Stuðningur við ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur aldrei mælst minni í Þjóðarpúlsi Gallup, en 42 prósent segjast nú styðja ríkisstjórnina, samkvæmt því sem fram kemur á vef RÚV. Þegar ríkisstjórnin tók við síðla árs 2017 mældist stuðningur við hana 74 prósent og eftir að hún endurnýjaði stjórnarsamstarfið haustið 2021 mældist hann 62,2 prósent. Síðan þá hefur hann hríðfallið.
Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna mælist nú 40,1 prósent sem myndi skila þeim um 26 þingmönnum. Þeir eru því langt frá því að mælast með þann 32 manna þingmannameirihluta sem þarf til að vera með yfirhöndina á Alþingi. Í síðustu kosningum fengu flokkarnir þrír: Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri græn 54,3 prósent atkvæða og 37 þingmenn. Þeir hafa því tapað 14,2 prósentustigum og ellefu þingmönnum á því tæplega einu og hálfu ári sem liðið er af kjörtímabilinu.
Mestu hefur Framsóknarflokkurinn tapað, eða 6,5 prósentustigum. Fylgi flokksins mælist nú 10,8 prósent. Vinstri græn hafa tapað 5,8 prósentustigum og mælast með einungis 6,8 prósent fylgi. Það er þriðji mánuðurinn í röð sem fylgi flokks forsætisráðherra mælist svo lágt, en um er að ræða lægsta fylgi sem Vinstri græn hafa mælst með í könnunum Gallup, sem ná aftur til ársins 2004.
Sjálfstæðisflokkurinn er sá stjórnarflokkur sem heldur best á fylgi sínu, en það mælist nú 22,5 prósent. Það er tæpum tveimur prósentustigum undir kjörfylgi og yrði versta niðurstaða flokksins í sögunni ef hún kæmi upp úr kjörkössunum. Þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn misst stöðu sína sem stærsti flokkur landsins samkvæmt könnunum á undanförnum mánuðum.
Samfylkingin stærst annan mánuðinn í röð
Samfylkingin mælist nú stærsti flokkur landsins annan mánuðinn í röð í Þjóðarpúlsi Gallup. Fylgi flokksins mælist nú 24 prósent og dalar lítillega milli mánaða. Samfylkingin mældist stærsti flokkur landsins í fyrsta sinn síðan 2009 í síðasta mánuði.
Fylgi flokksins hefur farið hratt upp á við eftir að Kristrún Frostadóttir tilkynnti um formannsframboð í Samfylkingunni í ágúst 2022, en hún var kjörin formaður flokksins í október. Alls mælist Samfylkingin nú með 14,1 prósentustigum meira fylgi en flokkurinn fékk í kosningunum í september 2021. Samfylkingin hefur því bætt við sig nánast sama fylgi og ríkisstjórnarflokkarnir hafa tapað á kjörtímabilinu sem myndi skila henni 17 þingmönnum, eða ellefu fleiri en hún hefur nú.
Tveir aðrir flokkar utan Samfylkingarinnar hafa bætt við sig fylgi á yfirstandandi kjörtímabili. Píratar mælast með 12,1 prósent og Sósíalistaflokkur Íslands með fimm prósent.
Fylgi Viðreisnar mælist 7,6 prósent, sem er lítillega undir kjörfylgi, og Flokkur fólksins mælist með 5,6 prósent, sem er 3,2 prósentustigum minna en flokkurinn fékk í september 2021. Þá mælist fylgi Miðflokksins 5,5 prósent.
Könnunin var gerð dagana 1.–28. febrúar 2023 og voru einstaklingar í úrtaki valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup. Úrtakið var 9.517 manns en þátttökuhlutfall 49,6%. Könnunin var netkönnun.
Athugasemdir