Lífið er á ótal vegu og vegirnir sem við fetum margir og misjafnir. Það er svo merkilegt hvað mannsbörnin geta ferðast með ólíkum leiðum þessa ævintýraslóð. Stundum hef ég fengið að sitja þétt á rassgatinu og njóta ferðalagsins og líka verið í þeirri stöðu að halda á ólmandi hjarta mínu yfir háskalegu hengiflugi. Hið innra og hið ytra er þetta sífelld óvissuferð.
Í fyrndinni vann ég á skemmtiferðaskipi og fékk að sigla með því hringinn í kringum heiminn. Á þessum árum var ég ekki góð við sjálfa mig, þó ég taki ekki sterkar til orða. Fram að því hafði mig alltaf dreymt um að ferðast. Í huga mínum var það alfa og omega alls sem var. Að verða sigld kona. Kona sem átti heiminn í frumunum, því hún hafði séð hann og reynt. En þegar mig dreymdi um að ferðast var ég alltaf einhver önnur. Um leið og heimdraganum sleppti myndi losna úr læðingi frjáls kona, full af sjálfsást og ævintýraþrá. Einn stormasaman dag á ólgandi úthafinu sigldi ég í strand. Í litlu káetunni minni með augun flóandi í tárum varð ég fyrir opinberun. Það var alveg sama hversu marga kílómetra ég færi. Hversu hratt ég færi. Í hvaða heimsálfu ég endaði. Ég var alltaf með í för.
Kannski er þetta mörgum engin tíðindi. Ég veit samt að þó eru aðrir sem trúa því að þegar að draumar rætast þá verði hrein og klár hamskipti. Við klæðum okkur úr göllunum okkar (lesist bæði með hörðum og mjúkum l-um) og yfir í svansham ævintýranna. Gamli sveitavegurinn afleggst og molnar og fyrir framan okkur ekkert nema gljáfægt malbikið sem við rennum eftir í mestu makindum. Ekkert heftir för. Hamingjan er hér. Svo er það bara þannig að við erum og verðum þarna enn. Þó ég hafi í framhaldinu kannski ekki orðið draumaferðafélagi sjálfrar mín gerði þessi opinberun mér gott. Hún var sáttaleið svo ég í allri minni brothættu mennsku fengi að vera með. Síðan höfum við trítlað fram veginn, ég og ég.
Lífið hefur kennt mér að dansa. Ekkert er fast í hendi og þegar ég held að ég hafi náð þessu þá færir lífið mér nýjar áskoranir sem krefjast nýrra tóla í verkfærakistuna. Þá er þarft að dansa á næsta stað og finna tólin sem henta viðfangsefninu. Ég get sveigt mig og beygt og ég get fundið takt við trommuslátt sem ég vissi ekki einu sinni að væri til. Þetta lærði ég ekki í einrúmi, þetta lærði ég af einum mínum stærsta kennara í lífinu, Gabrielle Roth. Gabrielle kenndi mér taktlausri að dansa. Það sem meira er, dansa undir slætti minnar eigin trommu. Annað fólk getur verið svo innilega hjálplegt og ég sendi í huganum þakkir út í alheiminn til allra þeirra góðu kvenna, manna og kvára sem hafa lagt mér lið. Ekkert hefði orðið án ykkar.
Lífið hefur kennt mér að einangrun er hættuleg. Öll stærstu skrímslin vakna í niðdimmri nótt einangrunarinnar, yfirleitt hægt og hljótt. Með útsmoginni útsjónarsemi sinni taka þau yfir sviðið. Sífellt verður erfiðara að greina hvað er satt og rétt því skrímsli geta verið svo hávær þegar þau komast til valda. Þau segja hluti eins og: Þú þarft að vera ein og þú mátt alls ekki segja þetta upphátt! Skrímslin sem komast í bílstjórasætið eru bæði hávær og margorð. Besta meðalið við skrímslasafninu er annað fólk. Ég hef lært að um leið og ég tengist öðru fólki þá horfi ég á skrímslin mín minnka. Um leið og ég segi hlutina upphátt sé ég þau minnka. Í einangruninni verða þeir að þungum klumpum. Lóðboltar við tóm og eyðileggingu. Þegar við sleppum þeim út í formi orða, í vitna viðurvist, hverfur það vald sem þeir tóku sér. Stærstu klumpar hafa gufað upp þegar loft fær að leika um orðin sem skópu þá. Grínlaust. Gufað upp.
Lífið er Legó. Alla daga árið um kring er ég að velja þá kubba sem ég nota í fullbúna verkið sem líf mitt á endanum verður. Þegar tómhyggjan kroppar í mig segir hún mér hluti eins og að ekkert skipti máli. Þetta er ekki neitt! segir hún og gengisfellir val mitt á daglegum grunni í verðlausa mynt í Hvergistan. Ég hef komist að því að miklu fremur en að ekkert skipti máli – þá skipti allt máli. Þessir litlu Legó-kubbar munu á endanum skapa heildstætt verk og eftir því sem ég eldist reyni ég að velja þá af meiri kostgæfni.
Annað sem ég hef lært er að þrif eru ekki varanleg. Engin þrif eru með öllu varanleg. Hvort heldur sem það er heimilið sem sífellt þarf að þrífa betur eða sálin í mér. Sálin safnar ryki og kóngulóarvef ef hún er látin vera. Það getur alveg verið skemmtilegt að stunda ákveðnar fornleifarannsóknir á báðum stöðum, en svo kemur að þeim tímapunkti að maður vill vera búinn að gera birgðatalningu til að þekkja nokkurn veginn hvað það er sem maður er að fást við. Ég mæli með því. Svo kaupir maður nýtt innbú og safnar nýju rusli. Þá er gott að muna bæði eftir birgðatalningunni og tuskunni.
Lífið heldur áfram að kenna mér. Stundum í gusum, stundum smátt og smátt. Allt fram streymir. Ég og þú. Lífið sjálft. Í vangadansi við sjálfa mig dansa ég með lífinu. Ég vel kubbana mína, því ég vil kubba verkið í stað þess að láta verkið kubba mig. Ég dreg fram tuskuna við og við og fægi innviðina. Aldrei ein.
Athugasemdir