Arnór Sigurjónsson, fyrrverandi skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu og sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum til 40 ára er hættur störfum hjá hinu opinbera. Hann er kominn á eftirlaun úr ríkissjóð. Frá okkur skattgreiðendum. Af þessu tilefni biður hann um viðtal í Morgunblaðinu og fær það. Þar segir hann meðal annars:.
„Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við Íslendingar þurfum að taka öryggismál fastari tökum, en sökum fyrri starfa hef ég ekki getað tjáð mig um það opinberlega. Nú er ég hins vegar í þeirri stöðu að geta leyft mér að viðra mínar skoðanir.“
Mogginn segir áfram: „Hann hefur nýlokið við ritun bókar hvar fjallað er um nauðsyn þess að koma á her á Íslandi. Ber hún heitið Íslenskur her, breyttur heimur – nýr veruleiki ...“
Það virðist ekki vera tekið út með sældinni að vera opinber starfsmaður með tignargráður; þú máttu ekki segja skoðun þína. Þú verður að byrgja hana inni með þér. Þú verður að þegja. Svo rennur stundin upp; fjörutíu ár eru liðin. Þú mátt tala hreint út. Það er gott að vera hættur. Þú ert frjáls eins og plastpoki sem sveiflast um í roki.
Hugmynd Arnórs, hins nýfrjálsa embættismanns, er að stofna íslenskan 1.000 manna her, skipaðan atvinnuhermönnum, sem ættu að vera „með staðsetningu á öryggissvæði Keflavíkurflugvallar og Akureyri og 500 manna varaliði. Gera má ráð fyrir að stofnun íslensks hers taki sex til sjö ár. Menntun og þjálfun yfirmanna, aðstöðu undirbúningur og öflun búnaðar hefur áhrif á þetta. Íslenskur her myndi einnig kalla á varnarmálaráðuneyti en helstu verkefni þar yrðu m.a. yfirstjórn öryggis- og varnarmála gagnvart stjórnvöldum og Alþingi, stefnumörkun við stjórn hersins, gerð varnaráætlana og fleira.“
Meðan ég var að lesa þetta, frjáls af að tala og skrifa, var mér hugsað til Úkraínu dagsins í dag, til Danmerkur, Póllands og Frakklands fyrir seinni heimsstyrjöld og mundi þá ekki betur en að öll þessi lönd væru og hefðu verið með atvinnuher og varnarmálaráðuneyti áður en stríðin hófust. En, eigi að síður voru þau öll hernumin.
Og hvað svo?
Ættu menn ekki bara að klappa fyrir Arnóri, vera fegnir að hann skuli vera hættur að vinna og óska honum til lukku með með málfrelsið og bókina.
Höfundur er rithöfundur.
Ef Úkranína væri ekki með her núna þá væri hún ekki lengur til.