað var fyrir aðgang hans að tölvupósti og skjáborði í tölvu sinni.
Haraldur fékk loks staðfestingu á þessu eftir að hafa merkt Elon Musk, stærsta eiganda samfélagsmiðlafyrirtækisins, í færslu á honum og kallað eftir svörum. Hann segir að Musk hafi hlegið að sér þegar þeir loks náðu saman. Næstu skref, að sögn Haraldar, eru að komast að því hvort Twitter muni borga honum það sem eftir stendur af samningi hans við fyrirtækið. „Eða mun @elonmusk, einn ríkasti maður í heimi, reyna að komast undan því að greiða? Fylgist með!!“
Fékk ekki svör og ákvað að merkja Musk í færslu
Í lok febrúar var greint frá því í The New York Times að Haraldi hefði verið sagt upp störfum hjá Twitter ásamt 200 öðrum starfsmönnum fyrirtækisins. Uppsagnahrinan var sú nýjasta af mörgum, en alls hefur starfsmönnum Twitter verið fækkað úr um 7.500 í um tvö þúsund síðan að Elon Musk keypti fyrirtækið.
Í frásögn The New York Times kom fram að þeim sem sagt var upp hefðu komist að því að þau væru ekki lengur með starf þegar þau komust ekki lengur inn í tölvupóstinn sinn og hafði ekki aðgang að skjáborðinu í tölvunni sinni.
Haraldur tjáði sig lítið um málið framan af en gaf í skyn að hann væri hættur og birti mynd í byrjun mánaðar á Twitter þar sem hann sagðist klæddur fyrir atvinnuleit. Haraldur tiltók nokkrum dögum síðar að hann þyrfti að undirstrika, að beiðni lögmanna sinna, að um grín hefði verið að ræða.
Í gær sendi Haraldur svo skilaboð beint á Elon Musk í gegnum Twitter. Þar sagði hann að mannauðsstjóri Twitter hafi ekki getað staðfest við sig hvort hann væri enn í vinnu eða ekki og að Musk hefði ekki svarað tölvupóstum frá sér með sömu spurningu. „Ef nægilega margir retweeta þá svararðu mér kannski hér,“ skrifaði Haraldur á ensku.
Musk hló að honum
Í nótt greindi Haraldur frá því á Twitter að Musk hafi svarað honum, svona nokkurn veginn. Hann hefði spurt Harald að því að hverju hann hefði verið að vinna hjá Twitter og þegar Haraldur hafi svarað honum hafi Musk hlegið. „Til að gæta allrar sanngirni þá skil ég það. Ég get verið nokkuð fyndinn,“ skrifaði Haraldur.
Í kjölfarið hafi mannauðsstjóri Twitter sent Haraldi tölvupóst og sagt honum að hann væri ekki lengur með vinnu. Í færslu Haraldar segir hann frá því að sami mannauðsstjóri hafi tvívegis áður ekki getað svarað því hvort svo væri.
Haraldur segir að það sé sér alveg að meinalausu að hafa verið sagt upp. Það gerist ítrekað að fyrirtæki segi upp fólki og þau hafi rétt til þess. „Þau segja fólki oftast frá því en það virðist valkvætt hjá Twitter um þessar mundir.“
Næstu skref, að sögn Haraldar, eru að komast að því hvort Twitter muni borga honum það sem eftir stendur af samningi hans við fyrirtækið. „Eða mun @elonmusk, einn ríkasti maður í heimi, reyna að komast undan því að greiða? Fylgist með!!“
Allir skattar greiddir á Íslandi
Um töluverðar upphæðir gæti verið að ræða. Það vill nefnilega þannig til að Haraldur var ekki ráðinn til starfa hjá Twitter eftir venjubundnum leiðum heldur keypti Twitter fyrirtæki sem hann stofnaði árið 2014 og stýrði, íslenska tækni- og hönnunarfyrirtækinu Ueno, í byrjun árs 2021. Dantley Davis, þáverandi hönnunarstjóri Twitter, greindi sjálfiur frá kaupunum á samfélagsmiðlinum.
Í áðurnefndri umfjöllun The New York Times var haft eftir þremur heimildarmönnum að uppsagnir fólks eins og Haraldar geti reynst Twitter dýrar. Þegar Ueno hafi verið keypt hafi Haraldur fengið greiðslu og Twitter þurfi nú að greiða stofnandanum út bónusa og kaupa af honum hlutabréf.
Ueno hafði áður verið með starfsemi í San Francisco, New York og Los Angeles, auk skrifstofu í Reykjavík, og stækkað hratt. Fyrirtækið velti um tveimur milljörðum króna á árinu 2019 og hafði sinnt verkefnum fyrir fjölmörg stórfyrirtæki, til dæmis Google, Apple og Facebook, auk AirBnB, Slack, Uber og fjölda annarra.
Skömmu síðar greindi Haraldur frá því í færslu á Twitter að allir skattar vegna sölu fyrirtækisins til Twitter yrðu greiddir á Íslandi. Þá fór hann fram á það við Twitter að kaupverðið yrði greitt sem launagreiðslur en með því hámarkaði hann þá skatta sem hann borgaði af sölunni. Þetta var þvert á alla skattaráðgjöf sem hann fékk.
Haraldur sagðist hafa tekið þessa ákvörðun þar sem hann hafi fæðst á Íslandi og að foreldrar hans hafi verið lágtekjufólk. Auk þess glími hann við alvarlega fötlun, en hann er með meðfæddan vöðvarýrnunarsjúkdóm sem gerir það að verkum að Haraldur hefur notast við hjólastól frá 24 ára aldri. „En þar sem þetta land býður upp á fría skóla og fría heilbrigðisþjónustu þá gat ég ég dafnað,“ sagði Haraldur í stöðuuppfærslunni.
Hann fór svo í viðtal í Kastljósi og greindi nánar frá þessari ákvörðun. Þar sagði Haraldur frá því að þegar hann hafi áttað sig á því að mögulegt væri að greiða skatta af sölunni hérlendis þá hafi hann átt tíu sekúndna samtal við eiginkonu sína „þar sem ég sagði „heyrðu ég var að komast að því að við getum borgað alla skatta á Íslandi, eigum við ekki að gera það? og hún sagði jú.“
Borgaði næstum 600 milljónir króna í skatta á einu ári
Fyrir vikið var Haraldur í öðru sæti á lista yfir launahæstu Íslendingana á árinu 2021. Samkvæmt hátekjulista Stundarinnar, sem nú er hluti af Heimildinni, greiddi hann 592,4 milljónir króna í skatta á árinu 2021, sem þýðir að mánaðarlaun hans námu að meðaltali rúmum 102 milljónum króna samkvæmt greiddu útsvari.
Í viðtali við annan af fyrirrennurum Heimildarinnar sagði Haraldur að eðlilegt væri að hátekjufólk borgi hærra hlutfall af tekjum í skatta og að fólk með lægri tekjur beri lægri byrðar. „Það er mikill munur á því að borga 40 prósent af 100 þúsundkalli eða 40 prósent af milljón. Við þurfum öll að borða, eiga húsaskjól, komast á milli staða og svo framvegis. Allar skerðingar á lágum launum skera inn í grunnþarfir sem við eigum öll rétt á.“
Haraldur var valinn manneskja ársins í fyrra víða í íslenskum fjölmiðlum, meðal annars fyrir að leiða verkefnið „Römpum upp Ísland“ sem hefur það markmið að fjármagna uppsetningu hjólastólarampa á alls 1.500 stöðum á Íslandi.
Athugasemdir