Makbeð
Þýðing Kristján Þórður Hrafnsson
Leikmynd Milla Clarke
Búningar og leikgervi Liucija Kvašytė
Tónlist Hrafnkell Flóki Kaktus Einarsson
Lýsing og myndbandshönnun Pálmi Jónsson
Dramatúrg Andrea Elín Vilhjálmsdóttir
Hljóðmynd Þorbjörn Steingrímsson
Makbeð, jarl af Glamis, snýr ásamt Bankó aftur úr stríði þar sem hann hefur brotið aftur uppreisn jarlsins af Kafdor gegn Dunkan Skotakonungi. Á leiðinni úr stríðinu mætir hann þremur nornum sem spá honum frekari frama – hann verði jarl af Kafdor og síðar konungur Skota. Bankó segja nornirnar muni verða ættfaðir kónga en aldrei kóngur sjálfur. Makbeð fer að gæla við tilhugsunina um konungstign og styrkist af því að Dunkan konungur launar honum tryggðina með því að gera hann að jarli af Kafdor. Makbeð segir konu sinni, lafði Makbeð, af spádómi nornanna og hún fyllist metnaði fyrir hönd manns síns og sjálfrar sín og hvetur karl sinn til dáða; þau myrða Dunkan konung, skella skuldinni á þjónana sem áttu að gæta öryggis konungs, Makbeð myrðir þá og er útnefndur konungur.
En framinn er dýru verði keyptur – sálarheill Makbeðs bíður skaða af og hann fer að efast um gjörðir sínar. Lafði Makbeð glímir einnig við samviskukvalir og ljóst er að fengnum frama fylgir ekki nauðsynlega hamingja. Bankó fer að gruna að ekki sé allt með felldu og Makbeð lætur koma honum fyrir kattarnef. Malkolm, sonur Dunkans, ákveður að hefna föðurmorðsins og svo fer að bæði lafði Makbeð og Makbeð eru drepin og Malkolm verður að lokum konungur Skotlands.
Söguþráðurinn er sæmilega þekktur enda er Makbeð – Skoska leikritið einnig kallað vegna þrálátrar hjátrúar innan leikhússheimsins – með þekktari harmleikjum Shakespeares. Makbeð var frumsýndur í upphafi sautjándu aldar að því er talið er og kom fyrst út á prenti 1623, þótt grunur leiki á að sú útgáfa hafi verið nokkuð stýfð miðað við upphaflega gerð frá höfundarins hendi. Hvað sem því líður ber Makbeð öll einkenni klassísks harmleiks eins og við þekkjum harmleikinn frá tímum Grikkja – einstaklingurinn brýtur gegn hagsmunum heildarinnar (ættarveldisins?) í eiginhagsmunaskyni og hlýtur slík málagjöld að við, áhorfendur, skiljum að svona hegðun er óæskileg og okkur sé nær að hlíta því guðlega skipulagi, sem samfélagið felur í sér. Innsæi af því tagi nefndu Grikkir katharsis, sem merkir nokkurs konar hreinsun (af samfélagsfjandsamlegum hugsunum) og viðsnúning að samfélagssátt guðunum þóknanleg.
Leikstjórinn, Uršulė Barto, ákveður í sönnum póstmódernískum anda, að snúa við ákveðnum atriðum í upphaflegri sögu Shakespeares (eins „upphafleg“ og hún kann að vera) og því er Dunkan konungur hér leikinn af konu, Sólveigu Guðmundsdóttur, Lafði Makbeð er kasólétt og sitthvað fleira er breytt og sem Shakespeare hefði tæplega kannast við en kannski fundist fyndið.
Leikritið um Makbeð er skrifað á umbrotatímum. Í Englandi var hið aldagamla sveitasamfélag að líða undir lok og iðnaðarsamfélagið að taka á sig mynd. Borgarsamfélög efldust, verksmiðjur litu dagsins ljós og framleiðsluhættir tóku afgerandi breytingum. Í Makbeð má skynja þessar breytingar í því að í harmleiknum um Makbeð eru persónurnar sýndar ekki aðeins sem retórískar táknmyndir ákveðinna afla, fulltrúar þeirra strauma sem guðirnir stjórna, heldur einnig sem einstaklingar, sem geta efast um eigin gjörðir og jafnvel iðrast þeirra. Það er nálgun í átt að sálfræðidramanu og um það má því segja að leikrit Shakespeares hafi verið álíka „póstmódernistískt“ fyrir sinn tíma og sýning Uršulė Barto er á okkar tímum og má því jafnvel skoða sýningu hennar sem athyglisverða tilraun til að láta tíma ríma við tíma, fortíð við nútíð. Þessi nálgun er studd með þeim leikstíl sem Hjörtur Jóhann beitir á Makbeð – hann er fullur efasemda um voðaverk sín, að hafa brugðist trausti konungs og síðan myrt hann. Þetta er svipuð nálgun og enski leikarinn David Garrick er sagður hafa beitt árið 1744 þegar var í fyrsta sinn stuðst við frumtexta Shakespeares, en sú túlkun naut víst þá lítillar hylli.
Hér hverfur hin sálræna túlkun Hjartar Jóhanns þó fyrir lítið í skuggann af póstmódernískri umgjörð sýningar Uršulė Barto; boldangsleikmynd í anda þýsks eftirstríðsexpressjónisma og alls kyns útúrdúrahugdettur eins og ólétta lafði Makbeð sem fyrr er nefnd, hlaup sjónvarpsfréttamanna á meðal persóna verksins svo ekki sé minnst á nornirnar, sem eru eins konar afkáralegar sæberpönk fígúrur eru vissulega tilraunir til eins konar póstmódernískrar afbyggingar, en þær dreifa athygli áhorfandans og rugla hann í ríminu – þetta eru ekki samstæð tákn og sýningin verður því að eins konar gjörningi og eftir því sem á líður verður æ óljósara hvaða sögu er eiginlega verið að segja og að hvaða niðurstöðu er stefnt. Það verður ekki betur séð en það sé í hróplegri andstöðu við upphaflega narratívu Shakespeares. Til einhvers var það verk þó valið og varla til að koma því fyrir kattarnef – eða?
Það má segja um öll einstök atriði sýningarinnar – leik, leikmynd, gervi, lýsingu, tónlist og hljóðmynd – að þau fylgja stefnu, eða öllu heldur stefnuleysi leikstjórans vel eftir. Allt er tæknilega vel gert og vandað, sýningin er í sjálfu sér ósköp glæsileg og allir vilja augljóslega gera sitt besta, en það er eins og enginn viti hvaða sögu er verið að segja. Upphaflegum texta Shakespeares er augljóslega ekki treyst til að bera söguna frá upphafi til enda – og má reyndar við bæta að textaflutningi er á löngum köflum verulega ábótavant. Það hjálpast þannig allt að til að neita áhorfendum um þann munað að fá að trúa á persónur sögunnar, þær verða boðberar óljósrar stefnu og ómarkvissra viðhorfa leikstjórans og áhorfendur litlu nær fyrir vikið.
Athugasemdir